SJÖTTA  FERР SINDBAÐS  FARMANNS




"Yður mundi víst hugleikið að vita, hvernig á því stóð, að ég ennþá einu sinni þorði að hætta á forlögin, þar sem ég hafði brotið skip mitt fimm sinnum og átt í svo mörgum þrautum. Sjálfur skil ég ekkert í því, og vafalaust hefur fyrirsett skipun forlaganna valdið því. En hvað sem um það er, þegar ég hafði setið um kyrrt í eitt ár, bjó ég mig til hinnar sjöttu ferðar, þrátt fyrir bænir ættingja og vina, sem höfðu sig alla við, að telja mig af fyrirtæki þessu.

Í stað þess að sigla út Persalandsflóa, ferðaðist ég einu sinni enn um mörg héruð á Persalandi og Indíalandi; loksins lét ég úr höfnum á góðu skipi; ætlaði skipstjóri að halda því í langferð. Ferðin var bæði löng og ill, og þar kom loksins, að skipstjóri og stýrimaður vissu ekki, hvert vér hefðum hrakizt.

Þó gátu þeir um síðir áttað sig, en það var lítið gleðiefni, og varð okkur illt við einn dag, er skipstjórnarmaður hljóp allt í einu æpandi af varðstað sínum. Hann þeytti af sér vefjarhettinum, sleit skegg sitt og lamdi sig í höfuðið, eins og maður, sem hamast vitstola af örvæntingu.

Þegar vér spurðum, því hann æðraðist svo ákaflega svaraði hann: "Það skuluð þér vita, að vér erum komnir á þann stað, sem háskalegastur er á öllu hafinu; hinn stríði straumur sogar skipið með sér, og munum vér allir farast að fjórðungi stundar liðnum. Biðjið guð að forða oss úr þessum háska, því ólánið er óumflýjanlegt, nema hann miskunni oss."

Að svo mæltu skipaði hann að hlaða seglum, en í þeim umsvifum slitnaði kaðalreiðinn; varð þá engu tauti við komið, skipið rak forstreymis upp að þverbröttu og ógengu bjargi, og brotnaði í spón. Allt fyrir það komumst vér af, og fengum bjargað vistum vorum, og því, sem fémætast var af varningnum.

Þegar vér vorum búnir að því, mælti skipstjórnarmaður: "Guðs vilja er framgengt orðið. Nú getum vér grafið oss gröf, hver um sig, og hver kvatt annan í hinzta sinni, því vér erum komnir á hinn mesta óheilla stað, og hefur enginn átt afturkvæmt héðan, sem einu sinni hefur hrakizt hingað."

Við þessi orð sló yfir oss dauðans ótta og kvíða; vér föðmuðum hver annan grátandi og hörmuðum vor hryggilegu forlög.

Bjargið, er gnæfði yfir höfði oss, lá strandlengis um stóra ey. Var fjaran alþakin flökum og viðum skipa þeirra, er þar höfðu brotnað; þar var og ógrynni mannabeina í þéttskipuðum hrúgum, og skelfdumst vér mjög við þá sjón, því vér sáum af því, hvílíkur fjöldi manna hafði látið þar líf sitt.

Þá verður heldur eigi nærri getið, hvílíkt ógrynni þar er af vörum og dýrgripum, hvar sem augað eygir; var okkur það til sorgarauka, en engrar huggunar. En þar sem öll fljót falla til sjávar hvarvetna annarsstaðar, þá rennur þar ósalt straumvatn úr hafi upp á land, og hverfur inn í dimman helli með víðu mynni.

Það er og merkilegt, að ekkert grjót er í bjargi þessu, heldur er það allt saman úr kristalli, roðasteini og öðrum gimsteinum. Þar rennur og jarðfitustraumur til sjávar. Gleypa fiskar jarðfituna, og verður hún að gráleitu ambra (Ambra er vaxkennt ilmefni, sem finnst með sjávarströndum í hitabeltislöndunum; er efni það dýrkynjað, (úr hvölum).) í saurindum þeirra, og rekur það á land, svo að ströndin er alþakin af því. Þar fæst og alóe-viður, sem ekki er lakari en sá, er vex á Kómarí.

