Ég hef kennt við framhaldsskóla í rúman áratug og þykist viss um að unglingar nú til dags séu að ýmsu leyti betur að sér en fyrir 20 eða 30 árum. Þeir hafa víða farið og aflað sér fjölbreytilegrar reynslu, stór hluti þeirra hefur stundað nám í tónlistarskóla, æft með íþróttafélagi, tekið þátt í leiksýningum og öðrum listviðburðum og yfirgnæfandi meirihluti fer í framhaldsskóla. Að einu leyti eru þeir unglingar sem ég hef kynnst þó furðulega frumstæðir. Þeir hafa ótrúlega lítið vit á tækni.Þeir kunna að vísu að nota flókin tæki eins og bíla, tölvur, hraðbanka, myndbandstökuvélar og farsíma. Þegar ég segi að þeir hafi lítið vit á tækni á ég við að þeir hafi litla eða enga hugmynd um hvernig þessi tæki virka og séu upp til hópa ófærir um að tengja reynslu sína af tækninni við það sem þeir læra í raungreinum eins og efnafræði og eðlisfræði. Þessu fylgir að áhugi á tækni- og raungreinanámi er lítill, sárafáir framhaldsskólanemendur velja eðlisfræði- og tæknibrautir og það er vaxandi skortur á menntuðu fólki í tækni- og raungreinum.
Á þessu eru sjálfsagt margar skýringar. Ein sem ég held að vegi þungt er hvað nútímatækni er flókin. Hversdagslegir hlutir eins og hemlakerfi í bíl, geislaspilari, farsími og myndavél innihalda hugbúnað sem er erfitt að tengja við gang náttúrunnar og örrásir sem eru ósýnilegar og byggja á tækni sem þarf langt nám til að skilja. Það er löng leið frá undirstöðuþekkingu á náttúrunni að skilningi á tölvu- og rafeindatækni nútímans. Fyrir hálfri öld var þetta ekki svona. Þá var vel mögulegt fyrir unglinga að skilja hvernig bifreið, hljómflutningstæki, sími og myndavél virkuðu og tengja reynslu sína af þessum tækjum við fróðleik um náttúruna. Fyrir 20 árum síðan var líka mun algengara en nú að unglingar fengjust við að lappa upp á bilaða bíla, smíða magnara og móttökutæki og framkalla ljósmyndir.
Einföld tilraun með spólu og járnkjarna getur skýrt nokkurn veginn hvað gerist þegar gamaldags sími hringir eða dyrabjalla klingir: Straumurinn í spólunni segulmagnar kjarnann svo hann kippir að sér litlum járnhamri sem um leið slær á skjöld eða bjöllu, loftið titrar og við heyrum hljóð. Það er öllu erfiðara að skilja hvernig nútíma farsími hringir. Við getum rifið hann í sundur en við erum engu nær, við sjáum enga hluti sem hreyfast, engan hamar sem slær á bjöllu eða neitt annað sem hægt er að tengja við hversdagslega reynslu af því að mynda hljóð eða einföld sannindi í náttúrufræði eins og þau að hljóð er bylgjuhreyfing.
Það er ekki nóg með að vélar eins og bílar, sími og hljómflutningstæki séu orðin mun óskiljanlegri en áður var. Leikföng barna eru það líka. Sum klassísk leikföng eins og skopparakringla, þeytispjald, teygjubyssa, mekkanó og flugdreki voru vel til þess fallin að kynna heim tækni og raunvísinda fyrir börnum. Tölvuleikir og sjálfvirk rafeindastýrð nútímaleikföng gera það mun síður.
Menn mega ekki glepjast til að halda að einföld notkun nútímatækni eins og tölvuleikja eða farsíma færi mönnum mikinn skilning á henni. Flestir sem hanga lon og don yfir tölvuleikjum hafa engan skilning á tölvutækni. Amman sem situr inni í stofu, hristir hausinn yfir ofbeldinu á tölvuskjánum og prjónar eftir uppskrift í blaði, er skrefi nær því að skilja heim tölvanna en barnabarnið sem situr með hverja taug þanda og drepur allt sem hreyfist á skjánum. Hún kann þó að lesa prjónauppskriftir sem eru í eðli sínu nauðalíkar tölvuforritum og gæti með hliðsjón af þeim botnað töluvert í hvernig forrit eru hugsuð. Þetta er eitt dæmi af mörgum um hvernig vald á einfaldri tækni, t.d. prjónaskap, getur verið lykill að skilningi á flóknari tækni t.d. tölvum.
Nútímatækni er bæði mun fjarlægari hversdagslegri reynslu af náttúrunni og þeirri náttúrufræði sem kennd er í skóla heldur en tæknin var fyrir 50 árum síðan. Ein afleiðing þessa er að þeir sem alast upp nú öðlast síður skilning á tækni og raunvísindum heldur en foreldrar þeirra sem ólust upp við einfaldari tækni. Þetta hygg ég að sé ein ástæðan fyrir minnkandi áhuga unglinga á raunvísindum og takmörkuðum skilningi þeirra á heimi tækninnar.Raunvísindin hafa fært mönnunum skilning á heiminum og alið af sér tækni sem gerir mönnum mögulegt að komast af án þess að vita mikið um lögmál efnisheimsins. Tækni nútímans hlífir okkur í vissum skilningi við veruleikanum. Til að breyta ull í fat og mjólk í mat þurftu forfeður okkar að hafa meira vit á veruleika náttúrunnar heldur en við þurfum til að raða vörum í innkaupagrind og skrifa undir vísanótu.
Getur verið að hátæknisamfélagið grafi beinlínis undan skilningi á tækni- og raunvísindum og eyðileggi þannig sínar eigin undirstöður? Já og nei. Það gerir mönnum mögulegt að lifa án þess að skilja gang náttúrunnar eða hugsunina á bak við tæknina en það veitir mönnum líka margvísleg tækifæri til náms. Vandinn er að nýta þessi tækifæri á uppbyggilegan hátt.
Nú spyr kannski einhver hvað ég sé eiginlega að rausa. Er ekki nóg að menn kunni að nota tæknina? Get ég ekki notað ritvinnslukerfi án þess að skilja hvernig tölvan virkar og forritið er hugsað? Get ég ekki stöðvað bifreið án þess að skilja tölvustýrð hemlakerfi og notið tónlistar af geisladiskum án þess að hafa hugmynd um hvernig leiser ljós myndast, hvaða munur er á stafrænum og myndrænum upptökum og hvernig merkjareiknir virkar? Jú að vísu. En ef heil kynslóð elst upp án þess að botna neitt í þessum og þvílíkum hlutum þá er úti um frekari tækniframfarir, þá verður veruleiki nútímans líka framandi og jafnvel fjandsamlegur í augum fólks og það dregur úr möguleikum þess á að nýta tæknina af skynsamlegu viti. Hætt er við að í stað raunverulegs skilnings á heiminum komi þá hindurvitni eða einhver önnur uppfylling í það vitsmunalega tómarúm sem myndast þegar hugsun manna og þekking er ekki í samræmi við veruleikann sem við blasir allt um kring.
Við Íslendingar höfum komist upp með að sinna tæknimenntun og raungreinakennslu með hangandi hendi. Við höfum hingað til ekki lifað á eigin tækniþekkingu eins og t.d. Danir og Svíar. Þess í stað höfum við keypt útlend tækniundur og borgað fyrir með fiski. En fiskurinn dugar ekki til að borga fyrir endalaust magn af innfluttri þekkingu. Eigi mannlíf að þróast hér á næstu öld þurfa landsmenn sjálfstætt vald á þekkingunni, annars fer efnahagslíf okkar í vaskinn og ekki bara efnahagslífið heldur menningin líka.
Listir, heimspeki og mannvísindi verða að byggja á einhverjum skilningi á veruleikanum og án þekkingar á raunvísindum og tækni nútímans verður þessi skilningur grunnur og yfirborðslegur og menningin ómerkileg að sama skapi. Það er efni í aðra grein að rökstyðja þessa fullyrðingu. Hér læt ég duga að minna á að skilningur manna á sjálfum sér og myndhverfingarnar sem þeir nota til að skýra fyrir sér veruleikann eiga sér meðal annars rætur í heimi tækninnar. Á miðöldum snerust mylluhjól í lækjum og ám suður um alla Evrópu, tannhjól og öxlar færðu afl straumvatnsins að sagarblaði, kvernsteini og físibelg í smiðju. Hið hverfanda hvel var tákn fyrir örlög karla og hjartalag kvenna. Á síðustu öld þegar gufuvélar blésu og ventlar flautuðu í eimreiðum og fljótabátum urðu þrýstikatlar að táknmynd sálarlífsins. Gleggsta dæmið um þetta er sálarfræði Sigmundar Freud þar sem villtar hvatir ólmast í undirvitundinni og yfirsjálfið er eins og ventill sem hleypir sumum þeirra upp í vitundina svo maðurinn springi ekki. Nú eru það hvorki hjólið né aflvélarnar sem menn sækja líkingar til heldur tölvutæknin. Sálin er forrit og heilinn tölva. Ríkjandi tækni mótar tíðarandann og hugsunarháttinn á ótal vegu. Það er meðal annars þess vegna sem listir, heimspeki og mannvísindi verða úr takti við tímann ef iðkendur þeirra hafa ekki lágmarksþekkingu á heimi tækninnar.
