SAGAN  AF  NÚREDDÍN  ALÍ  OG  BEDREDDÍN  HASSAN




"Drottinn rétttrúaðra manna! Einu sinni ríkti í Egiptalandi soldán, sem var réttlátur, hjartagóður og rausnarlyndur. Nágrannaþjóðirnar höfðu geig af honum fyrir sakir hreysti hans. Hann var vinur hinna nauðstöddu og verndari fræðimanna, og hóf hann þá til hæstu metorða.

Stórvezír konungs þessa var hygginn og vitur maður, og vel að sér í fögrum vísindum og alls konar fróðleik. Ráðgjafi þessi átti tvo sonu, fríða sýnum; fetuðu þeir báðir í fótspor hans. Hinn eldri hét Sjemseddín Móhammed, en hinn yngri Núreddín Alí, og hafði einkum sá hinn yngri alla kosti til að bera, sem hugsazt geta.

Þegar vezírinn, faðir þeirra, var dáinn, gerði soldán boð eftir þeim báðum, færði hvorn þeirra um sig í vezírs skrúða og mælti: "Ykkur tekur ekki sárara tjón það, er þið hafið beðið, en sjálfan mig. Veit ég að þið lifið í bróðurlegu samlyndi, og sæmi ég ykkur því báða vezírstigninni. Farið nú vel, og reynið að líkjast föður ykkar."

Báðir hinir nýju vezírar þökkuðu soldáni fyrir náð þessa og gengu heim; eftir það sáu þeir um greftrun föður síns. Þegar mánuður var liðinn, gengu þeir í fyrsta sinn á ráðstefnu soldáns; áttu þeir þar stöðugt sæti. Þegar soldán fór á veiðar, fylgdi honum ávallt annar hvor bræðranna, og nutu þeir þessarar sæmdar til skiptis.

Það var einu sinni, er þeir höfðu snætt kvöldverð, daginn áður en eldri bróðirinn átti að fylgja soldáni á veiðar, og voru að tala um hitt og þetta, að þá tók hinn eldri til máls: "Við erum báðir ókvæntir og lifum í bróðurlegri eindrægni, því kemur mér til hugar, að við ættum á sama degi að eiga tvær systur af góðum ættum við okkar hæfi. Hvernig lízt þér á það?"

"Þetta ráð," anzaði Núreddín Alí, "er í alla staði samboðið vináttu okkar, og er ég reiðubúinn til alls, sem þú hyggur oss henta."

"Ekki skal þar við sitja," mælti Sjemseddín, "hugur minn hvarflar lengra fram í tímann. Gerum nú ráð fyrir, að konur okkar verði barnshafandi á sama tíma og ali börn sín á sama degi, þín kona son, og mín kona dóttur, þá skulum við láta börnin eigast, þegar þau eru upp komin."

"Þetta er óskaráð," segir Núreddín Alí, "þessi ráðahagur staðfestir bróðurelsku okkar til fulls, og samþykki ég þetta fúslega. En ef nú yrði úr þessari ráðagerð, mundir þú þá heimta heimanmund af syni mínum?"

"Það verður varla sundurþykkisefni," anzaði hinn, "og geng ég að því vísu, að þú gefir syni þínum í minnsta lagi þrjú þúsund sekkínur, þrjár góðar jarðir og þrjá þræla."

"Ekki skaltu treysta því," anzaði yngri bróðirinn, "erum við ekki bræður og höfum báðir jöfn metorð? Þú veizt líka, að karlar eru konum æðri og meiri. Ætli því ekki það væri réttast, að þú greiddir fram ríkulega heimanfylgju? Mundi þér ekki verða mikið fyrir því, þó þú yrðir að lána féð úr annars sjóði."

Að vísu sagði Núreddín Alí þetta í gamni, en bróðir hans var skapbráður og þótti honum fyrir. "Bölvaður sé sonur þinn," mælti hann með þykkjusvip, "fyrst þú vogar að taka hann fram yfir dóttur mína. Þykir mér þú furðu djarfur, að ætla þeim jafnræði. Þú munt vera brjálaður, fyrst þú segir, að við höfum jöfn metorð. Skaltu vita það, að fyrir heimsku þína mun ég ekki gefa syni þínum dóttur mína, þó þú gæfir honum meiri auð en þú átt sjálfur."

Þessi skringilega þræta bræðranna út af giftingu óborinna barna þeirra, harðnaði meir og meir, og jókst orð af orði, þangað til Sjemseddín Móhammed heitaðist við bróður sinn og mælti: "Ætti ég ekki á morgun að fylgja soldáni, skyldi ég launa þér, sem þú hefur til unnið. En þegar ég kem heim, skaltu komast að raun um, að yngra bróður hentar ekki að velja eldra bróður svo háðuleg orð, sem þú hefur gert."

Eftir þetta gengu þeir báðir til svefns.

Morguninn eftir snemma dags fór Sjemseddín Móhammed frá Kairó með soldáni og föruneyti hans, og var stefnt á leið til pýramíðanna. En Núreddín var harðla órótt um nóttina, og kom honum ekki svefn á auga. Eftir langa umhugsun réði hann af, að slíta allri sambúð við bróður sinn, því honum þótti frágangs sök að þola slíkan ofmetnað. Kvað hann þá vísur þessar:

Stöðugt logn er vatni verst;
ef vindar það ei hræra,
óhollusta magnast mest,
mornar djúpið væra.

