KÓNGSDÓTTIRIN  OG  SKÓARINN




32. nótt

"Einu sinni var ungur skóari í Basra, sem Hassan hét; var öllu til skila haldið, að hann gæti fleytt fram lífinu með iðn sinni. Það var einn dag, að hann sá munk ganga fram hjá sölubúð sinni með marggötótta skó, kallaði hann því til hans og mælti:

"Þú ert illa gangandi, munkur minn! Komdu hérna inn, ég skal bæta skóna þína!"

Þáði munkurinn boðið og settist niður í búðinni og neytti matar, sem Hassan bar á borð fyrir hann, meðan gert var að skónum. Þegar það var búið, beiddi Hassan hann að gefa sér heilræði í launa skyni fyrir greiðann. "Það er í mér ferðahugur," sagði hann, "og þú ert manna færastur til að duga mér með góðum ráðum."

Var munkurinn fús á það og mælti: "Þrjár reglur skalt þú festa þér í minni um fram allt; ég veit það af eigin reynslu, hvað mikið er í þær varið. Sú er hin fyrsta, að þú skalt aldrei fara af stað, nema þú hafir góðan samferðamann, svo sem spámaðurinn býður (lofaður sé hann um aldir alda): "Kjóstu þér fyrst förunaut, og leggðu síðan af stað." Önnur reglan er þessi: Vertu aldrei lengi þar sem vatnslaust er, og hin þriðja: Farðu ekki inn í neina borg eftir sólarlag."

Þakkaði Hassan munkinum og fór hann leiðar sinnar.

Skömmu síðar kaus Hassan sér góða förunauta og hóf göngu sína. Komu þeir eftir nokkurra daga ferð að borg einni stórri, eftir að dagsett var. Fóru félagar Hassans þangað inn, en hann lét fyrirberast utan borgar, eftir ráðum munksins; leizt honum hentugast náttból í greftrunarstað einum, sem þar var nálægt.

Lagðist hann þar fyrir, og er vart lifði þriðjungur nætur, sá hann hvar tveir menn sigu ofan af borgarmúrnum með eitthvað, sem hann gat ekki séð deili á; báru þeir það síðan til einnar grafarinnar, sem næst var, og létu þar niður; gengu þeir síðan burt. Hljóp Hassan þangað í sama vetfangi og gat svo lýst með eldsvirkjum sínum, að hann sá líkkistu og rann víða úr henni blóð.

Náði hann af lokinu með nokkurri fyrirhöfn, og fann þá konu sveipaða í náhjúp, forkunnar fríða, og flaut hún öll í blóði. Var ekkert lífsmark að finna með henni, og er Hassan ætlaði að fletta af henni klæðunum til að komast fyrir það, sagði hún með veikri rödd:

"Fyrir guðs sakir, flettu mig ekki klæðum."

Tók hann þá að hugga hana og reif sundur yfirhöfn sína til að binda um sárin, og lét daginn eftir bera hana inn í borgina til gestaherbergis nokkurs; lét hann þar, sem hún væri systir sín, og hefði hann sært hana þannig í bræði; þjónaði hann henni og hjúkraði nákvæmlega í tvo mánuði. Varð hann einskis vísari, hver þessi unga kona væri, allan þann tíma.

Þegar hún var alheil orðin, fór hún til lauga, og er hún kom aftur, beiddi hún Hassan um pappír, penna og blek; skrifaði hún eitthvað og mælti síðan: "Farðu með blaðið að tarna í búðina hans Yakúbs víxlara og taktu við því, sem hann fær þér."

Fór Hassan óðara þetta erindi og furðaði sig á því, að víxlarinn kyssti bréfið, þegar hann hafði brotið það upp, og fékk honum poka með fimm hundruð sekkínum í. Hafði hann aldrei séð svo marga peninga í einu, auk heldur haft þá milli handa. Réði hann af lotningu þeirri, sem víxlarinn sýndi bréfinu, að sú mundi vera tigin, sem það hafði skrifað.

Var hann feiminn og uppburðarlaus, er hann kom aftur; fékk hann henni pokann, og skein þá út úr honum forvitnin. En yngiskonan gaf sig ekki að því og skipaði Hassan að kaupa hús og sæmileg klæði. Gerði skóarinn eins og hún bauð; keyptu þau sér líka þræla fyrir peninga þá, er víxlarinn lét af hendi.

