Atli Harðarson


AÐ LESA OG SKRIFA LIST ER GÓÐ


1.  INNGANGUR

Fyrir rúmum fimm árum birtist erindi í Þjóðviljanum eftir Þorstein Gylfason heimspeking og fyrrverandi kennara minn. Erindið hefst á þessum orðum: "Menning er að gera hlutina vel." Svo segir Þorsteinn frá heimsókn sinni í skóverksmiðju í Tékkóslóvakíu. Þetta var gömul verksmiðja og hafði áður verið fræg fyrir góða skó. Nú gef ég Þorsteini orðið:

... Þegar ég kom til Zlín var allt í niðurníðslu. Hvorki verksmiðjunni sjálfri né heldur verkamannabústöðunum hafði verið haldið við, hvað þá að umbætur hefðu átt sér stað. Skórnir sem það gerði voru ræflar, eins og margir Íslendingar muna frá haftaárunum þegar varla fengust aðrir skór en tékkneskir hér á landi. Svo var það einkennilegt að vera leiddur um verksmiðjuna. Þá laut hvert einasta mannsbarn höfði. Fyrst gekk maður auðvitað að því vísu að þetta væri þrælsótti í fólkinu. En svo sá ég framan í mann og áttaði mig á því sem reyndist rétt: fólkið var að skoða skóna sem við útlendingarnir höfðum á fótunum. Þetta var handverksfólk sem hafði varðveitt áhugann á handverki sínu, og virðingu sína fyrir því, þrátt fyrir drabbið í kringum sig. Það vildi að minnsta kosti fá að virða fyrir sér almennilega skó úr því það fékk ekki að smíða þá sjálft. Þetta sýnir að menning getur lifað þótt kjör fólks bregðist. En það breytir engu um hitt að það versta sem hægt er að gera manni er að leyfa honum ekki að gera það vel sem hann gerir.1

Erindi Þorsteins kom upp í huga minn þegar Hafþór Guðjónsson bað mig að tala á þessari ráðstefnu og sú hugsun gerðist áleitin að líkt sé komið fyrir okkur framhaldsskólakennurum og hinu heillum snauða verksmiðjufólki í Zlín. Okkur langar til að vinna vel svo skólarnir verði almennilegar menningarstofnanir en þótt við leggjum okkur öll fram þá tekst það ekki, að minnsta kosti ekki nema til hálfs.


2.  TILGANGUR FRAMHALDSSKÓLA

En hvað er það sem við viljum gera vel? Og hvers vegna tekst það ekki betur? Ég ætla að reyna að svara fyrir spurningunni núna. Sú seinni bíður þar til í næsta kafla. Í Námskrá handa framhaldsskólum frá 1990 segir:

Markmið náms á framhaldsskólastigi er í megindráttum þríþætt:
-að veita hverjum og einum menntun sem nýtist í daglegu lífi og tómstundum
-að veita undirbúning til áframhaldandi náms í sérskólum eða háskólum og
-að veita undirbúning til ákveðinna starfa í atvinnulífinu.2

Ætli það sé ekki þetta sem við viljum gera vel. Það er ekki verulegur ágreiningur um markmið framhaldsskólanna. Hins vegar vefst fyrir mönnum hvernig þessum markmiðum verði best náð. Hvernig menntun er það sem nýtist fólki helst í daglegu lífi og tómstundum? Hvaða kunnáttu eða hæfni þurfa menn að tileinka sér í framhaldsskóla til að geta staðið sig vel í háskóla? Hvernig á að undirbúa fólk undir þátttöku í síbreytilegu atvinnulífi?

Er eitthvað sem við getum kennt öllum nemendum í trausti þess að það nýtist þeim hvort sem þeir munu vinna heima við að gæta bús og barna, sækja sjó eða stjórna fyrirtæki? Er eitthvað sem við getum kennt öllum stúdentsefnum og gert ráð fyrir að nýtist þeim hvort sem þau fara í verkfræði eða viðskiptafræði, líffræði eða lögfræði?

Sé svarið við þessum spurningum neitandi er þá hægt að tala um almenna menntun á framhaldsskólastigi? Verðum við þá ekki að líta svo á að allt framhaldsskólanám sé einhvers konar sérnám?

Ég held að svarið sé ekki neitandi og það sé hægt að veita almenna menntun á framhaldsskólastigi, sem nýtist öllum hvort sem þeir ætla í háskóla eða ekki. Ég held líka að það eigi að vera keppikefli okkar að veita öllum slíka menntun. Sú menntun sem hér um ræðir er aðallega hæfni í lestri, skrift og reikningi og annarri meðferð máls og talna ásamt grundvallarþekkingu í náttúrufræði og mannvísindum.

