"Ég hafði erft töluverðar eignir eftir ættmenni mín, en ég sóaði þeim mestöllum út í óhófi og munaði, sem ungum mönnum hættir við. Samt rankaði ég við mér og sneri aftur á vegi glötunarinnar; ég sá að mér og hugleiddi, að auðurinn er svipull og eyðist skjótt, þegar illa er með farið, eins og ég gerði.Með hinum óreglusama lifnaði hafði ég líka eytt tímanum, sem er hið dýrmætasta í heiminum. Nú skildi ég, að það er hið versta og hræðilegasta ólán, að vera alls laus í ellinni, og minnti þetta mig á einn orðskvið hins mikla Salómons, er ég hafði heyrt föður minn fara með: "Betra er að vera dauður en snauður."
Nú safnaði ég því, sem eftir var af eigum mínum, og seldi ég lausafé mitt á markaði, þeim, er bezt buðu. Því næst slóst ég í félagsskap með nokkrum kaupmönnum, er stunduðu sjóverzlun og leitaði hjá þeim góðra ráða. Ásetti ég mér að ráðstafa þeim fjármunum, sem eftir voru, svo ég hefði gagn af; lét ég þess eigi lengi bíða, að ég framkvæmdi áform mitt.
Ég fór til Balsora, gekk í félag með nokkrum kaupmönnum og sigldum við burt á skipi einu, er vér létum búa á sameiginlegan kostnað. Létum vér í haf og sigldum til Austur-Indíalands út Persalandsflóa og höfðum oss á hægri hönd strandir Arabíu sælu, en á vinstri hönd Persalands strönd; er flóinn sjötíu vikur sævar á breidd þar sem breiðast er. En fyrir utan flóann tekur við hið indverska haf; liggja að því öðrumegin strandir Abyssiníu, en hinumegin eyjan Wackwack og eru fjögur þúsund og fimmhundruð vikur sævar þar á milli. Í fyrstunni hafði ég sjósótt, en mér batnaði bráðlega og hef ég aldrei kennt þeirrar sóttar upp frá því.
Á leiðinni lentum vér víða, seldum vörur vorar eða létum fyrir aðrar í skiptum. Það var einhvern dag, er skip vort var á siglingu, að allt í einu sló í blæjalogn, og var þetta nálægt lítilli ey, er bar lágt yfir sjávarmál, og var hún græn eins og engjateigur. Lét þá skipstjórnarmaður hlaða seglum og leyfði öllum á land að ganga, þeim, er vildu. Var ég einn í þeirra tölu, en er vér sátum þar og átum og drukkum oss til hressingar eftir sjóvolkið, þá kipptist við eyjan allt í einu gríðarhart og hnykkti oss...
90. nóttÞeir, sem á skipinu voru, sáu þegar eyjan hristist; hugðu þeir jarðskjálfta vera og kölluðu til vor, að vér skyldum á augabragði koma aftur, mundum vér að öðrum kosti hafa farizt, því það, sem vér hugðum ey vera, var ekki annað en bak hvalfiskjar nokkurs. Þeir, sem fimastir voru, stukku út í bátinn, en sumir björguðu sér á sundi.
Af mér er það að segja, að ég var eftir á eynni, eða réttara sagt, hvalnum, í því hann stakk sér, og gafst mér að eins tími til að ná í viðardrumb einn, er vér höfðum haft með oss frá skipinu til eldsneytis. Skipstjórnarmaður tók þá upp í skipið, sem voru á bátnum, og nokkra af þeim, er voru á sundi; en á meðan hafði runnið á hagstæður byr og vildi hann hafa not af; lét hann því vinda upp segl, svo ég varð afhuga að ná til skipsins.