Bráð svo ljónið bezt kann ná,
ef bæli framar stígur;
ein sú hitta örin má,
er af strengnum flýgur.

Firrist halur frama og dáð,
á fletjum kyrr er situr,
far því víða um lög og láð,
lukkan sem þig flytur.

Hann lét söðla trausta múlösnu, tók með sér peninga, dýrgripi og fararnesti; brá hann því á, að hann ætlaði skammt í burt, og mundi koma að tveim dögum liðnum. Reið hann nú af stað, og jafnskjótt sem hann hafði borgina Kairó að baki sér, lagði hann út á eyðimörk þann veg, sem liggur til Arabíu; leið eigi á löngu að múlasninn sprakk, og varð hann þá að fara gangandi. Vildi honum til allrar hamingju, að hann mætti hraðboða nokkrum, sem átti að fara til Balsora, og lofaði hann honum að setjast upp á úlfaldann bak við sig.

Kvaddi hann hraðboðann er þeir komu til Balsora, og þakkaði honum farargreiðann; því næst fór hann að útvega sér herbergi til íbúðar. Mætti hann þá á stræti einu tignum manni, sem allir borgarmenn sýndu djúpa lotningu, því þeir stóðu jafnan kyrrir, þangað til hann var fram hjá genginn. Núreddín gerði þetta og að dæmi annarra.

Þessi maður var stórvezír soldánsins í Balsora; gekk hann um borgina til að sjá um góða reglu. Varð honum litið til hins unga manns, og þótti yfirbragð hans bjóða af sér góðan þokka. Hann horfði vingjarnlega til hans og nam staðar; sá hann að hann var í ferðafötum og spurði því, hver og hvaðan hann væri.

"Herra!" anzaði Núreddín Alí, "ég er frá Kairó í Egiptalandi, fór ég þaðan af því ég varð ósáttur við mann, sem er mér náskyldur; féll mér það svo nærri, að ég vil heldur ráfa um alla veröld og deyja en snúa þangað aftur."

Stórvezírinn, sem var æruverðugur öldungur, svaraði honum: "Hættu við það, sonur sæll, því í veröldinni finnur þú ekki annað en eymd og hörmungar; þú veizt ekki, hvaða þrautir þú hættir þér í. Kom þú heldur með mér; hver veit nema ég geti bætt þér það, sem þú hefur misst á fósturjörðu þinni."

Núreddín Alí fór með stórvezírnum í Balsora. Komst stórvezírinn fljótt að því, hvílíkur afbragðsmaður hann var, og lagði svo mikla ást á hann, að hann sagði einu sinni við hann, þegar þeir voru tveir einir: "Þú veizt, að ég er kominn á þann aldur, að ég get ekki átt langt eftir ólifað. Guð hefur gefið mér dóttur, sem er eins að fríðleik umfram allar aðrar konur, sem þú ert umfram aðra karlmenn, og er hún nú gjafvaxta. Hafa margir hinir tignustu menn í hirðinni beðið hennar fyrir hönd sona sinna; en ekki hef ég ráðizt í, að fastna hana neinum þeirra. En þig lízt mér afbragðs vel á, og þykir mér í alla staði jafnræði, er ég því fús á, að gerast tengdafaðir þinn. Ef þú tekur þessum kosti, mun ég láta soldáninn, herra minn, vita, að ég jafnframt tengdum þessum, tek þig mér í sonar stað, og bið hann að gera þig að stórvezír í Balsora, þegar ég fell frá. Er ég mjög svo hniginn á efra aldur og hvíldar þurfi, vil ég því fela þér á hendur fjárforráð og stjórnarstörf mín."

Þegar stórvezírinn hafði lokið ræðu sinni, fleygði Núreddín Alí sér til fóta honum, og sagði hinum gamla manni, frá sér numinn af fögnuði og þakklátssemi, að hann vildi að hans vilja gera í öllu sem einu. Kallaði stórvezírinn nú á hinn helzta þjónustumann sinn, og skipaði honum að skreyta stærsta salinn í höll sinni og búa til veizlu. Því næst bauð hann tignustu mönnum í hirðinni og borginni.

Sagði Núreddín honum, meðan á þessu stóð, hverrar stéttar hann væri, og er boðsmenn voru komnir, hélt stórvezírinn svo látandi ræðu, einkum til þeirra, er hann hafði synjað ráðahagsins: "Herrar mínir! Mér er gleði að geta gert yður nokkuð uppskátt, sem ég lengi hef leynt. Ég á bróður, sem er stórvezír Egipta soldáns, eins og ég er stórvezír hér í landi. Þessi bróðir minn á einn son, og vildi hann ekki láta hann kvongast í hirð Egiptasoldáns, heldur sendi hann til mín í því skyni, að ættleggir vorir tengdust. Þessi ungi maður er bróðursonur minn, og kýs ég mér hann til tengdasonar. Er ég vongóður um, að þér gerið mér þá sæmd, að sitja í brúðkaupi hans, er ég ætla að halda í dag."

Öllum, sem viðstaddir voru, þótti sanngjarnt, að vezírinn hefði tekið bróðurson sinn fram yfir alla aðra; sögðu því allir í einu hljóði, að þeim þætti ráðahagurinn góður, kváðust fúsir að sitja brúðkaupið, og óskuðu honum langra lífdaga, svo að hann mætti sjá ávexti þessarar gleðilegu giftingar."

Þá sá Sjerasade að lýsti af degi og felldi því niður söguna, en næsta morgun sagði hún framhaldið á þessa leið:


114. nótt

"Herra! Stórvezírinn Gíafar sagði kalífanum áfram söguna og mælti: "Þegar boðsmenn stórvezírsins í Balsora höfðu látið í ljósi, að þeim þætti vænt um, að dóttir hans giftist Núreddín Alí, var til borðs gengið. Eftir máltíðina, sem ekki stóð æði lengi yfir, voru bornar fram sætabrauðskökur, og er hver og einn, eins og lög gera ráð fyrir, hafði troðið svo miklu á sig af þeim, sem hann gat, komu skjalaritarar með kaupmálann. Skrifuðu undir hann hinir tignustu menn, sem í boðinu voru, og að því búnu fóru allir heim.

En er allir voru burt gengnir nema þjónustumennirnir, skipaði vezírinn nokkrum þeirra, sem hann hafði falið á hendur að búa til lauga, að fylgja Núreddín til baðhúss. Þar fann Núreddín hið hreinasta og fegursta lín, sem yndi var á að horfa, og allt, sem hann þurfti með. Þegar hann hafði látið þvo og núa sig, ætlaði hann að fara í sömu fötin og hann hafði farið úr, en þá voru honum fengin önnur, sem voru miklu skrautlegri.

Gekk hann nú prúðbúinn og ilmandi af kostulegustu smyrslum til tengdaföður síns; fannst honum mikið um fríðleik hans, og lét hann setjast hjá sér, svo mælandi: "Þú sagðir mér, sonur, hver þú værir og hver metorð þú hafðir í hirð Egipta soldáns, og veikst þú á eitthvert sundurþykki ykkar bræðranna, sem olli burtför þinni úr föðurlandi þínu. Seg mér nú í einlægni, út af hverju deila þessi reis, því þú mátt trúa mér fyrir öllu, og átt ekki að leyna mig neinu."

Núreddín Alí sagði honum þá allt út í æsar frá ósamþykki þeirra bræðranna, og gat stórvezírinn ekki að sér gert að skellihlæja, meðan hann var að segja honum sögu þessa. "Getur nokkuð hugsazt hlægilegra?" mælti hann, "hvernig gátuð þið orðið ósáttir út af þessum ráðahag, sem var eintómur hugarburður? Það var leitt, að þú skyldir verða óvinur eldra bróður þíns út af slíku lítilræði, enda var það rangt af honum, að taka gamanyrði þín fyrir brígzl; samt lofa ég guð fyrir þessa þrætu, því henni á ég það að þakka, að ég hef fengið slíkan tengdason sem þú ert. En nú er framorðið og sæmir ekki, að þú látir dóttur mína, konu þína, bíða lengi eftir þér. Á morgun skal ég fylgja þér á fund soldáns, og vona ég hann taki svo við þér, að við báðir megum vel við una."

Nú hittist svo merkilega á, að sama daginn, sem brúðkaup þetta var haldið í Balsora, kvæntist Sjemseddín Móhammed í Kairó.

Þegar Núreddín hafði farið úr borginni fyrir fullt og allt, og Sjemseddín kom heim aftur eftir mánaðar burtveru, gekk hann til húsa Núreddíns. Frétti hann þá, að Núreddín hefði farið sama daginn, sem soldán hóf veiðiför sína, og hefði látið í veðri vaka, að hann ætlaði ekki að vera burtu meira en tvo eða þrjá daga, og hefði ekki síðan sézt. Sárnaði honum þetta því heldur, sem hann sá, að Núreddín hafði ekki gengið annað til burtferðarinnar en skapraunar orð þau, sem honum höfðu um munn farið.

Gerði hann því út sendimann, er fara skyldi fyrst til Damaskus og þaðan til Haleb, en Núreddín var þá kominn til Balsora, og varð sendimaður að snúa heimleiðis, svo að hann fékk engin tíðindi af honum; hugsaði þá Sjemseddín Móhammed, að hann skyldi láta leita að bróður sínum annars staðar, en um sama leyti kom honum til hugar að kvongast. Gekk hann að eiga dóttur einhvers hins tignasta manns í Kairó sama daginn sem bróðir hans kvæntist dóttur stórvezírsins í Balsora.

En það var ekki þar með búið, því níu mánuðum síðar ól kona Sjemseddíns Móhammeds í Kairo meybarn, og sama dag fæddi kona Núreddíns Alís í Balsora sveinbarn; var sveininum nafn gefið og kallaður Bedreddín Hassan.

Lét stórvezírinn gleði sína í ljósi með mesta örlæti og opinberu hátíðahaldi. Samt lét hann sér mest um hugað, að votta tengdasyni sínum fögnuð sinn; fór hann því til soldáns og beiddi hann að láta Núreddín Alí erfa stórvezírs embættið eftir sig látinn, því sér væri hugfró að vita það í höndum tengdasonar síns.

Soldáni hafði litizt mæta vel á Núreddín, þegar hann kom á fund hans eftir brúðkaupið, og aldrei heyrt hans nema að góðu getið; veitti hann því stórvezírnum bæn sína með mestu blíðu, og skipaði að færa Núreddín Alí í stórvezírs skrúða. En þá komst gleði tengdaföðurins hæst, er hann sá tengdason sinn á ráðstefnu setjast í forseta sætið í hans stað, og taka að sér öll stórvezírs störf, og hafði hann ekki verið glaðari, þegar hann sjálfur tók við embættinu.

Sat Núreddín nú jafnan á ráðstefnum, þegar tengdafaðir hans var forfallaður af ellilasleik. Andaðist þessi göfuglyndi öldungur fjórum árum eftir giftingu Núreddíns með þeirri gleðiríku meðvitund, að hann léti eftir sig afsprengi, sem lengi mundi halda uppi frægð og ágæti ættarinnar.

Núreddín veitti honum nábjargir og annaðist útför hans með öllum virktum. Undir eins og Bedreddín Hassan sonur hans var sjö ára gamall, fékk hann honum afbragðs kennara, og fræddi hann sveininn, eins og ættgöfgi hans sæmdi; varð hann skjótt áskynja, að hann hafði bezta næmi og skilning, hvað sem hann átti að læra.


115. nótt

Þegar Bedreddín Hassan hafði verið tvö ár til kennslu var hann vel lesandi, og lét þá kennarinn hann læra kóraninn utanbókar. Voru honum nú fengnir aðrir kennarar, og tók andi hans slíkum þroska, að hann á tólfta aldurs ári gat kennt sér sjálfur. Var hann þá þegar orðinn fullorðinslegur í yfirbragði og hinn fríðasti sýnum, svo að allir dáðust að, sem hann sáu.

Hafði Núreddín Alí til þessa einungis látið hann nema alls konar fróðleik, en ekki látið hann kynnast heiminum. Fór hann því nú með hann til hallar soldáns, og lét hann sýna honum lotningu sína, tók soldán við honum með mestu blíðu. Þeir, sem sáu hann á strætinu, urðu svo frá sér numdir af fegurð hans, að þeir lofuðu hann hárri röddu og margblessuðu hann.

Faðir hans tók nú að búa hann undir, til að taka við vezírsembættinu eftir sig, og sparði því ekkert til þess, að hann fengi nákvæma þekkingu á hinum vandasömustu embættisstörfum; hann gerði í stuttu máli allt, sem í hans valdi stóð, til þess að mennta son sinn, sem var uppáhald hans.

En þegar hann gat farið að gleðjast af ávöxtum erfiðismuna sinna, tók hann hastarlega þunga sótt; fann hann fullgjörla að hann mundi eiga skammt eftir ólifað, og var hann vonlaus um að sér mundi batna; bjó hann sig undir andlátið eins og rétttrúaður og guðhræddur maður.

Á þessari dýrmætu stund gleymdi hann ekki Bedreddín, hinum ástkæra syni sínum; hann lét kalla á hann og mælti: "Son minn, þú sér, að heimur þessi er fallvaltur, en hinn, sem ég nú fer til, varir að eilífu. Skalt þú nú þegar fara að venja þig á, að hugsa um dauðann, og búa þig undir rósaman viðskilnað, svo að þú getir ekki ásakað þig um hirðuleysi í neinu, sem er skylda trúaðs og dyggðugs manns. Trúna þekkir þú til hlítar, en að því, er dyggðinni við kemur, mun ég kenna þér nokkur heilræði, en þú skalt reyna að færa þér þau í nyt. Af því að nauðsynlegt er að þekkja sjálfan sig, og þú veizt ekki, hver ég er, þá skal ég skýra þér frá því.

Ég er ættaður frá Egiptalandi, og var faðir minn, en afi þinn, æðsti ráðgjafi soldáns þar í landi, og vorum við bræður í tölu vezíra hans. Föðurbróðir þinn er enn á lífi, sem ég ætla, og heitir Sjemseddín Móhammed. Ég varð að skilja við hann og kom hingað; hlaut ég hér tignarembætti það, er ég til þessa hef haft á hendi. En allt þetta er greinilegar sagt í ritkorni, er ég ætla að gefa þér."

Því næst fékk hann Bedreddín kver, sem hann hafði skrifað með eigin hendi, og ætíð borið á sér, og mælti ennfremur: "Lestu þetta í tómstundum þínum; muntu meðal annars finna þar tilgreindan giftingardag minn og fæðingardag þinn. Mun þar síðar koma, að þú þarft skilríkja þessara við, og skaltu því geyma kverið vandlega."

Viknaði Bedreddín Hassan bæði af ástandi föður síns og orðum hans, og tók við kverinu með tárin í augunum, og lofaði, að láta það aldrei við sig skilja. Í sama vetfangi versnaði Núreddín svo, að ekki var annað að sjá en hann mundi gefa upp öndina.

Samt hresstist hann við aftur og tók að nýju til máls: "Sonur, lát það vera hina fyrstu og æðstu lífsreglu þína, að leggja ekki lag þitt við hvern sem vera skal: sá sem vill vera í friði, verður að vera einn sér, og má ekki birta öðrum hugskot sitt. Af öllum þeim, sem þú vilt vingast við, mun enginn reynast þér tryggur í andstreyminu. Búðu því einn að þínu og trúðu engum.

Í öðru lagi skaltu varast að beita ójöfnuði við nokkurn mann, því þá mun hver hönd snúast á móti þér, og ber þér að líta á heiminn, eins og trúaður maður, sem ætlast til hógværðar og nærgætni af öðrum. Minnstu þess, að engin hönd er svo voldug, að guðs hönd sé ekki máttkari.

Það er hið þriðja: Þú mátt ekki svara, þegar vaðið er upp á þig með brigzlum. "Fæst orð hafa minnsta ábyrgð," segir máltækið og á það hér heima. Þú veizt, að eitt af skáldum vorum kallar þögnina prýði og hlíf lífsins, og ræður mönnum til, að láta ekki orð sín hrjóta eins og æðandi haglskúr. Margur hefur iðrazt eftir orð, sem talað var í ótíma, en enginn eftir að hafa þagað.

Láttu það vera hina fjórðu reglu þína, að bergja aldrei á víni, því það er uppspretta allra lasta.

Í fimmta lagi ræð ég þér til sparsemi. Ef þú ekki eyðir fjármunum þínum, muntu ekki komast í bágindi. Hvorttveggja er illt: að vera of ríkur og ágjarn. Með litlu, ef þú fer laglega með, getur þú aflað þér margra vina, en ef þú fer illa með mikinn auð, mun allur heimur verða þér frásnúinn og móthverfur."

Þannig kenndi Núreddín Alí syni sínum heilræði, allt fram í andlátið, en er hann var andaður, var hann greftraður með mestu viðhöfn....


116. nótt

Bedreddín Hassan tregaði föður sinn sárar en frá megi segja; lét hann sér ekki nægja að syrgja einn mánuð, heldur sat hann aleinn og harmandi í tvo mánuði og gleymdi að koma á fund soldáns í Balsora og sýna honum lotningu. Þótti soldáni sér og hirð sinni mikil fyrirlitning sýnd með tómlæti þessu, og varð því afarreiður.

Bauð hann í bræði sinni stórvezír þeim, er hann hafði skipað í stað Núreddíns Alís, að fara til húsa hins framliðna vezírs og gera allar eigur hans og allt, sem hann hafði látið eftir sig, upptækt. Skyldi hann svipta Bedreddín Hassan öllum arfi og taka hann fastan í tilbót.

Nýi stórvezírinn fór af stað með fjölda dómþjóna og valdsmanna, til að fullnægja skipun þessari. Vildi þá svo til, að á leiðinni mætti honum einn af þrælum Bedreddíns Hassans; en undir eins og þrællinn varð þess áskynja, hvað stórvezírnum var í hug, flýtti hann sér á undan honum, til þess að gera herra sinn varan við. Kom hann þar að honum, sem hann sat í forgarði húsa sinna, hnugginn og niðurlútur, eins og faðir hans hefði gefið upp öndina á þeirri sömu stund.

Fleygði þrællinn sér fram fyrir fætur honum með öndina í hálsinum, kyssti fald klæða hans og mælti: "Forðið yður, herra, forðið yður sem fljótast."

"Hvað er um að vera?" spurði Bedreddín Hassan og leit upp; sagði þrællinn honum þá allt um reiði soldáns, og það, sem hann hefði skipað.

Skaut honum þá skelk í bringu, og spurði hann hinn trygga þræl, hvort hann mundi hafa tíma til að stinga á sig nokkrum peningum og dýrgripum, en þrællinn svaraði: "Stórvezírinn kemur að vörmu spori; eyðið ekki tímanum, en flýið þegar í stað."

Spratt þá Bedreddín upp, batt á sig skó sína, brá skikkjulafinu fyrir andlit sér, til þess hann ekki skyldi þekkjast, og hljóp út úr húsi sínu, en vissi ekkert hvert flýja skyldi. Hafði hann mestan hug á, að sleppa burt úr borginni, og hljóp því út úr hliðinu, sem næst var; hljóp hann síðan viðstöðulaust, þangað til hann kom í hinn opinbera greftrunarstað, og staðnæmdist þar, því hann ætlaði að vera um nóttina í greftrunarhúsi föður síns.

Var það mikið hús með kúptum stöpli; hafði Núreddín Alí látið gera það meðan hann var á lífi. Þar mætti Bedreddín Gyðingi einum, sem var ríkur víxlari og kaupmaður; stóð Gyðingurinn þá við, og heilsaði honum með mikilli virðingu, því þeir þekktust."


117. nótt

"Gyðingurinn, - hann hét Ísak - kyssti á hönd Bedreddíns Hassans og mælti: "Herra! má ég spyrja, því eruð þér hér svo einmana, og eins og utan við yður? Liggur nokkuð illa á yður?"

"Svo er að vísu," mælti Bedreddín Hassan; "ég sofnaði áðan og dreymdi mig föður minn; var hann þá ógurlegur undir brún að sjá, og horfði til mín, eins og með reiðisvip. Hrökk ég upp af svefninum, og flýtti mér hingað, til að biðjast fyrir á gröf hans."

"Herra!" sagði Gyðingurinn (því hann gat ekki grunað, hvers vegna Bedreddín Hassan hafði farið úr borginni), "ég vissi til, að stórvezírinn sálugi, faðir yðar og herra minn, hásællar minningar, hafði látið ferma mörg skip með vörum, og eru þau enn ekki komin að landi; þér eruð nú eigandi þeirra, og því ætla ég að biðja yður að láta mig ganga fyrir öðrum, þegar þér farið að selja. Ég get borgað alla skipsfarma yðar út í hönd, og get ég byrjað kaupin á því, að fá yður þúsund sekkínur, ef þér viljið láta mig fá farm hins fyrsta skips, er með heilu og höldnu kemur hér á höfn. Ég hef peningana hjá mér, og skal borga yður þá fyrirfram."

Að svo mæltu vatt hann fram sjóði miklum og innsigluðum, sem hann hafði borið undir hendinni innanklæða; sýndi hann Bedreddín Hassan sjóðinn, og þótti honum þá, sem þetta væri hjálp af himnum send, og þáði hana feginshendi.

"Herra!" mælti Gyðingurinn, "þér látið mig þá fá farm hins fyrsta af skipum yðar, sem kemur hér á höfn, fyrir þúsund sekkínur?"

Því játaði Bedreddín og mælti: "Þú skalt fá hann fyrir þúsund sekkínur."

Því næst fékk Gyðingurinn honum sjóðinn með þúsund sekkínum í, og bauðst til að telja. En Bedreddín Hassan sagði að hann þyrfti þess ekki, og hefði hann fullkomið traust á ráðvendni hans.

"Ef svo er," segir Gyðingurinn, "gerið þá svo vel, að gefa mér skriflega kvittun fyrir kaupskap okkar."

Tók hann þá óðara upp blekbyttu; er hann bar í belti sínu, og upp úr veski sínu penna og pappírsmiða; hélt hann á byttunni, meðan Bedreddín Hassan skrifaði skírteinið. Því næst fékk Bedreddín Gyðingnum miðann, en hann lét hann óðara í veski sitt; kvöddust þeir þá, og fór Gyðingurinn leiðar sinnar heim í borgina.

En Bedreddín Hassan gekk til grafar föður síns, fleygði sér þar niður á grúfu og harmaði forlög sín tárfellandi. "Ó, mig auman," mælti hann, "hvað á að verða af mér? Hvar,get ég leitað hælis fyrir hinum óréttvísa konungi, sem ofsækir mig? Nægði mér ekki söknuðurinn og harmurinn eftir föður minn? þurfti þetta að bætast við?"

Þannig lá hann lengi, en loksins reis hann upp og hallaði höfðinu upp við legstein föður síns og mælti: "Síðan þú ert vikinn mér af sjónum, eru hús þín tóm, en veröldin þykir mér sem eyðimörk; fjær og nær syrtir að fyrir augum mínum. Betur væri, að fjaðrirnar hefðu verið slitnar úr vængjum hrafnsins, sem sagði þig feigan, og að ekkert hreiður hefði vermt hann; en nú mun hin dimma nótt hylja okkur báða, og við munum báðir hvíla í hinu sama húsi."

Þannig sat hann harmandi og kveinandi, þangað til svefninn sótti á hann; hné þá höfuð hans út af, og sofnaði hann flatur á jörðinni.

Þegar hann nú lá þarna sofandi, fór andi nokkur á kreik, sem vanur var að hafast við í greftrunarstað þessum um daga; kom hann auga á hinn unga mann, sem lá hjá gröf Núreddíns Alís. Fór hann þangað inn, og varð frá sér numinn af hans himnesku fegurð.


118. nótt

En er andinn hafði horft vandlega á Bedreddín Hassan, sagði hann við sjálfan sig: "Ef ráða má af yfirbragði veru þessarar, þá hlýtur hún að vera engill hinnar jarðnesku paradísar, sem guð hefur sent til þess að allur heimur skyldi upptendrast af elsku."

Því næst flaug hann í loft upp, og vildi þá svo til, að hann mætti álfkonu nokkurri. Þegar þau höfðu heilsazt, mælti andinn: "Viltu ekki líða með mér niður í grafreitinn, þar sem ég er vanur að dvelja? Ég skal sýna þér þar undur allrar fegurðar, og mun þér ekki finnast minna til koma en mér."

Álfkonan tók því feginsamlega, og í sama vetfangi voru þau horfin þangað; sýndi þá andinn henni Bedreddín, svo mælandi: "Hefurðu nokkurntíma séð fríðari eða gjörvulegri mann en þenna?"

Álfkonan virti Bedreddín vandlega fyrir sér og svaraði: "Sannlega er hann fríður, en það sá ég annað í Kairó, sem er jafnmikið furðuverk fyrir fríðleiks sakir; skal ég skýra þér frá því, ef þú vilt hlýða á."

Andinn kvaðst fús til þess.

"Þá skaltu vita," mælti álfkonan, "svo að ég segi þér söguna frá upphafi, að vezír Egiptasoldáns, Sjemseddín Móhammed, á tvítuga dóttur, sem er hin fríðasta mær og bezt að öllum kostum búin; veit ég enga slíka. Hafði soldán heyrt, hvílíkt orð fór af fegurð hennar, og gerði hann fyrir skömmu síðan boð eftir föður hennar og sagði við hann:

"Ég hef heyrt, að þú eigir gjafvaxta dóttur; viltu gifta mér hana?"

Þetta hjúskaparboð kom heldur en ekki flatt upp á vezírinn, en allt fyrir það lét hann sér ekki glepjast sjónir af upphefðinni, tók hann því ekki þessum kosti, sem flestir mundu hafa gert í hans sporum, heldur svaraði hann soldáni þannig:

"Herra! ég er þeirrar sæmdar ómaklegur, sem þér ætlið mér, og bið ég yður auðmjúklegast, að taka ekki illa upp, þó ég standi í gegn vilja yðar. Þér vitið, að ég átti bróður, sem hét Núreddín Alí, og hlaut hann þá virðingu, að vera vezír yðar, eins og ég. Okkur lenti saman í deilur, og varð það til þess, að hann hvarf skyndilega, og hef ég ekki síðan frétt til hans, þangað til ég heyrði fyrir nokkrum dögum, að hann væri dáinn í Balsora, og hefði hann verið stórvezír soldáns þar. Hann hefur látið son eftir sig, og með því við höfðum heitið hvor öðrum að láta börn okkar eigast, ef nokkur yrðu, þá veit ég, að hann hefur haft ráðahag þenna í huga allt fram í andlátið. Vildi ég fyrir þá sök binda enda á heit mitt, og bið ég yður að leyfa mér það."


119. nótt

Soldán Egiptalands reiddist hinni skorinorðu undanfærslu vezírsins, og sagði í ofsalegri bræði, því hann gat ekki stillt skap sitt: "Launarðu svo góðsemi mína, þar sem ég vil lítillækka mig til tengda við þig? En þú skalt hitta sjálfan þig fyrir, að þú tekur annan fram yfir mig, og þess strengi ég heit, að dóttir þín skal eiga hinn argasta og ljótasta af öllum þrælum mínum, og engan annan."

Lét hann þá stórvezírinn óðara frá sér fara, og gekk hann hryggur á burt.

Í dag hefur soldán látið einn af hestamönnum sínum koma; hefur hann kryppu, bæði á baki og brjósti og er fjarska afskræmislegur; soldán hefur skipað Sjemseddín Móhammed að gefa til samþykki sitt, að dóttir hans giftist þrælnum, og hefur hann látið semja kaupmálann í sinni eigin nærveru, og er nú allt tilbúið til brúðkaups þessa, og á þessari stundu standa allir þrælar hinna egipzku hirðmanna með brennandi kyndla við dyrnar á baðhúsi einu, sem krypplingurinn er í; eiga þeir að fylgja honum til brúðurinnar, sem nú er komin í skartið.

Þegar ég fór frá Kairó, ætluðu konurnar að leiða hana í brúðarbúningnum inn í salinn, þar sem hún á að taka á móti krypplingnum; þar situr hún nú og bíður hans. Ég hef séð hana, og skal ég ábyrgjast þér, að enginn getur annað en dáðst að henni."

"Hvað, sem þú segir," anzaði andinn, "get ég ekki ímyndað mér, að þessi mær sé fríðari en unglingurinn."

"Ég mótmæli því ekki," mælti álfkonan, "og játa ég, að hann er boðlegur hinni yndislegu brúður krypplingsins. Það væri því okkur samboðið verk, að koma í veg fyrir óréttvísi Egiptasoldáns, og lauma þessum unga manni í stað þrælsins." "Þú segir satt," anzaði andinn, "og fellur mér ráð þitt prýðilega í geð. Við skulum ónýta hefnd Egiptasoldáns, hugga hrelldan föður, og gera dóttur hans eins sæla og hún nú hyggur sig vansæla. Skal ég ekkert til spara, að þessu áformi megi framgengt verða, og geng ég að því vísu, að þú munir gera allt, sem í þínu valdi stendur. Ég skal taka að mér að flytja hann til Kairó, svo að hann ekki vakni; skalt þú þá koma honum þaðan burt, ef fyrirætlun okkar heppnast."

Þegar nú andinn og álfkonan höfðu talað sig nánar saman um þetta, tók hann Bedreddín Hassan mjúklega upp, þaut með hann, sem kólfi væri skotið, gegnum loftið, og lagði hann niður hjá dyrum opinberrar byggingar, allskammt frá baðhúsinu, þaðan er krypplingsins var von á hverri stundinni, ásamt þrælum þeim, er þjónuðu honum.

Í þessu vetfangi vaknaði Bedreddín Hassan, og varð honum hverft við, þegar hann sá, að hann var allt í einu kominn mitt í ókunnuga borg. Var að honum komið að spyrja, hvar hann væri, en andinn klappaði á öxl honum og réði honum til að þegja.

Síðan fékk hann honum kyndil og mælti: "Farðu inn í hópinn, sem stendur við dyrnar á baðhúsinu þarna; skaltu fylgjast með honum inn í salinn, þar sem núna á að halda brúðkaup nokkurt. Brúðguminn er krypplingur, og muntu fljótt þekkja hann úr, skaltu ganga til hægri hliðar honum og grípa niður í sjóð þinn og gefa sönglistarmönnum, dansmönnum og dansmeyjum fé. En þegar þú kemur inn í salinn, skaltu líka sýna ambáttum brúðurinnar örlæti þitt, og taka handfylli þína af sekkínum í hvert skipti, sem þú grípur niður í sjóðinn, og gefa óspart. Gerðu nú óhræddur sem ég hef fyrir þig lagt; hræðstu ekkert, undrastu ekkert og treystu hinum æðra innblæstri."