En læra krakkarnir ekki lestur, skrift og reikning í grunnskóla? Jú, flestir komast töluvert áleiðis í þessum undirstöðugreinum áður en þeir byrja í framhaldsskóla. En ekki nógu langt og menn verða seint fullnuma í þeim. Ég þykist vera læs en les samt ekki nema tvö eða þrjú tungumál og lendi oft í basli með að skilja texta. Ég þykist líka skrifandi en vildi þó bæði geta vélritað hraðar og orðað hugsanir mínar betur. Ég hef fengist við að kenna stærðfræði en um daginn rakst ég á spurningu um hvað hægt er að skipta hundraðkalli í smámynt á marga vegu og stóð alveg á gati. Þá hjálpaði það mér að vera læs og geta lesið útskýringar á því hvernig hægt er að reikna þetta.

Þegar grunnskólanemandi hefur lært að stauta getur hann farið að lesa bækur og texta við sjónvarpsmyndir og tileinka sér efni þeirra. Seinna lærir hann líka að lesa önnur mál, texta sem innihalda stærðfræðitákn og útleiðslur og meta góðan skáldskap. Ef allt fer vel getur hann nokkrum árum eftir að grunnskóla lýkur gengið af öryggi um handbækur og uppflettirit á móðurmálinu og tveim eða þrem erlendum málum og náð þannig valdi yfir flókinni tækni, notið þess að lesa Íslendingasögurnar og endursagt börnum ævintýri sem hann hefur numið af bókum. Svona eiga nemendur að verða læsir, ekki bara stautfærir. Eins eiga þeir ekki bara að geta dregið til stafs heldur líka samið læsilegan texta og gengið vel frá honum með ritvél eða tölvu.

En á þá ekki að gera neitt annað í framhaldsskólum en að æfa nemendur í meðferð máls og talna og kenna þeim raungreinar og mannvísindi eins og sögu? Jú, jú. Þar á að sjálfsögðu að gera fleira. En við þurfum að setja viðfangsefnin í rétta forgangsröð og hæfni í móðurmáli, reikningi og einu eða tveim erlendum málum á að vera fremst í röðinni. Þar á eftir á svo að koma kunnátta í einhverjum greinum náttúru- og mannvísinda.

Nái nemendur góðu valdi á öllu þessu þá munu þeir standa sig í sérnámi hvort sem er í háskóla, framhaldsskóla eða við aðrar menntastofnanir og þá munu þeir geta lært af sjálfum sér flest fræði sem þarf að grípa til í daglegu lífi. Sé hæfni þeirra í þessum efnum hins vegar ábótavant þá getur ekkert nám í öðrum greinum bætt það upp.

Þessi hugmynd mín um forgangsröð er víst hvorki ný né frumleg. Hún er, vona ég, ekkert annað en hversdagsleg heilbrigð skynsemi. Hefðbundið framhaldsskólanám hefur snúist að miklu leyti um þessi efni og þar sem vel tekst til fá nemendur þjálfun í þeim í móðurmáli, tungumálum, stærðfræði, vélritun, tölvufræði, raungreinum, samfélagsgreinum og ef til vill fleiri fögum.

Ég ætla að láta þetta duga um forgangsgreinar í öllu framhaldsskólanámi og snúa mér næst að undirbúningi fyrir háskólanám.

*
Í bæklingi sem Menntamálaráðuneytið og Háskóli Íslands gáfu út og heitir Undirbúningur náms við Háskóla Íslands, segir:

Í fyrsta lagi gerir háskólanám kröfu um almenna menntun, til dæmis um allgóða undirstöðuþekkingu á náttúrunni og mannlegu samfélagi í nútíð og fortíð. Miðað er við að nemendur með íslenskt stúdentspróf fullnægi þessari kröfu.

Í öðru lagi þarf nemandinn að hafa hlotið þroska og ögun í vinnubrögðum með því að hafa kynnt sér nokkuð rækilega eitthvert tiltekið og hæfilega afmarkað svið bóklegrar þekkingar. Slíkt nám þarf að rista sæmilega djúpt þannig að ekki sé eingöngu fengist við inngangsatriði hverrar námsgreinar. /.../

í þriðja lagi gera nær allar námsbrautir Háskólans kröfur um undirbúning í nokkrum tilteknum greinum. Þessar greinar eru íslenska, enska, danska eða önnur Norðurlandamál, stærðfræði og tölvunotkun.3

Það eina sem hægt er að setja út á þessa tilvitnun er að atriðin eru talin í öfugri röð: það mikilvægasta, sem er hæfni í málnotkun og stærðfræði, er talið síðast.

Krafan um að hver nemandi sem hyggur á háskólanám kynni sér eina fræðigrein rækilega er að minni hyggju afar mikilvæg. Til þess að stunda háskólanám þurfa menn að hafa tamið sér öguð og fræðileg vinnubrögð. Þetta gera þeir best með því að læra eitthvað vel, kafa djúpt í eina grein. Það er lítils virði að reka nefið ofan í tíu greinar án þess að ná góðu valdi á neinni þeirra. Svoleiðis menntun fær fólk með því að horfa á fræðslumyndir í sjónvarpinu. Hún er þokkalegt viðbit en ekkert meira en það.

Auk hæfni í lestri, skrift og reikningi og rækilegra kynna af einni fræðigrein kvað háskólanám krefjast undirstöðuþekkingar á náttúrunni og mannlegu samfélagi. Slíka þekkingu hljóta nemendur að sækja að nokkru til fjölmiðla og almennra kynna af mannlífinu. En framhaldsskólanám í raungreinum og mannvísindum ætti að dýpka hana og skerpa.