En er þau voru lengi vel búin að lifa í bílífi fékk yngiskonan Hassan pyngju og mælti: "Ég ætla að biðja þig stórrar bónar. Farðu ofan á torgið og spurðu eftir búðinni hans Abdallah silkisölumanns, og þegar þú finnur hann, skaltu kaupa hjá honum þykksilki og ekki þjarka neitt við hann um verðið, heldur borga, hvað sem hann setur upp."

Fór Hassan líka þessa sendiferð og varð hann að fara fleiri slíkar ferðir öðru hverju og kaupa hjá Abdallah; urðu þeir málkunnugir vel, svo að kaupmaður bauð Hassan í veizlu. Þáði hann boðið, og lét yngiskonan hann bjóða Abdallah á sama hátt; þótti honum það mesta virðing.

Nú lét konan efna til dýrðlegrar veizlu, en Hassan sagði hún, að undrast ekki, hvað kynlegir hlutir sem fyrir hann bæru. Kom kaupmaðurinn á tilteknum tíma og var búinn í skrautklæði sín. Tók Hassan við honum með mestu gestrisni og voru þeir saman langt fram á nótt.

En sem Abdallah vildi fara að draga sig af stað, þá lofaði Hassan honum það ekki, því svo hafði konan lagt undir við hann; en aldrei lét hún sjá sig. Herti hann því fastara að honum að vera hjá sér um nóttina, sem langt var áliðið. Lét kaupmaðurinn loksins á það fallast og lagðist í legubekk einn til hvíldar.

Meðan hann lá þar í fastasvefni, kom konan og rak tygilkníf í hjarta hans. Hrökk Hassan upp við hljóðin og hljóp til, blöskraði honum að sjá silkisölumanninn myrtan og mælti: "Guð hjálpi mér! Hversu hroðalegan glæp hefur þú bendlað mig við! Ég skil við þig á augabragði. Ég get ekki haldizt við undir sama þaki og þú; þú skalt fá aftur allt, sem þú hefur gefið mér."

"Stilltu þig, Hassan!" greip konan fram í, "hér er ekki annað orðið en að vondum svikara hefur í koll komið illvirki hans. Þú skalt vita, að ég er konungsdóttir. Þetta vesalmenni þarna hafði kveikt í mér brennandi ástarhug til sín, og tókst mér það fyrir tilhjálp fóstru minnar, og með því að múta vörðum þeim, sem voru kringum mig, að fá honum komið inn til mín í kvennahöllina. Þar að auki fór ég í dularbúningi til hans hvað eftir annað og auðsýndi honum ótal velgjörðir. En þá var það einu sinni, þegar ég kom að honum óvörum, að ég sá að hann hafði hjá sér aðra konu.

Brígzlaði ég honum í reiði og hafði svo litla stillingu, að ég sló konuna. Kallaði þá illmenni þetta á tvo þræla sér til hjálpar. Var þá annaðhvort, að hann óttaðist hefndir mínar, eða hann ætlaði að svala heipt frillu sinnar, því þeir veittu mér mörg sár með hnífum. Síðan ráku þeir saman kistu í mesta flýti, lögðu mig í hana eins og annað lík og báru út á greftrunarstaðinn þar sem þú frelsaðir líf mitt. En úr því ég hef hefnt mín, skaltu ekki eyða tímanum til ónýtis, heldur far og seg konungi, að ég sé á lífi og hvar ég sé."

Vissi Hassan varla, hvort hann vekti eða dreymdi, en fór samt af stað og sagði tíðindi þau við hirðina, að kóngsdóttir væri frelsuð, og varð þar þá mesti fögnuður. Var síðan komið eftir henni og farið með hana til kóngshallarinnar og er soldán vissi, hvað hún átti Hassan að þakka, þá gifti hann honum hana."

Kansade heimfærði nú söguna upp á vonzku margra ungra manna og fór um það mörgum kænlegum orðum. Fékk hún með slíkum hætti Sindbað konung til að lofa því statt og stöðugt, að láta taka Núrgehan af lífi daginn eftir. En er hann skipaði að gera það um morguninn, í viðurvist allrar hirðarinnar, gekk enn einn vezírinn fram og bað kóngssyni lífs. Studdi hann bæn sína með því að vitna til hinnar alkunnu vonzku kvenfólksins, og beiddi konung að lofa sér að segja nýja sögu til frekari sönnunar.

Var konungur hálftregur í fyrstu, en leyfði honum það samt.




Netútgáfan - febrúar 2001