Nú var ég ofurseldur öldum hafsins og hröktu þær mig á ýmsa vegu; velktist ég í hafi það sem eftir var dagsins og næstu nótt. Um morguninn var dregið af mér allt afl, og var ég úrkula vonar um líf mitt, en þá vildi svo heppilega til, að bylgja varp mér á land á ey nokkurri. Voru strendur hennar háar og sæbrattar og mundi mér hafa veitt örðugt að klifrast þar upp, ef ekki hefðu verið trjárætur nokkrar, sem ég gat haldið mér í; það var eins og forlögin hefðu varðveitt þær mér til frelsis. Fleygði ég mér niður á jörðina hálfdauður og lá svo unz ljómaði af degi og sólin rann upp.
Svo örmagnaður sem ég var af sjóvolkinu, dróst ég þó á fætur til þess að leita að ætilegum jurtum, því ég hafði ekki bragðað mat síðan daginn áður. Ég fann nokkrar jurtir og tæra uppsprettulind með ágætu vatni, sem varð mér til mestu hressingar.
Jafnskjótt sem ég kenndi mig fullstyrkan, gekk ég upp á eyna og leitaði inn á land, þótt ég gengi eigi í vissa stefnu; kom ég á fagra völlu og sá langt burtu hest á beit. Þangað gekk ég og var þó hugur minn milli vonar og ótta, því ég vissi ekki, nema það kynni að verða mér heldur til glötunar en frelsis. En þegar ég kom nær, sá ég, að þetta var meri, og var tjóðruð við staur; stóð ég þar og horfði á hana undrandi fyrir sakir fegurðar hennar; en þá heyrði ég allt í einu mannsrödd niðri í jörðinni.
Kom þá óðara sá, er talað hafði, og spurði, hver ég væri. Ég sagði honum frá ævintýri mínu og tók hann mig síðan við hönd sér og fór með mig niður í jarðhúsið; sátu þar fleiri menn og þótti þeim ekki kynlegra að sjá mig en mér að hitta þá.
Nú nærðist ég af ýmsum réttum, er þeir báru á borð fyrir mig og spurði ég þá, hvað þeir væru að gera á svo eyðilegum stað. Sögðu þeir mér, að þeir væru hestasveinar Maharadsja (þ. e. hins mikla konungs), sem réði yfir eynni; færu þeir á ári hverju hingað um sama tíma með meri herra síns og tjóðruðu hana, sem ég hefði séð, en það gerðu þeir til þess, að nykur einn, er úr hafi kæmi, skyldi fylja hana.
En þegar nykurinn væri búinn að því, ætlaði hann ætíð að gleypa merina, en þá þyrptust þeir að og fældu hann út í sjó aftur með ópi og óhljóðum. Því næst væru þeir vanir að fara heim með hina fylfullu meri og væru folöld þau, er hún kastaði, alin handa konungi og væru kölluð sjóhestar.
Það sögðu þeir enn fremur, að þeir yrðu að halda burt að komandi morgni og hefði mér verið dauðinn vís, ef ég hefði komið einum degi seinna, því svo langt væri þaðan til mannabyggða, að ég mundi aldrei hafa náð þangað leiðsagnarlaust.
Meðan þeir voru að segja mér þetta, kom nykurinn úr hafi, sem þeir höfðu gert ráð fyrir, fyljaði merina og ætlaði síðan að gleypa hana. En af hinum mikla skarkala, sem hestasveinarnir gerðu, lagði hann á flótta og stakk sér aftur í sjóinn.
Morguninn eftir fóru þeir heim aftur til höfuðborgarinnar á eynni með merina, og varð ég þeim samferða. Þegar ég var kominn þangað, lét ég fylgja mér á fund Maharadsja konungs; spurði hann mig, hver ég væri og hvernig ég hefði hrakizt til landa hans.
En er ég hafði leyst úr öllum spurningum hans, komst hann við af óláni mínu og samhryggðist mér. Bauð hann jafnskjótt að greiða skyldi fyrir mér og láta allt af hendi við mig, sem ég þyrfti; var boði þessu fullnægt svo, að ég mátti telja mig sælan, að hafa hitt svo göfuglyndan konung og svo vandaða embættismenn.
Af því að ég var kaupmaður, kom ég oft á fund verzlunarmanna, en einkum þeirra, sem útlendir voru, bæði til að heyra fréttir frá Bagdad og til þess að finna einhvern, er gæti flutt mig heim.