Þessar bollaleggingar um undirbúning undir háskólanám má draga saman með því að segja að þeir sem taka stúdentspróf og fá rétt til inngöngu í háskóla eigi að hafa töluverða þjálfun í meðferð máls og talna og annarri grunndvallarhæfni umfram það lágmark sem öllum er ætlað, rækileg kynni af að minnsta kosti einni fræðigrein og einhver kynni af náttúru- og mannvísindum.

*

Einhverjum kann að virðast ég leggja ofuráherslu á hefðbundið bóknám. Hvað um verknám? Hvað um menntun skaps, tilfinninga og gildismats? Best er að ég svari þessu með verknámið fyrst.

Auðvitað þurfa framhaldsskólar að mennta iðnaðarmenn, tæknimenn og ýmsar starfsstéttir og þar hlýtur verknám að koma við sögu. En það er mikill misskilningur að verknám geti á einhvern hátt komið í staðinn fyrir lestur, skrift og reikning. Verknám byggist á þessum greinum. Sá sem ekki hefur náð þokkalegu valdi á lestri, skrift og reikningi getur hvorki lært iðnir eins og smíðar eða hárgreiðslu né stundað starfsnám í fögum eins og vélstjórn eða tækniteiknun. Það er vissulega misjafnt eftir greinum hversu mikið nemandi þarf að geta til dæmis í reikningi- en allir verða að kunna venjulegan talnareikning, geta lesið úr tölulegum upplýsingum í línuritum og töflum og unnið með prósentur.

Því er stundum haldið fram að það þurfi að bjóða upp á verknám fyrir þá sem koma inn í framhaldsskóla illa læsir eða með lélegan undirbúning í reikningi. Það kann að vera eitthvað til í því að þetta fólk geti stundum staðið sig betur í verknámi en hefðbundnu bóknámi, en umfram allt þarf samt að kenna því að lesa og reikna. Framboð á léttu verknámi má ekki verða afsökun fyrir því að senda nemendur ólæsa út í lífið.

*

Þetta var um verknámið. Nú sný ég mér að skapinu og tilfinningunum. Á skólinn bara að þjálfa vitið? Þarf ekki líka að siða nemendur, þroska smekk þeirra, samskiptahæfni og gildismat?

Ég ætla síst að gera lítið úr nauðsyn þess að leggja rækt við aðra mannkosti en bókvit. Góðir siðir, fágaður smekkur og göfugt hjartalag eru viðkvæmur gróður sem þarfnast ræktunar. Ósiðirnir, lestirnir og heimskan spretta hins vegar af sjálfu sér eins og annað illgresi. (Þeir eru líka eins og illgresið að því leyti að þeir teygja sig aldrei hátt og rætur þeirra liggja, sem betur fer, sjaldan mjög djúpt.) Þetta er ástæðan fyrir því að það þarf að hafa svona mikið fyrir því að ala fólk upp og vissulega er því verki engan veginn lokið við fimmtán eða sextán ára aldur þegar unglingar hefja nám í framhaldsskóla. Samt hef ég miklar efasemdir um að framhaldsskólar eigi að miða námsskrá sína við alhliða uppeldi og þroska.

Hlutverk skólanna er að kenna nemendum en ekki að taka þá í fóstur. Við kennararnir getum þó lagt nokkuð af mörkum með því að sýna unglingunum umhyggjusemi og gott fordæmi á sem flestum sviðum og vanið þá við vinnusemi, aga og heilbrigðan metnað. En ekkert af þessu krefst breytinga á námsskrá.

Við verðum að vara okkur á tilhneigingunni til að fela skólunum of mörg verkefni. Við getum unnið vel ef við einbeitum okkur að fáeinum aðalatriðum. Ef við reynum að leysa öll möguleg vandamál, uppfylla allar hugsanlegar þarfir og veita hverjum manni menntun á öllum sviðum þá dreifum við kröftunum of mikið til að gera nokkurn hlut sómasamlega. (Ég er ekki ákaflega fróður um grunnskólakennslu, en mér virðist stundum eins og grunnskólarnir hafi dottið í þessa gryfju.)

Við verðum líka að vara okkur á því að gefa fyrirheit sem ekki er hægt að standa við. Skóli sem segir foreldrum að þeir skuli engar áhyggjur hafa af börnum sínum, skólinn passi þau, getur aldrei staðið við fyrirheit sín. Svoleiðis skóli ruglar fólk bara í ríminu.