Því ber enn að auka við lýsingu staðar þessa, sem með réttu mætti nefna Feigsbjarg, af því að enginn sleppur þaðan lífs, að þegar skipin nálgast eyna um visst bil, þá geta þau eigi komizt í burt. Ef veður af hafi ber þau þangað, þá rekur bæði vindur og straumur þau í glötunina; en ef þau eru þar stödd, þegar vindur stendur af landi, þá getur hann eigi orðið þeim til bjargar, því fjallið stendur fyrir og tekur allan vind, svo að blæjalogn verður í varinu langt út á sjó fram. Nýtur því straumaflið sín fullkomlega og dregur að skipin, þangað til þau mölbrotna við ströndina.

En það er yfirtak hörmunganna, að hvorki er mögulegt að klifrast upp á bjargbrúnina, eða að forða sér á annan hátt. Þannig sátum vér á ströndinni eins og vitskertir, og biðum dauðans dag frá degi. Höfðum vér í fyrstunni skipt vistum vorum jafnt með oss, og lifðu menn eftir því lengur eða skemur, sem þeir fóru sparlega eða ósparlega með....


106. nótt

Þeir, sem lengur lifðu, greftruðu þá, sem fyrr dóu; þangað til ég stóð einn uppi og jarðaði líkin. Ekki skuluð þér furða yður á því, því auk þess að ég hafði haldið sparlegar á vistum mínum en hinir, hafði ég sjálfur dálítið af mat, og var ég hyggnari en svo, að ég gæfi félögum mínum nokkuð með mér.

Átti ég þó harðla lítið eftir, þegar ég jarðaði síðasta líkið. Þá var ég svo viss um, að líf mitt mundi bráðum á enda, að ég gróf gröf handa sjálfum mér og ætlaði að leggjast niður í hana, því enginn annar var til að jarðsetja mig.

Meðan ég var að þessu, gat ég ekki annað en ásakað sjálfan mig um dauða minn og nagað mig í handarbökin fyrir þessa seinustu ferð. Lét ég ekki þar við sitja, heldur kvaldi ég mig sjálfan og beit fingur mína til blóðs, og var að mér komið að fyrirfara sjálfum mér.

En guð miskunnaði mér aftur og blés mér því ráði í brjóst, að ganga til fljótsins, sem hvarf inn í hellinn. Virti ég það grandgæfilega fyrir mér og hugsaði með sjálfum mér: "Straumur þessi, er hverfur niður í jörðina, hlýtur einhversstaðar að koma upp aftur; ef ég nú geri mér fleka og læt mig berast með straumnum, mun ég annaðhvort ná til mannabyggða eða láta líf mitt.

Verði hið síðara, þá er ekki öðru breytt en dauðdaganum, en sleppi ég frá þessum voðalega stað, þá verður mér bæði auðið að umflýja hin hryggilegu forlög félaga minna, og býðst ef til vill nýtt tækifæri til að afla mér fjár. Hver veit nema hamingjan bíði mín fyrir handan þetta undirdjúp, svo að skipskaðinn verði mér ríflega bættur."

Ég fór því óðar að timbra saman flekann; var þar gott til traustra viða og sterkra kaðla, og reyrði ég viðuna fast saman; varð fleki þessi næsta staðgóður. Því næst bar ég út á hann nokkra böggla, hafði ég bundið í þá roðasteina, smaragða, grátt ambra og fjallakristall. Þegar ég hafði hlaðið þessu jafnt á flekann og bundið það fast, sté ég út á hann með tvær árar, sem ég hafði teglt til sjálfur, fól mig síðan guði á vald og lét strauminn bera mig.

Þegar ég kom lengra inn í hellinn, hvarf dagsbirtan og bar straumurinn mig áfram, en ekki vissi ég, hvert. Liðu svo nokkrir dagar og varð klettarjáfrið svo lágt yfir höfði mér, að við sjálft lá, að ég ræki mig upp undir. Meðan á þessu stóð, neytti ég ekki meira af vistum mínum en svo, að ég gæti haldið við lífinu. En svo sparlega sem ég fór með þær, varð ég samt fljótt uppiskroppa.

Þá sótti ósjálfrátt að mér værasti svefn, líkur dauðadái, og veit ég ekki hversu lengi ég svaf. En þegar ég vaknaði, brá mér í brún, því ég var kominn á víða völlu á fljótsbakka, sem fleki minn var bundinn við, og stóð í kringum mig fjöldi blökkumanna. Stóð ég jafnskjótt upp og heilsaði þeim; töluðu þeir þá til mín, en ég skildi ekki orð.

