SAGA  SINDBAÐS  FARMANNS




Á ríkisárum kalífans Harún Alrasjids, þess, er ég fyrr nefndi, var örsnauður daglaunamaður í Bagdad, er Hindbað hét. Það var einhvern dag, er ákaflega heitt var, að hann átti að bera þunga byrði allt á milli enda borgarinnar. Var hann dauðuppgefinn og átti þó eftir drjúgan spöl. Kom hann í stræti eitt og blés þar svalandi kæla, en rósavatni hafði verið stökkt yfir strætið. Þótti honum sem hvergi mundi vænlegra að hvílast og varpa mæðinni, lagði hann því bagga sína niður fyrir utan stórhús nokkurt og settist sjálfur á byrði sína.

Honum þótti vænt um að hann hafði staðnæmzt þarna, því hinn sætasta ilm af alóeviði og reykelsi lagði fyrir vit honum; rauk ilmurinn út úr gluggum hússins og blandaðist saman við angan rósavatnsins og fyllti loftið himneskum sætleik. Auk þess heyrði hann samstilltan slátt margra hljóðfæra, og kvað undir fagur fuglakliður, bæði næturgala og annarra fugla, sem eiga heima í héraðinu kringum Bagdad.

Þegar hann nú heyrði hinn ununarfulla hljóm og kenndi sætan ilm margskonar steika, réði hann af því, að hér mundi haldin veizla og vera glatt á hjalla. Langaði hann til að vita, hver í húsinu byggi, því leið hans lá sjaldan um þetta stræti og var hann því með öllu ókunnugur.

Hann gekk til nokkurra prúðbúinna þjóna, er stóðu við dyrnar, og spurði, hver hér ætti húsa ráð.

"Hvernig spyr þú?" önzuðu þjónarnir, "átt þú heima í Bagdad og veizt ekki, að hér býr Sindbað farmaður, er siglt hefur um öll höf undir sólinni."

Hafði daglaunamaðurinn áður heyrt getið um auðæfi Sindbaðs og gat nú ekki að sér gert, að öfunda þann mann, sem virtist vera eins farsæll og hann var ófarsæll.

Af hugleiðingum þessum varð honum gramt í geði, hann leit til himins og mælti svo hátt, að vel mátti heyra: "Alvaldi skapari allra hluta, gæt mismunar þess, sem er á mér og Sindbað; ég þoli dagsdaglega ótal þrautir og erfiðismuni, og get þó varla satt hungur konu og barna með vondu byggbrauði, meðan lánsmaðurinn Sindbað eyðir ógrynni fjár og lifir hinu glæsilegasta og sælasta lífi. Hvað hefur hann gert, að þú skulir láta hann fagna svo sælu hlutskipti og hvers á ég að gjalda, að ég sæti svo hörðu?"

Að svo mæltu stappaði hann fætinum á jörðina, eins og sá, sem sleppir sér í harmi og örvæntingu.

Þarna stóð hann í þungum og raunalegum hugsunum, en í því sá hann koma þjón nokkurn út úr húsinu; tók þjónninn í hönd honum og mælti: "Fylgið mér, Sindbað, húsbóndi minn vill tala við yður."

Af því nú var farið að birta, gat Sjerasade ekki haldið áfram sögu sinni, en næstu nótt sagði hún framhaldið á þessa leið:


89. nótt

"Herra, yðar hátign má geta því nærri, að boð þetta kom flatt upp á Hindbað. Hann var hræddur um, þar sem hann hafði látið sér slíkt um munn fara, að Sindbað sendi eftir sér til þess að hefna sín á einhvern hátt. Hafði hann því þá viðbáru sér til undanfærslu, að hann mætti ekki hlaupa frá böggum sínum, er lágu á strætinu; en þjónustusveinn Sindbaðs sagði, að hann mætti treysta því, að þeirra yrði gætt, og lagði svo fast að daglaunamanninum - því svo hafði honum verið skipað - að hann þorði ekki annað en að gegna boðinu.

Nú leiddi þjónninn hann inn í stóran sal, og sat þar fjölmennt samkvæmi kringum borð, sem hlaðið var allskonar dýrindis krásum. En í öndvegi sat alvörugefinn maður, fríður sýnum, og tignarlegur í yfirbragði; hafði hann sítt og silfurhvítt skegg; bak við hann stóð fjöldi skutulsveina og frammistöðumanna og kepptust þeir allir við að gera vilja hans. Þessi maður var Sindbað.

Daglaunamanninum féllust hendur og kom á hann fát, þegar hann sá svo marga menn í svo dýrðlegri veizlu; kastaði hann kveðju á samkvæmið, skjálfandi og titrandi. Sindbað bauð honum að færa sig nær, lét hann setjast til hægri handar sér og setti sjálfur mat fyrir hann; síðan gaf hann honum afbragðs vín að drekka, því nóg var fyrir hendi.

Þegar menn höfðu matazt og Sindbað sá að gestir hans voru hættir að snæða, veik hann sér að Hindbað og gaf sig á tal við hann; hann kallaði hann "bróður" eins og tíðkast með Aröbum, þegar þeir tala saman í trúnaði, og spurði, hvað hann héti og hver atvinnuvegur hans væri.

"Hindbað heiti ég," anzaði hinn "og er ég daglaunamaður."

"Mér þykir vænt," mælti Sindbað, "að við erum orðnir kunningjar, og skal ég ábyrgjast að samkvæmi þetta lítur þig einnig vinar augum, en mig langar til að heyra þig sjálfan segja það, sem þú talaðir áðan úti á strætinu."

Áður en Sindbað gekk til borðs, hafði hann semsé heyrt allt, því gluggarnir voru opnir, og hafði hann þess vegna gert boð eftir Hindbað.

Við þessi orð komu vöflur á daglaunamanninn og hengdi hann niður höfuðið. "Af þreytu minni," svaraði hann, "var komin í mig ólund, og duttu upp úr mér nokkur óvönduð orð, og bið ég yður að fyrirgefa mér þau."

"Ekki skaltu ætla það," mælti Sindbað, "að ég sé svo óbilgjarn, að reiðast þér fyrir þá sök; ég fer nærri um lífskjör þín, og svo fer því fjarri, að ég vilji ámæla þér fyrir möglunaryrði þín, að ég vorkenni þér; ég vil aðeins leiðrétta misskilning þann á mínum högum, sem villir skoðun þína.

Þú hyggur án alls efa, að ég þrauta- og raunalaust hafi öðlazt farsæld þá og næði, er þú nú sér mig njóta; slepptu þeirri villu. Ég hlaut fyrst slík lánskjör eftir að ég í mörg ár hafði þolað allt sálar- og líkamsstrit, sem hugsazt getur; já vinir góðir," mælti hann, um leið og hann veik sér að samkvæminu, "það sver ég ykkur, að svo voru þrautir þessar gífurlegar, að hinn ágjarnasti mundi setjast aftur og fara af honum öll löngun til að sigla um höfin í auðæfaleit.

Munuð þér aldrei hafa heyrt nema ógreinilega sagt af hinum kynlegu ævintýrum mínum og hættum þeim, er ég rataði í á hinum sjö sjóferðum, er ég fór; nú skal ég því segja yður allt hið sanna um þetta, og hygg ég yður muni ekki leiðast saga mín."

Af því Sindbað ætlaði að segja sögu sína, mest daglaunamannsins vegna, lét hann áður en hann tæki til sögunnar, bera byrði daglaunamannsins þangað sem hann vildi.

Því næst hóf hann söguna:




Netútgáfan - ágúst 2001