3.  HVERNIG ÞJÓNA FRAMHALDSSKÓLARNIR TILGANGI SÍNUM?

Þessi kafli ætti eiginlega að fjalla um kjaramál kennara, atgervisflótta úr stéttinni, óhóflegt vinnuálag, alltof stóra nemendahópa, fáránlega flókna kjarasamninga og furðulegar tilraunir ríkisvaldsins til að efna sífellt til ófriðar við starfsfólk skólanna. Þið kunnið þessa sögu. Hún er ljót. Ég þarf ekki að rifja það upp að í maí 1989 var gerður kjarasamningur milli HÍK og fjármálaráðuneytisins sem gaf kennurum von um frið og skárri afkomu. Nokkrum mánuðum síðar hótuðu 'aðilar vinnumarkaðarins' að leggja allt atvinnulíf í landinu í rúst ef staðið yrði við þennan samning. Ráðherrarnir komu saman og ákváðu að láta undan hótuninni. Þeir vissu sjálfir að þeir voru að gera rangt. Þeir vissu vel að þeir eiga ekki að láta hótanir um hryðjuverk hafa áhrif á sig. En þeir þorðu ekki annað.

Það ætti að vera óþarfi að tönnlast á því sem allir vita svo ég læt þetta duga um kjaramál. Bæti því bara við að umbætur í skólamálum hljóta að ganga erfiðlega nema fyrst sé saminn friður milli kennara og vinnuveitanda þeirra.

*

En hvaða umbætur þarf að gera? Áður en ég geri grein fyrir því þarf ég víst að útskýra hvað er að.

Sumir unglingar kunna ekki samlagningu og margföldun þegar þeir byrja í framhaldsskóla. Í þeim tilgangi að búa fólk undir háskólanám láta framhaldsskólarnir fyrsta árs nemendur læra algebru. Til að koma til móts við þann hluta hópsins sem ekki kann talnareikning er fundin málamiðlun. Þeir eru settir í hægferð í þeirri trú að þeir geti melt algebruna bara ef þeir eru mataðir nógu hægt. Sönnunum er sleppt og þar sem gert er ráð fyrir að hægferðar- og hraðferðarnemendur læri sama efnið er líka hætt að leggja áherslu á sannanir og útleiðslur í hraðferðinni. Auðvitað læra þeir sem ekki kunna talnareikning enga algebru. Ef þeir læra eitthvað þá læra þeir að hafa minnimáttarkennd og að láta sér leiðast í stærðfræðitímum.

Sumir unglingar eru algerlega úti á þekju í stafsetningu og hafa ekki lesið nema örfá skáldverk þegar þeir byrja í framhaldsskóla. Til að undirbúa unglingana undir háskólanám kenna framhaldsskólarnir þeim bókmenntasögu, bókmenntagreiningu, setningafræði, hljóðfræði og önnur vísindi um málið og bókmenntirnar. Þeir sem ekki geta skrifað læsilegan stíl og hafa ekkert lesið af skáldskap fá ósköp lítið út úr þessari kennslu. Til að koma til móts við þarfir þeirra er fundin málamiðlun: Kennslan er þynnt út og skotið inn í hana stafsetningu, lestri og öðru sem þá seinfærustu bráðvantar æfingu í. Þeir sem kunna stafsetningu þokkalega úr grunnskóla og hafa lesið eitthvað af bókmenntum þurfa svo lítið sem ekkert að hafa fyrir því að lepja þetta útþynnta námsefni.

Þessar málamiðlanir eru ómögulegar. Til samanburðar getum við hugsað okkur sundkennara sem fær nemendahóp þar sem sumir eru miklir sundgarpar og aðrir með öllu ósyndir. Það væri hliðstæð málamiðlun við þær sem ég var að lýsa ef hann setti kút á allt liðið og skipaði því svo að synda af stað. Hvað gerist? Þeir ósyndu dragast aftur úr, gefast upp og hætta. Hinir komast að því að það er hægt að hafa kennarann góðan með því að svamla fram og aftur í rólegheitum og bíða eftir að tíminn sé búinn.

Það er hægt að nefna fleiri málamiðlanir sem koma í veg fyrir að hægt sé að vinna vel í framhaldsskólum. Þeir sem ætla í háskóla þurfa að venjast á fræðileg vinnubrögð og það gera þeir ekki nema þeir kafi djúpt í eitthvert viðfangsefni: læri mikið í sama faginu. Flestir kennarar vilja að þetta fag, sem nemendur læra mikið í, sé sitt fag. Og hvað gerir skólinn? Málamiðlun. Hann reynir að koma til móts við alla kennarana með því að láta nemendur læra sitt lítið af hverju. Útkoman er námsskrá sem líkist einna helst sjónvarpsdagskrá þar sem frímínúturnar koma í staðinn fyrir auglýsingar milli dagskrárliða.

Já, það er ýmislegt að í framhaldsskólunum. Við skulum samt ekki hrapa að þeirri niðurstöðu að þeir séu alveg vonlausir, því það eru þeir ekki. Við skulum frekar gera okkur skipulega grein fyrir göllum þeirra og takast á við þá.

*

i.
Einn helsti veikleiki framhaldsskólanna er sá að of sundurleitur hópur er settur við sama borð. Þeir sem ekki hafa nógu traustan grunn í lestri, réttritun, talnareikningi og öðrum undirstöðugreinum eru settir í nám sem þeir ráða ekki við og til að koma til móts við þá er námsefnið létt til skaða fyrir hina sem ráða vel við þyngra efni. Ég ætla hvorki að þreyta ykkur á dæmum um ólæsa nemendur sem eru settir í að læra skilgreiningar á fræðilegum hugtökum í félagsfræði eða bókmenntagreiningu né af nemendum sem ekki kunna margföldun og eru settir í að læra efnafræði þar sem kennarinn notar veldareglur eins og ekkert sé sjálfsagðara. Þið þekkið svona dæmi.

Þeir nemendur sem koma illa læsir eða kunnáttulausir í reikningi inn í framhaldsskóla þurfa umfram allt að fá góða og mikla kennslu í lestri og reikningi. Seinna geta þeir svo ef til vill stundað nám sem krefst leikni í þessum greinum. Þeir sem hins vegar láta sig ekkert muna um að lesa heilu hillurnar og leysa alls konar reikniþrautir græða lítið á kennslu sem er að hálfu sniðin að þörfum þeirra sem lítið geta.

Það er raunar undarlegt hvað mikill munur er á hæfni nemenda í undirstöðugreinum þegar þeir koma í framhaldsskóla. Hvernig stendur á því að stór hluti hópsins kann til dæmis ekki samlagningu og margföldun nema heilla talna (getur til dæmis ekki svarað því hvað 0,7 plús 1/2 er mikið eða hvað kemur út ef 24 eru margfaldaðir með 1/3)? Ég hef ekki kennt í grunnskóla og þekki of lítið til á því skólastigi til að geta svarað þessu. En mig grunar að ein ástæðan sé sú að þar er verið að fást við of margt til að hægt sé að verja nægum tíma í að æfa undirstöðuatriði eins og lestur og reikning.

ii.
Þessi "blöndun í bekki" er ekki eina vandamál framhaldsskólanna. Það sem ég ætla að telja næst er að það vantar bæði viðurkennt viðmið um hvað skuli teljast almenn menntun og heppilega útgönguleið fyrir þá sem hvorki ljúka starfseða iðnnámi né stúdentsprófi.

Það er töluverð tilhneiging til þess að líta á stúdentspróf sem kvittun fyrir almennri menntun. En aðeins um 40% af árgangi lýkur stúdentsprófi. Töluvert fleiri hefja nám á stúdentsbrautum en gefast upp eða hætta. Svo virðist sem fjöldi foreldra þrýsti á börn sín að taka stúdentspróf fremur en annars konar próf úr framhaldsskóla án þess sérstakur áhugi á akademísku námi komi til. Hér veldur trúlega nokkru um að það vantar raunhæft viðmið um hvað geti talist almenn menntun sem hentar öllum þorra fólks.

Nú fara yfir 80% unglinga í framhaldsskóla og við getum trúlega gert ráð fyrir því að í framtíðinni verði allur þorri fólks í skóla fram yfir 17 ára aldur. Hins vegar er öldungis óraunhæft að ætla að allur þorri fólks ljúki stúdentsprófi, eða iðnnámi og það vantar viðurkennda útgönguleið fyrir hina: útgönguleið sem hægt er að fara með vottorð upp á almenna menntun sem dugar til inngöngu í sérskóla og veitir undirbúning fyrir daglegt líf.

Það eru að vísu til tveggja ára brautir eins og viðskiptabraut og uppeldisbraut við marga fjölbrautaskóla en aðsókn að þeim virðist fremur lítil. Ástæðan er kannski sú að það er ekkert almennt samkomulag um hvað tveggja ára, eða 70 eininga, framhaldsskólanám þýðir og hvaða réttindi það veitir.

iii.
Þriðji gallinn á framhaldsskólakerfinu er að stór hluti þeirra sem taka stúdentspróf lærir enga grein nógu vel til að venjast við fræðileg vinnubrögð og að auki er mikið af námsefni þeirra þynnt út til að koma til móts við þá sem hafa ónógan undirbúning eða eiga ekki erindi í akademískt nám.

iv.
Þetta vandamál er nátengt því fjórða sem er að námsefnið á stúdentsbrautum er alltof brotakennt og við suma skóla að minnsta kosti vantar eðlilega stígandi í námið.

Þegar ég segi að námsefnið sé of brotakennt á ég einfaldlega við að flestir nemendur eru látnir stunda of margar sundurleitar námsgreinar til þess að þeir læri nokkurn hlut sómasamlega. það er miklu meira virði að kunna fáa hluti vel en að hafa rekið nefið niður í ótal viðfangsefni án þess að ná valdi á neinu þeirra. Það er til dæmis betra að vera þokkalega læs á tvö erlend tungumál en að hafa fengið nasasjón af þrem án þess að geta lesið bók á nema einu þeirra.

Hvernig þætti ykkur framhaldsskóli sem kenndi nemendum ekki sömu erlendu málin önn eftir önn heldur tæki þá stefnu að kynna þeim helstu tungumál heimsins með því að láta þá læra þýsku í sex tíma á viku í eina önn, arabísku í eina önn, fá kynningu á helstu indíánamálum í eina og svo framvegis. Þetta væri kannski skemmtilegt en sú málakunnátta sem nemendur færu með út í lífið væri ósköp fánýt. Þeir gætu sagt "góðan dag", "bless", og "halló" við þorra jarðarbúa en ekki lesið bók sér að gagni á neinu erlendu máli.