Höfuðborg Maharadsja stendur á sjávarströnd við fagra höfn; lögðust þar á degi hverjum við akkeri skip úr öllum áttum. Ég dró mig líka eftir indverskum fræðimönnum og hafði ég gaman af að hlýða á þá; kom ég þó meðfram á konungsfund og átti þá tal við jarla hans og skattskylda konunga, er með honum voru. Spurðu þeir mig að mörgu um ættjörð mína, en ég spurði þá hins vegar að því, sem mér þótti fróðlegt um lög og landsvenju, þar sem þeir áttu heima.
Undir Maharadsja konung lá lítil ey, er Kasel heitir. Það var mælt, að þar heyrðist á hverri nóttu bumbnahljómur og ætluðu sjómenn, að Degíal
Degíal er sama og "Antichristus"; þegar hann fæðist eru heimslok fyrir hendi. Hann er eineygður og reynir að leiða menn afvega; brýtur hann undir sig alla veröld nema Mekka, Medína og Jórsalaborg, en bíður ósigur fyrir Kristi.
hefðist þar við, Varð mér hugur á að grennslast eftir undri þessu; sá ég á ferð minni þangað fiska, sem voru hundrað og fimmtíu álnir á lengd; voru þeir ógurlegri ásýndum, en þeir voru skaðvænlegir, því þeir fældust burt ef barið var á fjöl og þurfti ekki meira. Ég sá þar líka annars kyns fiska, sem varla voru alin á lengd; voru höfuð þeirra líkt og á náttuglum.
Þegar ég var kominn aftur, stóð ég einn dag niður við sjó og sigldi þá skip nokkurt inn á höfn. En er það hafði varpað akkeri, var tekið að skipa upp varninginn og létu kaupmennirnir, sem áttu, bera hann inn í varningshús.
Horfði ég á nokkra stranga og áskriftir þeirra, sem merktu nöfn eigendanna, og sá ég þá nafn mitt. Þegar ég hafði skoðað þá vandlegar, gekk ég úr skugga um, að þetta voru sömu strangarnir, sem ég hafði flutt á skipinu frá Balsora.
Ég þekkti jafnvel skipstjórnarmanninn, og þó ég vissi, að hann ætlaði mig löngu dauðan, talaði ég til hans og spurði, hver strangana ætti.
"Kaupmaður nokkur," svaraði hann, "er Sindbað hét, varð mér samferða frá Bagdad. Það var einn dag er vér lágum nálægt ey nokkurri, - því svo kom oss fyrir sjónir - að hann fór þangað með mörgum ferðamönnum. En það, sem vér hugðum vera ey, var geysistór hvalur, er mókti ofansjávar; gerðu þeir eld á baki honum til matreiðslu, en er hann varð þess var, tók hann viðbragð og stakk sér.
Þeir, sem á hvalnum voru, drukknuðu flest allir, og í þeirra tölu var Sindbað. Hann átti þessa stranga; ætla ég að selja þá og jafnskjótt, sem ég hitti einhvern af ættingjum hans, mun ég greiða honum andvirðið."
Þá svaraði ég: "Skipstjórnarmaður, ég er Sindbað, sem þér hyggið vera dauðan; hann er á lífi og strangar þessir eru mín eign...."
91. nóttSindbað sagði samkvæminu framhald sögu sinnar á þessa leið:
"Þegar skipstjórnarmaður heyrði þessi orð mín, mælti hann: "Guð á himnum, hverjum er nú framar trúandi? Tryggð og ráðvendni eru ekki lengur til meðal manna. Ég sá með mínum eigin augum, þegar Sindbað drukknaði. Farmenn mínir sáu það, og þó eruð þér svo djarfur, að ljúga til nafns yðar og látast vera Sindbað. Hvílík ósvífni; eftir útliti yðar hafið þér góðan mann að geyma, en samt farið þér með herfilega lygi til þess að svæla undir yður annarlega eign."