Svo var fögnuður minn óumræðilegur, að ég vissi ekki, hvort ég vekti eða svæfi, en loksins sannfærðist ég þó um það, að þetta væri enginn draumur, og hafði ég þá yfir þessa arabisku vísu:

Alvaldan bið þér drottinn duga,
döprum þér hjálpráð sitt hann ljær;
lyk þú augum með hressum huga,
og hvergi þig um annað kær;
meðan á hvörmum blundur býr,
bölinu hann í fögnuð snýr.

Þegar einn af blökkumönnum, er skildi arabiska tungu, heyrði mig mæla það mál, kom hann til mín og mælti: "Bróðir, lát þér ekki verða bilt við að sjá oss; vér byggjum land þetta, sem þú sér yfir, og komum vér hingað í dag, til þess að vökva akra vora. Það gerum vér með skurðum, sem vér veitum úr fljóti, er rennur úr fjalli nokkru hér nálægt. Sáum vér þá eitthvað reka með straumnum, og hlupum til að vita, hvað það væri, og sáum vér þá fleka þenna. Einn af oss synti þá til flekans og dró hann að bakkanum; bundum vér hann þar og biðum þess, að þú vaknaðir.

Nú biðjum vér þig, að segja oss sögu þína, því hún mun með fádæmum vera; seg oss nú fyrst, hvaðan þú ert, og hvernig á því stóð, að þú hættir þér út á flekann?"

Svaraði ég þá, að þeir yrðu fyrst að gefa mér eitthvað að snæða, og skyldi ég á eftir leysa úr spurningum þeirra.

Síðan settu þeir fyrir mig ýmsa rétti, og er ég hafði satt hungur mitt, skýrði ég ítarlega frá öllu, sem mér hafði viljað til; fannst þeim mikið um sögu mína.

Hafði túlkur þeirra þýtt þeim hvert orð, og létu þeir hann segja við mig: "Þetta er einhver hin einstakasta saga; þú verður að segja hana konungi vorum sjálfur, því ævintýri þín eru undrunarverðari en svo, að annar megi frá segja en sá, sem þau reyndi."

Ég kvaðst vera boðinn og búinn til þess.

Létu nú blökkumenn sækja handa mér hest; reið ég og gengu nokkrir á undan, til að vísa mér veg, en hinir sterkustu tóku flekann með bögglunum og öllu saman á herðar sér og gengu á eftir.


107. nótt

Þannig héldum vér til höfuðborgarinnar á eynni Seylon, því þangað var ég kominn. Leiddu blökkumenn mig fyrir konung sinn; gekk ég þá fram að hásætinu, er hann sat í og heilsaði honum eins og tíðkast að heilsa indverskum konungum, með því að fleygja mér til fóta honum og kyssa á gólfið.

Hann beiddi mig að standa upp, fagnaði mér vinsamlega og lét mig setjast til hliðar sér. Því næst spurði hann að nafni mínu og svaraði ég þá:

"Sindbað heiti ég, farmaður kallaður fyrir hinar mörgu sjóferðir, sem ég hef farið, og á ég heima í Bagdad."

Þá mælti hann: "En hvernig stóð á því, að þú komst til minna landa?"

Sagði ég þá konungi allt, sem ég er búinn að segja yður; varð hann svo hlessa og frá sér numinn, að hann lét uppskrifa ævintýri mín með gullletri og geyma þau í skjalahirzlu ríkisins.

Síðan var flekinn borinn fram og bögglarnir leystir upp í viðurvist konungs; fannst honum mikið um alóeviðinn og hið gráa ambra, en þó einkanlega um roðasteinana og smaragðana, því hann átti enga slíka í gripahirzlu sinni.

Þegar ég sá, hvað honum varð starsýnt á gimsteina mína, einkum þá, er fegurstir voru, fleygði ég mér niður fyrir fætur honum og mælti: "Herra, bæði sel ég sjálfan mig í vald yðar, og færi yður til eignar allan farm fleka míns; gerið það af, sem yður þóknast."