Sem betur fer er tungumálakennslan ekki svona. En námskrá sem gerir ráð fyrir einum áfanga í félagsfræði, einum í eðlisfræði, einum í tölvufræði, einum í listgreinum og svo framvegis nálgast það að vera í þessum dúr.

Nú vitið þið hvað ég á við með því að námsefni framhaldsskólanna sé of brotakennt. En ég fullyrti líka að við suma skóla vantaði eðlilega stígandi í námið. Þeir skólar sem ég hef í huga eru áfangskólarnir. Bekkjaskólarnir eru trúlega lausir við þennan galla.

Þið skiljið kannski ekki hvað ég er að fara og spyrjið: Er ekki eðlileg stígandi í fögum eins og stærðfræði og tungumálum þar sem áfangarnir mynda langar keðjur og efnið þyngist smám saman. Þýska 503 kemur í framhaldi af þýsku 403 sem er framhald af þýsku 303 o.s.fr.

Jú vissulega er stígandi í þessum greinum. En stór hluti þess sem nemendur á síðasta ári í áfangaskóla fást við er samt fyrsta árs námsefni. Það er til dæmis algengt að nemendur á síðasta ári taki tölvufræði 103, tjáningu 102, landafræði 113 eða félagsfræði 103 og sitji í hópi með fyrsta árs nemum. Í þessum áföngum eru að sjálfsögðu ekki gerðar aðrar kröfur en þær sem 16 ára unglingar nýkomnir úr grunnskóla fá risið undir.

Athugun á námsvísum áfangaskóla leiðir í ljós að dæmigerður stúdent lýkur rúmlega 140 einingum sem skiptast einhvern veginn svona:

Líkamsrækt .................... 5%
Fyrsta árs áfangar ............ 60%
Annars árs áfangar ............ 30%
Þriðja og fjórða árs áfangar .. 5%

Ég kalla áfanga sem hafa engan eða einn undanfara "fyrsta árs áfanga"; áfanga með tvo eða þrjá undanfara kalla ég "annars árs áfanga" og þá sem hafa fleiri undanfara kalla ég "þriðja og fjórða árs áfanga".

Skiptingin er nokkuð misjöfn eftir brautum. Þar sem nemendum er gert að ljúka löngum keðjum stærðfræði eða tungumálaáfanga, eins og á eðlisfræði- og málabrautum, er hlutfall fyrsta árs áfanga lægra.

Þetta háa hlutfall fyrsta árs áfanga útilokar eðlilega stígandi í náminu og ef til vill er ein skýringin á því að mörgum stúdentum úr áfangaskólum gengur illa á fyrsta ári í háskóla sú að kennslan sem þeir fengu árið áður var sniðin að þörfum fólks sem er nýkomið úr grunnskóla.

*

Nú hef ég gert grein fyrir nokkrum ástæðum þess að okkur tekst ekki að vinna eins vel og við gjarna vildum. Þau vandamál sem ég hef talið upp eru ekki auðleyst. En þau eru samt langt frá því að vera óleysanleg. Það er hægt að reka góða framhaldsskóla: menningarstofnanir þar sem hlutirnir eru gerðir vel.


4.  BETRI SKÓLA

Fyrsta skilyrði fyrir betri skóla er að friður komist á milli kennara og ríkisins. Ekki friður fimm daga eins og síðast. Til að slíkur friður komist á dugar ekki bara að undirrita kjarasamning til eins eða tveggja ára. Kennarar verða líka að hugsa ofurlítið minna um fortíðina og ríkið verður að móta raunhæfa menntastefnu sem kennarar geta fellt sig við og standa við hana. Vanti ríkið hugmyndir til að byggja stefnu sína á skal ég með ánægju gefa því eintak af þessum lestri.

Ef ríkið skortir fé til að koma stórhuga menntastefnu í framkvæmd þá verður það að fækka verkefnum og stofnunum og klippa aftan af forgangsröðinni -en ekki að vinna allt af vanefnum bæði þau verk sem mikilvægust eru og hin sem mætti ef til vill fresta eða jafnvel sleppa. Flatur niðurskurður af því tagi sem við höfum mátt reyna er ekkert annað en tilræði við menntun og menningu í landinu. Hann neyðir okkur til að vinna illa. En eins og Þorsteinn Gylfason sagði er: "það versta sem hægt er að gera manni ... að leyfa honum ekki að gera það vel sem hann gerir."

Ekkert kerfi, engar endurbætur á námsskrá, engin lög, engin glæsileg skólahús, ekkert getur komið í staðinn fyrir góða og metnaðarfulla kennara sem eru ákveðnir í að ná árangri. Fólk sem stoppar í kennslu í eitt eða tvö ár meðan það leitar að betri vinnu er ekki líklegt til að hafa mikinn metnað. Fólk sem er í þann mund að gefast upp á yfirvinnu, 30 manna hópum, vinnudeilum og óvissu um kjör sín er ekki líklegt til að sækja á brattann í kennslunni.

Það halda kannski einhverjir að í lífsbaráttu þjóðarinnar liggi víglínan aðallega um stjórnarráðið, bankana eða Brussel. Þetta er auðvitað ekki rétt. Mikilvægustu orusturnar eru háðar í skólunum, á dagvistum og á heimilum þar sem næsta kynslóð er búin undir lífið. Það er þar sem lífsbaráttan vinnst, eða tapast. Ef næsta kynslóð verður verr menntuð en foreldrar hennar þá má einu gilda hvort við erum innan eða utan Evrópubandalagsins og hvaða flokkar stjórna landinu, þá höfum við einfaldlega beðið ósigur í lífsbaráttunni. Til að forða þjóðinni frá slíkum ósigri verður að manna skólana rösku liði. Það tekst varla meðan kjör kennara eru svo bág að jafnvel á tímum atvinnuleysis og samdráttar er erfitt að fá fólk til kennslu.

Ég ætlaði annars að hlífa ykkur við langlokum um kjaramál. Þegar friður er kominn á milli kennara og vinnuveitenda þeirra þá snúum við okkur að því að laga þá vankanta á skólunum sem ég taldi upp hér áðan. Ég ætla að ljúka þessu erindi á nokkrum orðum um hvernig hægt er að gera það.

i.
Fyrsti gallinn á skólunum sem ég taldi upp er að nemendahópurinn sem kemur úr grunnskóla er of sundurleitur til að sitja við sama borð. Til að bæta úr þessu þarf að fjölga leiðum inn í framhaldsskóla. Til dæmis mætti hugsa sér að eftir samræmd próf við lok grunnskóla sé nemendum skipt í þrjá flokka. Þeir sem hafa góða undirstöðu í móðurmáli, tungumálum og stærðfræði færu beina leið á hraðferð í framhaldsskóla. Þeir sem eru svolítið á eftir í einhverjum greinum fengju hægari yfirferð og meiri kennslu í kjarnagreinum fyrstu tvö árin. Þeir sem eru stutt komnir í meðferð máls og talna færu í að minnsta kosti eins árs undirbúningsnám áður en þeir byrjuðu reglulegt nám í framhaldsskóla.

Það kerfi sem nú er við lýði í mörgum fjölbrautskólum þar sem nemendur fara ýmist í hraðferð, hægferð eða núll áfanga er töluvert í áttina. Það dugar bara ekki því það er ekki nógu mikill munur á þeim þrem leiðum sem boðið er upp á. Flestir sem fara í núll áfanga þurfa mun meiri þjálfun í undirstöðugreinum en þar fæst og til að hægferð komi að fullu gagni þarf að vera meiri munur á henni og hraðferðinni því hægferðarnemendur þurfa að æfa töluvert af námsefni grunnskólans betur jafnframt því sem þeir læra nýtt efni.

Mér finnst trúlegt að hátt í þriðjungur unglinga þurfi árs fornám áður en þeir geta hafið nám í framhaldsskóla og um þriðjungur að auki þurfi að fara á hægferð í einhverjum greinum.

Þegar rætt er um vanda þeirra nemenda sem koma í framhaldsskóla með lélega undirstöðu í lestri, skrift og reikningi heyrist stundum talað um létt verknám, stuttar brautir, atvinnulífsbrautir, brautir með enga stærðfræði. Ég er svolítið hræddur við þetta tal því ég óttast að búnar verði til ómerkilegar útgönguleiðir þar sem kolbítar og öskubuskur skólakerfisns geta laumast út svo lítið beri á og hlíft okkur þannig við að horfa upp á ósigur sinn.

Við eigum ekki að fela ósigur þessara barna. Við eigum að styðja þau til sigurs. Ef við treystum okkur ekki til þess að veita þeim almennilega menntun þá eigum við að segja hreinskilnislega að við höfum ekkert að bjóða þeim. Við gerum engum greiða með því að stinga höfðinu í sandinn. Það er nóg komið af svoleiðis strútfyglni.

Ef til vill mætti fækka þeim sem þurfa fornám með því að taka fyrr á vanda þeirra. Það er að minnsta kosti umhugsunarefni hvort ekki sé rétt að taka aftur upp samræmt fullnaðarpróf í lestri og stærðfræði fyrir 12 ára börn. Eftir slíkt próf mætti bjóða þeim sem eru seinir til í lestri og reikningi meiri kennslu í þessum greinum. Samræmd próf gefa mönnum líka skýr markmið til að keppa að. Þetta er annars mál grunnskólastigsins og ég ætlaði að halda mig við vanda framhaldsskólanna.

ii.
Það vandamál sem ég taldi númer tvö er að það vantar viðurkennda skilgreiningu á almennri menntun. Stúdentspróf krefst of mikils af flestum og grunnskólapróf er ekki nóg. Það þarf að koma eitthvað þarna á milli sem við getum til dæmis kallað gagnfræðapróf eða framhaldsskólapróf. Þetta próf má ekki vera svo létt að allir fljúgi í gegnum það. Það þarf að gera raunverulegar kröfur til leikni í undirstöðugreinum en vera samt raunhæft viðfangsefni fyrir allan þorra unglinga sem nenna að leggja nokkuð á sig.