"Bíðið við," svaraði ég, "og heyrið það, sem ég nú segi yður."
"Og hvað er það?" anzaði hann, "segið mér, ég skal taka vandlega eftir."
Sagði ég honum þá, hvernig ég hefði komizt af og hitt hestamenn Maharadsja konungs af furðulegri tilviljun og orðið þeim samferða til konungs.
Efasemdir hans rénuðu nokkuð af sögusögn minni; en nú fékk hann skjótt fulla vissu um það, að ég ekki væri neinn svikari, því hásetar nokkrir komu af skipi hans og könnuðust við mig; fögnuðu þeir mér með mestu vinsemd og var þeim mikil gleði að sjá mig aftur.
Loksins kannaðist hann líka við mig og hljóp um háls mér. "Lofaður sé guð," mælti hann, "að þér sluppuð farsællega úr slíkum háska, og fær það mér meiri gleði en ég geti frá sagt. Þarna eru eigur yðar, takið við þeim og gerið af, hvað yður líkar."
Ég þakkaði honum og lofaði ráðvendni hans; beiddi ég hann að þiggja nokkuð af varningnum í þakklætisskyni, en hann drap hendi við.
Nú valdi ég úr það verðmætasta af varningi mínum og gaf Maharadsja konungi. Vissi hann allt um hrakfarir mínar og spurði því, hvernig ég hefði komizt yfir þessa sjaldgæfu hluti. Ég sagði honum þá, hvernig tilviljunin hafði aftur skilað þeim í hendur mér. Varð hann glaður við og þáði gjöfina af konunglegri náð, en gaf mér miklu stærri gjafir í staðinn.
Því næst kvaddi ég hann og tók mér aftur fari með hinu sama skipi. En áður ég færi, hafði ég fyrir það, sem eftir var af varningi mínum, fengið innlendar vörur í skiptum, bæði alóe- og sandelsvið, kamfóru, múskathnetur, negulnagla, pipar og engifer.
Sigldum vér fram hjá mörgum eyjum og lentum í Balsora; fór ég þaðan og hingað með hundrað þúsund sekkína virði. Varð fagnafundur á heimili mínu, er ég kom heim, sem vænta má, þar sem heit og trygg ást er fyrir; keypti ég mér þræla, ambáttir og góðar jarðir og lét byggja mér stórt hús. Kom ég öllu sem bezt fyrir og ásetti mér að gleyma öllum þrautum og njóta unaðsemda lífsins."
Að svo mæltu þagnaði Sindbað og skipaði sönglistarmönnum að hefja hljóðfærasláttinn á ný, er þeir höfðu látið niður falla, þegar hann byrjaði sögu sína.
Var nú etið og drukkið til kvölds, og er tími var til kominn, að hver færi heim til sín, lét Sindbað sækja poka með hundrað gullpeningum í og gaf daglaunamanninum svo mælandi: "Eigðu þetta, Hindbað! Farðu nú heim og komdu aftur á morgun, til þess að heyra framhald ævintýra minna."
Daglaunamaðurinn gekk burt eins og í leiðslu, svo mikið fannst honum um virðingu þá og rausn, er honum hafði verið sýnd. En er hann sagði konu og börnum frá því, réðu þau sér varla fyrir kæti og lofuðu guð fyrir þá líkn, sem hann hafði látið Sindbað auðsýna þeim.
Daginn eftir bjó Hindbað sig betur en daginn áður og gekk á fund hins víðförla rausnarmanns; fagnaði Sindbað honum með gleðisvip og fór með hann eins og bezta vin sinn. Þegar allir gestirnir voru komnir, var matur fram borinn og var lengi til borðs setið.
En er borð voru upp tekin, tók Sindbað til máls og veik sér að boðsmönnum: "Vinir góðir, nú bið ég yður að heyra með athygli og hlýða á ævintýri mín á hinni næstu ferð; eru þau enn merkilegri en það, sem til bar á fyrri ferðinni."
Þögðu allir og tók Sindbað til frásagna: