Atli Harðarson


MEISTARI EÐA ÞJÓNN!


Eftir að ég las greinina hennar Helgu Sigurjónsdóttur, "Þjónn eða meistari" í síðasta tölublaði Nýrra Menntamála fór ég að velta fyrir mér ýmsum hugmyndum sem uppi eru um hlutverk kennara.

Það ætti að vera óþarfi að taka það fram að skóli snýst um nám og kennslu. Öll önnur störf sem unnin eru í skólum, svo sem stjórnun, stundatöflugerð, ræstingar, ráðgjöf, bókhald og bókasafnsvarsla eru þjónustustörf og til þess eins að greiða fyrir námi og kennslu. Kennararnir eiga að vera meistarar, annað starfsfólk þjónar.

Ég er alls ekki að gera lítið úr störfum húsvarða, ræstingafólks, skrifstofufólks, stjórnenda, bókavarða og annarra, aðeins að minna á að þessi störf tengjast tilgangi skólanna með allt öðrum hætti en starf kennara.

Tilgangur skóla er nám og kennsla alveg eins og tilgangur spítala er bati og lækningar. Læknar og hjúkrunarkonur eru vonandi ekki í neinum vafa um að þeirra starf er aðalstarfið og önnur störf sem unnin eru á spítalanum, eins og stjórnun, matreiðsla, þvottur, viðgerðir og viðhald eru til þess að greiða fyrir lækningum og bata. Ef þau gera það ekki þá eru þau einskis virði.

Hvers vegna er ég að minna á svona sjálfsagða hluti? Vegna þess að svo virðist sem alls konar annarlegum skoðunum um starf kennara vaxi fylgi um þessar mundir. Dæmi:

Það er æ oftar talað um kennara með orðalaginu "starfsfólk skóla". Þessa gætir meðal annars í plöggum frá skólameistarafélaginu og Menntamálaráðuneytinu. Með þessu virðist gefið í skyn að þeir hafi enga sérstöðu. Þeir séu bara eins og annað starfsfólk skólanna og eigi að sinna verkefnum sem stjórnendur ákveða.

Í umræðum um nýbreytni í skólastarfi og skólaþróun heyrist orðið skólasamningur af vörum alls konar fólks. Hugmyndin virðist vera sú að kaupa kennara til að vinna til dæmis við skrifstofustörf og gæslu af ýmsu tagi og fá þá til að vera við á skrifstofutíma og reka erindi yfirmanna sinna. Nái þessar hugmyndir fram að ganga þá blasir við að eftir nokkur ár verða kennarar bundnir í skólanum milli 8 og 5. Faglegt sjálfstæði og frjáls vinnutími verður hvort tveggja farið veg allrar veraldar. Og launin, ég á eftir að sjá að þau hækki. Ætli við verðum ekki áfram á markaðslaunum, það er að segja launum sem duga til þess að hægt sé að manna flestar stöður.

Hvers vegna ætli þessar hugmyndir um skólasamninga gangi í kennara? Viðveruáráttudraugurinn (sem ég hef fjallað um hér á þessari ráðstefnu) á hér sjálfsagt hlut að máli. Einnig virðast "nútíma stjórnunarfræði" koma við sögu. Auk þess er fólk allt í einu farið að halda að í skólum þurfi að gera svo óskaplega margt annað en að kenna og læra. Ekki veit ég hvað þetta er sem liggur svona mikið á að gera en mér skilst á sumum að hlutverkum skóla hafi allt í einu fjölgað svo mikið að kennsla sé nú bara ein deild af mörgum.

Skólameistarafélagið heldur því fram að gerbreyta þurfi kjarasamningum kennara, þeir séu þrándur í götu framfara.

Hvað þýðir þetta? Vonandi þýðir þetta ekki að skólameistarar telji það framför ef kennarar verða bara óbreyttir starfsmenn sem hægt er að setja í alls konar verk, kannski í að sinna öllum þessum merkilegu hlutverkum sem hafa verið að bætast við á undanförnum árum og enginn veit hver eru.

Í ályktunum frá alls konar hópum og félögum er þess krafist að skólarnir breyti starfsháttum sínum til þess að bæta einhver samfélgasmein. (Nýlegt dæmi er frá Alþingi í greinargerð með þingsályktunartillögu Árna R. Árnasonar þar sem farið er fram á að skólarnir taki upp kennslu í atvinnufræði og kveðið á um í töluverðum smáatriðum hvernig þessi kennsla eigi að vera og hvernig verkefni nemendur eigi að vinna. Annað nýlegt dæmi er umræður um skólamál á síðasta ASÍ þingi.)

Kennarar eiga ekki að láta fólk sem ekkert veit um starfið segja sér fyrir verkum. Við eigum að álykta gegn svona þingsályktunartillögum.

Í umræðum um skóla heyrist æ oftar talað um stjórnunarfræði. Mér skilst að sumir telji þetta vera mikil vísindi og álíti jafnvel að stjórnun sé aðalstarfið í skólunum.

Þessi blessuð fræði voru blásin út af bandaríkjamönnum þegar þeir uppgötvuðu að iðnaður þeirra væri ekki samkeppnisfær við þann japanska. Þau snúast um hvernig hægt sé að bæta stjórn, auka afköst og minnka kostnað í stórum fyrirtækjum með flókið valdakerfi. Hlutverk þeirra er líka að gefa möppudýrum af ýmsu tagi hugmyndafræði svo þau geti réttlætt tilveru sína. Til þess að hægt sé að heimfæra þessi fræði upp á skóla þarf fyrst að byggja yfir þá flókið valdakerfi. Kennarar sem kenna hver sitt fag og taka sameiginlegar ákvarðanir sem hópur jafningja þurfa ekki nein stjórnunarfræði.

Skólameistarafélagið hefur nú um sinn beitt sér fyrir því að "nútímalegar hugmyndir um rammastjórnun, markmiðsstjórnun og valddreifingu nái fótfestu í íslenska skóla- kerfinu." Mér skilst að enn eitt lausnarorðið sé "gæðastjórnun". Hvernig væri að HÍK óskaði eftir skýringum á þessari stefnu Skólameistarafélagsins?

Á árum áður voru kennarar við framhaldsskóla hópur jafningja með einn yfirmann, skólameistara, sem yfirleitt kenndi töluvert og var ekkert mjög hátt yfir þá hafinn. Með framhaldsskólalögum var vald skólameistara aukið töluvert. Jafnframt þessu hefur stjórnunarstörfum í skólum fjölgað. Milli hins almenna kennara og skólameistara eru komnir áfangastjórar, námsráðgjafar, deildarstjórafundir og það er rætt um að efla gæðamat og stofna stöður fagstjóra, sem yrðu væntanlega 3 eða 4 við hvern skóla og hefðu yfirumsjón með kennslu í stórum flokki greina. (Ekki skilja orð mín svo að ég sé á móti gæðamati af þeirri gerð sem Hjálmar skólameistari á Suðurnesjum hefur verið að kynna.)

Þetta er afturför. Við eigum að standa vörð um stöðu okkar sem hópur jafningja með einn yfirmann. Við eigum að standa fast á því að öll önnur störf í skólum séu til þess eins að greiða fyrir námi og kennslu sem kennarar stjórna og bera ábyrgð á.

Hvers vegna er ég að minna á þetta? Er einhver raunveruleg hætta á ferðum? Stendur kennurum einhver ógn af námsráðgjöfum, áfangastjórum, "nútíma stjórnunarfræðum", skólasamningum eða umræðum á Alþýðusambandsþingi? Er þetta ekki bara raus í mér?

Það sem skelfir mig er tilhugsunin um að við lendum í sömu spennitreyjunni og kennarar við suma ríkisreknu framhaldsskólana í Bandaríkjunum. Þar hefur verið tekið tillit til "nútíma stjórnunarfræða" síðan löngu fyrir guðsminni og þar hafa menn byggt svo fullkomið kerfi stjórnunar og gæðaeftirlits að:

* Venjulegur kennari fær kennsluáætlun og "teacher proof curriculum" í upphafi annar;
* Eftirlitsmenn kíkja inn í tíma hjá honum við og við og fylla út eyðublöð;
* Öll próf sem máli skipta eru send frá æðri stöðum;
* Valdapíramídinn er svo hár að venjulegur kennari hefur litla möguleika á að ná sambandi við toppinn og þeir á toppnum hafa ekkert samband við nemendur nema gegnum ótal milliliði;
* Kjör kennara eru álíka slæm og hér;
* Árangur nemenda er lakari en í öðrum iðnvæddum ríkjum.

Mér dettur auðvitað ekki í hug að deildarstjórafundir eða einn lítll skólasamningur bindi kennara í ameríska í spennitreyju. En ef:

* Hugmyndir um skólasamning ná fram að ganga og vinnutími verður bundinn frá 8 til 5;
* Kjarasamningum verður umturnað á þann veg að sjálfstæði kennara minnkar og þeir verða "skólastarfsmenn" sem skulu hlýða sínum yfirboðurum;
* Valdapíramídinn í skólunum verður hækkaður með því að stofna stöður fagstjóra;
* Vald námsráðgjafa og sérfræðinga, svo sem skólasálfræðinga, verður aukið;
* Þau próf sem máli skipta verða send frá æðri stöðum (t.d. frá Háskólanum);
* Skólum verða fengin annarleg hlutverk sem kennarar hafa ekki stjórn á;
* Farið verður að miðstýra kennslu, til dæmis frá skólum sem gegna hlutverki "forystuskóla" í einstökum fögum;
* Utanaðkomandi aðilar (t.d. Alþingi) fá (eða taka sér) vald til að ákveða kennsluefni og kennsluaðferðir og
* "Nútímalegar hugmyndir" um stjórnun ná fótfestu í skóla kerfinu;

Ef þróunin verður í þessa átt þá verða kennarar komnir í spennitreyju eftir nokkur ár. Þá verður lítið um sköpunargleði og faglegan metnað í skólastofunum. Hér er raunveruleg hætta á ferðum vegna þess að:

* Valdakerfi hafa tilhneigingu til að vaxa og því ofvaxnari sem þau eru því duglegri eru þau að búa til ástæður handa sér til að stækka enn meir;
* Hver einstök breyting kann að virðast gagnleg og í augum þeirra sem alltaf leita tæknilegra lausna á öllum vandamálum kann hún jafnvel að virðast bráðnauðsynleg. (Þessi tæknihyggja birtist meðal annars sem viðleitni til að búa til kerfi sem leysa vandamálin í stað þess að auka svigrúm þeirra sem næst standa vettvangi til að leysa þau hver á sinn hátt og treysta þeim til að gera það.)
* Tæknihyggja og kerfishugsun eru ríkjandi í umræðum um skólamál.
* Kennara skortir faglegan metnað og sjálfstraust og eru auk þess flestir of kurteisir (eða kannski skaplausir) til þess að standa vörð um starf sitt.

Kennarar mega ekki glata faglegri ábyrgð. Þeir mega ekki lenda neðst í einhverjum valdapíramída. Þeir mega ekki verða bara óbreyttir starfsmenn sem hlýða sínum yfirmönnum milli 8 og 5. Þeir mega ekki láta blekkjast af tali um að skólasamningar bæti kjörin. Þeir mega ekki horfa upp á það aðgerðalausir að stjórnunaraðferðum, sem búnar hafa verið til í þeim tilgangi að bandarískur bílaiðnaður geti keppt við þann japanska, verði troðið upp á íslenska skóla.

Atli Harðarson - 1992


Netútgáfan - janúar 1997