Brosti hann þá og mælti: "Sindbað! Fjarri fer, að mér leiki hugur á að eiga þetta og svipta þig því, sem þú hefur þegið af drottni. Í stað þess að skerða auðæfi þín, mun ég bæta nokkru við, og skalt þú ekki svo fara úr ríki mínu, að þú ekki sjáir nein merki rausnar minnar."

Ég svaraði með óskum einum, að konungi mætti sem bezt vegna, og lofaði ég gjafmildi hans og göfuglyndi. Skipaði hann einum af embættismönnum sínum, að sjá mér fyrir öllu, sem ég þyrfti, og leigði hann þjóna handa mér á sjálfs sín kostnað.

Þessi embættismaður hlýddi rækilega skipun herra síns, fékk mér hús til íbúðar og lét bera þangað allan farminn af fleka mínum. Gekk ég á hverjum degi á tiltekinni stund til konungs, til þess að sýna honum auðmýktar- og lotningar merki, en hinum öðrum tíma dagsins varði ég til að skoða borgina og það, sem merkilegast var í henni.

Eyjan Seylon liggur undir jafndægursbaug og eru því dagur og nótt þar ætíð tólf stundir; hún er áttatíu persneskar mílur á lengd og jafnmargar á breidd. Höfuðborgin stendur í fögrum dal undir fjalli einu á miðri eynni; það er hæst fjall í heimi og sést til þess af hafi svo langt, sem sigla má á þremur dögum. (Það sem hér segir um legu og stærð eyjarinnar og hæð fjallsins, er ekki rétt, og kemur það til af því, að þekking á landafræði mun hafa verið næsta ófullkomin, þegar saga þessi varð til.)

Finnast þar roðasteinar og ýmsir málmar og er í klettunum járngrýti, sem haft er til að skera gimsteina. Þar vaxa og alls konar tré og jurtir, einkum kedros og kókostré. Perlutekja mikil er fram með ströndum eyjarinnar og við fljótsmynnin, en sumstaðar fram til dala finnast demantar.

Ég fór eins og guðhræddur maður pílagríms ferð til fjallsins, er ég nefndi fyrr; er það sögusögn manna, að þangað hafi Adam verið vísað, þegar hann var rekinn úr paradís; gekk ég upp á tind fjallsins fyrir forvitnis sakir.

Þegar ég kom heim aftur til borgarinnar, beiddi ég konung orlofs, að fara heim til ættjarðar minnar, og veitti hann mér það með mestu vinsemd og blíðu. Tróð hann upp á mig stórgjöfum úr féhirzlu sinni, og að skilnaði gaf hann mér enn gjafir og beiddi mig fyrir bréf til konungs rétttrúaðra manna, vors einvalda herra, svo mælandi:

"Fá þú kalífanum Harún Alrasjid bréf þetta og gjafir þessar í hendur, og seg honum, að hann megi vera fullviss um vináttu mína."

Ég tók við bréfinu og gjöfunum með lotningu og lofaði konungi, að hlýða skipun hans rækilega. Áður en ég sté á skip, gerði hann boð eftir skipstjóra og stýrimanni, sem ég ætlaði að fara með, og skipaði hann þeim að sýna mér sem mesta virðingu.

Bréf konungsins á Seylon var skrifað á skinn, sem er ákaflega dýrmætt; dýrið, sem það er af, er gult að lit og fjarska sjaldgæft. Letrið á skinninu var heiðblátt og var bréfið samið á indverska tungu og svo látandi:

"Konungur Indíalands, sem lætur þúsund fíla ganga á undan sér, sem býr í glæsilegri höll með ljómandi þaki, blikandi af hundrað þúsund roðasteinum, sem á tuttugu þúsund demantskórónur í féhirzlu sinni, sendir kalífanum Harún Alrasjid kveðju guðs og sína.

Þótt gjafir þær, er vér sendum yður, séu næsta lítilfjörlegar, þá þiggið þær samt eins og bróðir vor og vinur, sökum kærleika þess, er vér berum til yðar í hjarta voru; þykir oss sönn gleði, að geta vottað hann í verkinu.

Vér beiðumst vinfengis yðvars af hjarta, og þykjumst þess verðir, því vér erum yður jafnir að tign og metorðum."