Hvað er til ráða? Hvernig er hægt að auka áhuga ungs fólks á tækni og glæða skilning á þeim greinum raunvísinda sem tæknimenning nútímans byggist á? Ég held að greiðasta leiðin til skilnings á flókinni tækni sé reynsla af einfaldari tækni og hún sé líka til þess fallin að glæða skilning á undirstöðuatriðum náttúru- og raunvísinda. Ég hef fært rök að því að þessa reynslu öðlist börn og unglingar nútímans ekki af því einu að vaxa upp og vera til. Það sem fólk þarf að kunna og nemur ekki annars staðar verða skólarnir að kenna því. Það er því varla um annað að ræða en auka tæknimenntun í grunnskólunum.Ef nemendur í 6. bekk smíðuðu dyrabjöllu með því að vefja sjálfir spólu þá yrðu þeir móttækilegir fyrir eðlisfræðilögmálum um samband rafmagns og segulmagns þegar þeir koma í framhaldsskóla. Ef krakkar í 7. bekk smíðuðu þráðlausan sendi eða útvarp þá skildu þeir betur það sem kennt er um rafsegulbylgjur í framhaldsskóla, könnuðust við smára og gætu því betur áttað sig á undirstöðum tölvutækninnar. Ef 8. bekkingar lærðu einfalda forritun þá fengju þeir forsendur til að skilja sjálfvirkan rafeindabúnað. Svona mætti lengi telja en ég læt þessi dæmi duga.
Ég er viss um að fái nemendur grunnskóla tækifæri til að vinna verk af því tagi sem hér voru nefnd með eigin höndum stóreykst áhugi þeirra á að læra meira og þeir verða hagvanir og finna sig heima í veröld tækninnar. Verði þessu fylgt eftir með því að auka kennslu í verkmenntum og handavinnu eins og fatagerð, matreiðslu, smíði og ég tala nú ekki um ef þessi handavinna verður tengd tæknigreinunum þá verður næsta kynslóð ekki bara færari um að sjá sér farborða á 21. öldinni heldur verður skólaganga hennar líka ánægjulegri.
Nú halda kannski einhverjir að þau viðfangsefni sem ég taldi upp séu of flókin og erfið fyrir 10 til 15 ára krakka. Það er vafalaust hægt að gera þau of flókin og erfið, en það er líka hægt að kenna þau þannig að 10 til 15 ára nemendur hafi gagn og gaman af.
Nýlega beindist athygli manna að slakri stærðfræðikunnáttu íslenskra skólabarna. Sjálfsagt eru ástæðurnar fyrir þessu kunnáttuleysi margvíslegar en mér þykir trúlegt að ein þeirra sé hvað stærðfræðin er lítið notuð í öðrum greinum. Grunnskólanemendur læra lítið sem ekkert í tækni og raungreinum þar sem stærðfræðinni er beitt á veruleikann. Þeir upplifa algebru, rúmfræði og ýmsar reiknilistir því sem tilgangslausan og innihaldslausan formalisma. Kennsla í tæknigreinum þar sem stærðfræðinni er beitt á áþreifanleg viðfangsefni er trúlega vel til þess fallin að bæta árangur í stærðfræði, jafnvel betur en aukning á hefðbundinni stærðfræðikennslu.Það er engin leið að troða rafmagnstækni, aukinni verkmenntun og tölvuforritun inn í stundatöflur grunnskólanna. Þar eru þegar of fáir tímar fyrir of mörg fög. Eina leiðin til taka á vandanum er að fjölga vikustundum. Fimm viðbótarstundir á viku sem allar færu í tækni- og verkmenntir mundu breyta miklu, ekki bara fyrir námsgengi nemenda í framhaldsskóla, hag fyrirtækja og tækniframfarir á næstu öld heldur líka fyrir sjálfsmynd nemendanna og möguleika þeirra á að ganga upplitsdjarfir inn í heim nútímatækni.
Ég geri mér engar grillur um að þetta verði ódýrt. Kennsla í verklegum greinum, handavinnu og tækni er dýr. Víða þarf að byggja alla aðstöðu fyrir hana frá grunni og ráða kennara sem dettur ekki einu sinni í hug að vinna fyrir þau laun sem nú bjóðast í skólunum. Hér er því ekki verið að ræða um fáeinar milljónir til aldamóta heldur einhverja milljarða. En það er betra að sjá af þeim en halda áfram á þeirri braut sem skólarnir eru nú á og leiðir ekki til neins annars en þess að við drögumst aftur úr og töpum áttum í heimi tækninnar.
Atli Harðarson - 1997
Netútgáfan - mars 1998