SAGAN  AF  SKRADDARANUM  OG  GYLENDAM  KONU  HANS




"Einu sinni var skraddari, sem átti undurfríða konu, er Gylendam hét. Elskuðust þau svo heitt, að maðurinn sór henni einu sinni, að ef hann lifði lengur, skyldi hann gráta heilan sólarhring á leiði hennar. Lét konan sér það ekki nægja, heldur hét hún að svelta sig í hel, ef hann andaðist fyrri.

Það átti svo að fara, að Gylendam dó fyrr, og er hún var jarðsett, enti ekkillinn heit sitt og lagðist harmþrunginn niður hjá leiðinu og bar sig aumlega.

Þá bar þangað að spámánninn Aysa; staðnæmdist hann þar, virti skraddarann fyrir sér og spurði, því hann hryggðist svo ákaft. En er skraddarinn, sem var óhuggandi, hafði sagt honum, hvernig á harmi hans stóð, mælti hann: "Þú mundir þá verða stórglaður, ef þessi heittelskaða kona þín vaknaði aftur til lífs?"

"Þá mun ég einskis óska framar, ef drottinn birtir mér slíkt stórmerki miskunnar sinnar," sagði skraddarinn.

"Láttu þá huggast," mælti spámaðurinn, "ég vikna af sorg þinni, því hún er mikil og innileg, og með vilja þess, sem gaf, og þess, sem tók, vil ég gefa þér aftur konu þína."

Því næst las hann bæn, og í sama bili reis Gylendam upp og sté upp úr gröfinni. Varð skraddarinn frá sér numinn og undraðist guðs almætti, og ætlaði að þakka spámanninum, en hann skipaði honum að gefa guði dýrðina og gekk leiðar sinnar.

Þegar Gylendam raknaði við, spurði hún, hvernig stæði á slíku undri, og er maður hennar leysti úr því, þakkaði hún honum elsku sína og tryggð með blíðum og hjartnæmum orðum. Kvaðst hún ætíð skyldu muna honum það, og væri sér lífið því dýrmætara, sem hún hefði öðlazt það aftur fyrir hans bænastað.

Skraddarinn var eins blíður við hana og beiddi hana nú að fylgja sér heim. En þá fyrst datt honum í hug, að Gylendam gæti ekki látið sjá sig í náhjúpnum; og mælti því: "Ég ætla að fara og sækja þér sæmileg klæði, og verð ég því að láta þig hér eina eftir; ég kem aftur að vörmu spori."

Rétt í því hann var farinn, bar svo til, að leið kóngssonar þar í landi lá hjá gröfinni; þótti honum undrum gegna að sjá konu sitja þar í líkhjúp. Kom hann því nær með föruneyti sínu; leizt honum konan fríð og lífvænleg og hrærðist hann til meðaumkvunar, og ekki trútt um, að honum hlýnaði um hjartarætur.

Sá það einn af fylgdarmönnum hans og mælti: "Þetta er forkunnar fríð kona; við skulum fara með hana í kvennabúrið, ef yður svo lízt."

"Það væri ekki úr vegi," anzaði kóngsson, "ég á enga svo fallega. Spyrjið hana samt áður, hvort hún sé gift, því ég vil einskis manns konu taka."

Spurði þá fylgdarmaður kóngssonar Gylendam: "Fagra kona, ef þér eruð ekki giftar, þá er það undir yður komið, hvort þér viljið njóta samvista kóngssonar."

Var skraddarakonan skjót til svars og mælti: "Ég er útlend og engum háð."

Þá tók einn af förunautum kóngssonar Gylendam undir skikkju sína og fór með hana í kvennabúrið, og var hún þar færð í skrautleg klæði.

En meðan þetta gerðist, kom skraddarinn með kvenskyrtu og slopp; lá við hann gengi af vitinu, er hann sá hvergi konu sína. Tók hann að kveina enn þá ákafar en í fyrra skiptið, og særði drottinn að birta sér, hvað af henni væri orðið. "Ætli spámaðurinn hafi vakið hana upp frá dauðum til þess, að annar fengi hana?" sagði hann við sjálfan sig, "ef svo væri, félli mér það þyngra en dauði hennar. Og þó er enginn efi á því; einhverjum, sem fram hjá hefur gengið, hefur orðið litið á frábæran fríðleik hennar, og hefur hann ekki horft í að ræna henni.

Ég veit það, Gylendam mín, að þú hefur varið þig fyrir ræningjanum fram í rauðan dauðann, og hvar sem þú ert, veit ég, að þú andvarpar, örvæntir og kallar eftir hjálp minni. En ég skal heldur aldrei yfirgefa þig, ég skal leita þín alstaðar, og þó þú værir falin djúpt undir jörðinni, skyldi ég grafa þig upp."

Enda var hann svo ótrauður að leita hennar, að hann komst fyrir það á endanum, hvar hún var niður komin, fór hann þá til kóngssonar, fleygði sér fram fyrir fætur honum og mælti: "Kóngssonur! Þér eruð veglyndari vinur réttvísinnar en svo, að þér viljið halda því með valdi, sem er annars eign. Kona mín hefur verið á yðar valdi í þrjá daga, og grátbæni ég yður að skila mér henni aftur."