Trúlega er heppilegt að framhaldskólapróf samsvari tveggja ára, eða 70 eininga, námi. Eftir það mundu leiðir skilja með þeim sem fara í iðnnám, sérskóla, stúdentsnám eða beint út á vinnumarkaðinn.

Mátulega erfitt markmið sem er í senn eftirsóknarvert og ekki alltof langt undan eykur líkurnar á að nemendur leggi sig fram. Próf eftir tveggja ára framhaldsskólanám sem allir þreyta og veitir rétt til inngöngu í sérnám af ýmsu tagi er trúlega heppilegt markmið fyrir allan þorra 16 til 18 ára unglinga. Verði stúdentsnámið jafnframt gert að markvissari undirbúningi fyrir akademískt nám og kröfur þar auknar eru allar líkur á að framhaldsskólapróf verði viðurkennt sem góð almenn menntun.

iii.-iv.
Aðrir gallar á núverandi skipan framhaldsskólanna sem ég gerði grein fyrir eru að þorri stúdenta lærir enga grein nógu vel til þess að venjast fræðilegum vinnubrögðum, námsefni þeirra er of brotakennt og það vantar stígandi í það.

Það er hægt að ráða bót á þessu með því að fækka námsgreinum. Til framhaldsskólaprófs ætti að leggja höfuðáherslu á móðurmál, stærðfræði, tungumál og aðrar greinar þar sem nemendur æfast í meðferð máls og talna svo sem vélritun og tölvunotkun, eina náttúrufræðigrein (til dæmis líffræði) og eina grein mannvísinda (til dæmis sögu). Sé nemendum gert að læra annað en þetta þá ættu þeir sjálfir að fá að velja hvaða greinar.

Á þeim tveim árum sem eftir eru til stúdentsprófs að loknu framhaldsskólaprófi ætti að halda áfram að æfa meðferð máls og talna og læra meira í náttúrufræði og mannvísindum. Hlutfall þessara greina yrði vitaskuld ekki jafnt á öllum brautum frekar en nú er. Á málabraut tækju nemendur til dæmis meira í málum og minna í stærðfræði en á eðlisfræðibraut.

Til viðbótar við kjarnagreinar ætti hvert stúdentsefni svo að nema eina aðalgrein sem tæki svo sem þriðjung tímans seinni tvö árin. Áfangarnir í þessari grein þurfa að koma hver í framhaldi af öðrum. Ef menn eiga að kafa djúpt og venjast vísindalegri hugsun dugar skammt að taka marga byrjunaráfanga á sama fræðasviði. Til viðbótar við kjarna og aðalgrein mætti svo hugsa sér töluvert frjálst val.

Nánast allar bóklegar greinar ættu að geta nýst sem aðalgrein: saga, forritun, eðlisfræði, bókmenntir, sálfræði, franska. Aðalatriðið er að hver nemandi læri eitthvað vel. Skólar geta byggt upp sérstöðu með því að bjóða upp á greinar sem ekki eru til annars staðar. Þannig gæti einn skóli gefið nemendum kost á að sérhæfa sig í hagfræði. Annar gæti boðið upp á fornmál. Þetta ætti að stuðla að fjölbreytni í menntun sem ég hygg að yrði til góðs fyrir þjóðfélagið.

Verði þetta kerfi tekið upp skapast sjálfkrafa aukin stígandi í námsefni á stúdentsbrautum því greinum fækkar og meira verður um áfanga með marga undanfara. Auk þess yrðu skil við framhaldsskólapróf og því auðvelt að stilla svo til að á seinni tveim árunum tækju stúdentsefni eingöngu, eða svo til eingöngu, áfanga sem eru sniðnir fyrir fólk sem hefur lokið framhaldsskólaprófi.

Eins og þið heyrið legg ég ekki til neinar mjög róttækar breytingar á námsskránni, heldur hóflegar lagfæringar sem geta, ef vel er á málum haldið, skilað verulegum árangri.

Ef vel er á málum haldið sagði ég. Engar reglur, ekkert kerfi, engin lög geta tryggt að vel verði á málum haldið. Til þess þarf meðal annars menningarlegt andrúmsloft þar sem saman fara umhyggjusemi og agi, tillitssemi og metnaður.

Menning er að gera hlutina vel.


AFTANMÁLSGREINAR

1. Þorsteinn Gylfason: "Menning er að gera hlutinn vel", Þjóðviljinn, sunnudgur 5. apríl 1987, bls. 14.

2. Námskrá handa framhaldsskólum 3. útgáfa, Menntamálaráðuneytið, Reykjavík 1990, bls. 3.

3. Undirbúningur náms við Háskóla Íslands, Menntamálaráðuneytið og Háskóli Íslands, Reykjavík 1987.

Atli Harðarson - 1992


Netútgáfan - janúar 1997