Gjafirnar voru þessar: fyrst var roðasteinsker, eins og bikar í laginu, hálft fet á hæð og fingurs þykkt, það var alsett dýrindis perlum og vó hvert þeirra fjórðung lóðs; annað var ormshamur, og var hver skel á hreistrinu viðlíka stór og meðal gullpeningur; fylgdi haminum sú náttúra, að hver, sem svaf á honum, kenndi einskis sjúkleika; þriðja gjöfin var töluvert af bezta alóeviði og þrjátíu stykki af kamfóru.

Öllum þessum sendingum fylgdi, eins og ofanálag, yndisfögur ambátt og skartbúin; voru klæði hennar alsett gimsteinum.

Lét nú skipið úr höfnum og lentum vér í Balsora eftir langa, en mjög svo heppilega ferð. Þaðan fór ég til Bagdad og lét ég sitja fyrir öllu, að koma fram erindi mínu....


108. nótt

Ég gekk til hallardyra konungsins, drottins rétttrúaðra manna, með nokkrum ættingjum mínum, sem báru sendingarnar; gerði ég boð á undan mér, að ég kæmi með bréf frá konunginum á Seylon, fríða ambátt og aðrar gjafir frá honum; var ég þá óðara leiddur fram fyrir hásæti kalífans.

Ég fleygði mér fram fyrir fætur honum, ávarpaði hann fáeinum orðum, og fékk honum bréfið og gjafirnar. Þegar hann hafði lesið bréfið frá konunginum í Seylon, spurði hann mig, hvort það væri víst, að konungur þessi væri svo ríkur og voldugur, sem í bréfinu segði.

Ég fleygði mér á ný til jarðar, stóð upp og svaraði: "Drottinn rétttrúaðra manna! Ég get borið vitni um það, eins og sjónarvottur, að hann segir ekki ofsögum af veldi sínu og auðlegð. Þegar hann ætlar að birtast opinberlega, er hásæti hans reist upp á fíls baki, og standa þar ráðgjafar, dýrðlingar og hirðmenn í tveimur röðum, sinni til hvorrar handar honum. Fyrir framan hann situr á sama fílnum embættismaður einn, og heldur á gylltri burtstöng, en bak við hann stendur annar, og hefur í hendi gullinn sprota með smaragðstein framan á broddinum; er hann um hálft fet á lengd og þumlungur á þykkt. Á undan honum fara þúsund riddarar í gullfjölluðum silkiklæðum, sitjandi á skrautlega tygjuðum fílum; eru það höfuðverðir hans. En á leiðinni kallar embættismaður sá, er situr á fílnum fyrir framan konung, hárri röddu:

"Þessi er hinn máttugi konungur, hinn voldugi og ægilegi Indíalands soldán, sem býr í höllu, þakinni hundrað þúsund roðasteinum, og á tuttugu þúsund demantskórónur. Þessi er hinn krýndi alvaldur, sem er meiri en hinn mikli Salómon og hinn mikli Maharadsja."

Því næst kallar embættismaður sá, er stendur bak við hásætið:

"Þessi mikli og voldugi einvaldsdrottinn skal deyja, skal deyja, skal deyja."

Þá kallar hinn fremri embættismaður:

"Lofaður sé sá, sem lifir og ekki deyr."

Það er enn af konunginum á Seylon að segja, að hann er svo réttlátur, að engir dómarar eru, hvorki í höfuðborginni né annarsstaðar í ríki hans; þegnar hans þurfa engra dómara. Þeir vita sjálfir, hvað rétt er og hafa það hugfast, svo að þeir aldrei breyta á móti skyldu sinni, og því mundi öllum dómurum vera ofaukið."

Kalífanum geðjaðist vel að því, sem ég sagði honum. "Viturleikur konungs þessa," mælti hann, "er auðráðinn af bréfi hans, og eftir því, sem þér segist, hlýt ég að játa, að hvað hæfir öðru, vitur konungur og vitrir þegnar."

Að svo mæltu lét hann mig frá sér fara, sæmdan dýrindis gjöfum."

Þannig lauk Sindbað sögu sinni og fóru áheyrendur hans heim. Hindbað fékk hundrað gullpeninga eins og fyrri. Daginn eftir komu allir til Sindbaðs aftur, og sagði hann þeim þá af hinni sjöundu og síðustu ferð sinni.




Netútgáfan - ágúst 2001