"Gáðu að þér, hvað þú segir," anzaði kóngsson, "engin kona er nauðug í kvennabúri mínu, og sízt nokkur sú, er gift sé."

"Því að eins segi ég þetta, að ég veit það með vissu," mælti skraddarinn, og svaraði þá kóngsson:

"Gott og vel, þú skalt fá að sjá allar konur mínar; en gættu þess, að ef kona þín er þar ekki, þá verður það þinn bani."

"Það mun ég á hætta," segir skraddarinn, "því ég veit fyrir víst, að hún er í höllinni. Þér munuð sjá, að undir eins og hún sér mig, flýgur hún upp um háls mér, því engin kona er ástríkari né tryggari til en hún."

"Þú skalt þá hafa vilja þinn," mælti kóngsson og skipaði að leiða fram allar konur sínar, og skyldi engin vera undanskilin.

Kom ekki nema ein í einu og spurði kóngsson skraddarann í hvert skipti, hvort þetta væri hans kona. Kvað hann nei við, þangað til Gylendam kom loksins, þá kallaði hann upp:

"Þarna er konan mín blessuð, sem ég hef grátið mörgum fögrum tárum."

Spurði þá kóngsson Gylendam, hvort hún bæri kennsl á manninn.

"Víst þekki ég hann" svaraði hún, "og ekki að góðu. Það er sami stigamaðurinn, sem rændi mig og misþyrmdi mér; þér munið hvernig ég var útleikin, þegar þér funduð mig. Þetta bölvað mannhrak, sem guð láti tortímast, ætlaði á endanum að kviksetja mig, svo ég gæti ekki ákært hann hjá dómaranum. Herra! Synja mér ekki réttlætis og lát hegningu laganna koma yfir hann; ég hef engan frið fyrr en búið er að hengja hann."

Skraddarinn varð öldungis klumsa. Réði kóngsson það af þögn hans og fáti því, er kom á hann, að hann mundi sekur vera, og mælti: "Þú ert furðu ósvífinn, svikadólgurinn þinn! Þú kemur hingað og gerir tilkall til konu, sem þú ekki átt, og sem þú þar á ofan hefur ætlað að kviksetja. Þú værir þess verður, að nýr dauðdagi væri upphugsaður handa þér; en ég ætla samt ekki að hafa meira við en láta hengja þig. Festið hann undir eins á gálgann," kallaði hann til varðmannanna.

Ætlaði þá skraddarinn að stynja einhverju upp, en kóngsson þaggaði niðri í honum og mælti: "Ég vil ekki hlýða á lygar þínar, þú ert svikari og mannhundur, festið hann á gálgann, varðmenn, eða ég læt hengja ykkur líka."

Voru þá skraddaranum bundnar hendur á bak aftur, og síðan farið með hann til gálgans. En rétt í því böðullinn var að greiða snöruna, kom spámaðurinn Aysa og skipaði honum að hætta, því skraddarinn væri saklaus. Báru menn svo mikla lotningu fyrir þessum helga manni, að honum var hlýtt. En varðmenn kóngssonar heimtuðu, að skraddarinn væri líflátinn, því herra þeirra hefði skipað það.

En Aysa kvað það skyldu vera sinn ábyrgðarhluta og fór að vörmu spori til kóngssonar, og óðara en hann hafði sagt honum allt hið sanna, tók hann aftur dauðadóminn. Og hann gerði betri skil, því hann lét taka Gylendam og festa hana á gálgann í staðinn fyrir mann hennar.

Herra!" mælti vezírinn enn fremur, "af þessu sérðu, hversu hrekkvísar konur eru, og að vitur maður getur jafnvel ekki treyst þeim, sem ráðvandastir sýnast. Skipaðu, konungur, að miklu vandlegar sé leitað að Abúmasjar og varastu allt glappæði."

"Svo skal vera," svaraði Persakonungur, "en finnist hann ekki í dag þá læt ég hálshöggva son minn á morgun." Þannig mælti konungur og reið út á veiðar eins og hann var vanur."


36. nótt

Þegar Dínarsade hafði vakið Sjerasade í sama mund og vant var, hélt hún áfram sögunni á þessa leið:

"Herra! Gríski konungurinn, sem sagði vezír sínum sögu Sindbaðs konungs, hélt þannig áfram: "Þegar Persa konungur kom heim af veiðum og hafði neytt kvöldverðar með drottningu sinni, greip hún fulla eiturskál og mælti:

"Herra! Ef þú synjar mér alls réttlætis, drekk ég eitur þetta og dauði minn komi yfir þig. Vezírar þínir eru allt af að telja þér trú um hrekkvísi kvenna, en karlmenn standa okkur þar ekki að baki. Skal ég segja þér nýtt dæmi því til sönnunar.




Netútgáfan - febrúar 2001