Þegar nú Bedreddín Hassan hafði fengið svo skýra vísbendingu, hvernig hann skyldi að fara, gekk hann til dyra baðhússins, og kveikti á kyndli sínum hjá einum af þrælunum. Síðan skauzt hann inn í mannþröngina, eins og hann væri áhangandi einhverjum höfðingja í Kairó, og fór svo með þrælunum, er fylgdu krypplingnum, sem nú var kominn úr baðinu og stíginn á bak einum af hestum soldáns....


120. nótt

Bedreddín Hassan gekk með sönglistarmönnum og dansmeyjum, er gengu á undan krypplingnum, og gaf þeim öðru hverju handfylli sína af sekkínum. En af því að örlætið fór honum svo vel, sakir látprýði hans og kurteisi, varð öllum, sem nokkuð fengu, starsýnt á hann, og fannst þeim svo mikið um fegurð hans, að þeir gátu ekki haft augun af honum. Staðnæmdist nú allur hópurinn fyrir utan hús vezírsins, Sjemseddíns Móhammeðs, sem sízt kom til hugar, að bróðursonur sinn væri svo nálægt sér.

Nú varð fyrir reglu sakir öllum þrælunum og Bedreddín Hassan vísað út, og máttu þeir ekki inn ganga; en sönglistarmennirnir, sem enginn amaðist við, kváðust ekki vilja koma inn, nema Bedreddín Hassan mætti koma með þeim. "Hann er ekki í þræla tölu," sögðu þeir, "og þarf ekki annað en líta á hann, til þess að sjá það. Er hann að líkindum ungur útlendingur, og mun honum vera forvitni á að sjá brúðkaupssiðu þá, er hér tíðkast."

Tóku þeir hann síðan með sér og fóru inn með hann, þó dyraverðir bönnuðu; tóku þeir af honum kyndilinn, og fengu einhverjum öðrum, sem fyrst varð fyrir. En er þeir voru komnir inn í salinn, settu þeir hann til hægri handar krypplingnum, sem sat hjá dóttur vezírsins í dýrðlega skreyttu öndvegi, með öndvegishimni yfir. Konur emíra, vezíra og gjaldkera soldáns, hirðmeyjarnar og hinar tignustu konur í borginni, sátu til beggja hliða í lægri sætum, eftir virðingu sinni; voru þær allar svo skrautbúnar, að yndi var á að horfa. Hélt hver þeirra á logandi ljósi, og er Bedreddín kom inn, varð öllum litið á hann, og dáðust þær að vaxtarlagi hans, limaburði og andlitsfegurð; gat engri leiðst að horfa á hann.

En er hann var setztur niður, var engin sú, er ekki stæði upp og færði sig nær, til þess að virða hann betur fyrir sér, og var ekki trútt um að hjartað berðist tíðara, er þær settust niður. Kom illur kurr í alla, sem viðstaddir voru, af hinum fjarskalega mismun, sem var á honum og hestaþrælnum, hinum andstyggilega krypplingi, og kallaði kvenfólkið hátt:

"Fallegi maðurinn ungi skal eiga brúðurina, en ekki krypplingsófétið."

Og í tilbót beiddi það soldáni óbæna fyrir það, að hann neytti ofurveldis síns, til þess að tengja saman fegurð og afskræmisskap. En yfir krypplingnum jusu þær slíkum skömmum, að hann kiknaði allur við og sneyptist svo, að allir sem við voru höfðu mestu skemmtun af; tóku skútyrðin hátt yfir sönginn og hljóðfærasláttinn, sem öðru hverju var byrjað á, en varð að hætta aftur.

Loksins gátu þó sönglistarmenn komizt að, og gengu nú fram konur þær, er búa skyldu brúðurina; hafði hún þegar verið þvegin í ilmvatni og angaði af smyrslum. Klæði hennar ilmuðu af dýrasta alóe og ambra, desdufti var stráð yfir hár hennar, sem meyjar höfðu fléttað; var það prýtt djásni, er sæma mátti keisaradrottningu. Á klæði hennar voru glituð með gullsaumi allskonar blóm, fuglar og dýr, voru augu og trjónur dýranna gerð úr gimsteinum, en á fótunum hafði hún skó, sem sýndust vera úr smaragði og roðasteinum. Gimsteinamen hennar var svo skært, að augun þoldu varla að horfa á það, en ásjóna hennar skein skærar en birta vaxljósanna, er lýstu frammi fyrir henni.


121. nótt

En svo skrautbúin, sem brúðurin var, hafði hún samt sjö sinnum fataskipti meðan á hljóðfæraslættinum stóð, og varð ekki sagt, að einn klæðnaðurinn væri fegurri en annar. Í hvert skipti sem hún var komin í nýjan búnað, reis hún upp úr sæti sínu og gekk með fylgikonum sínum fram hjá krypplingnum, og virti hann ekki viðlits, en frammi fyrir Bedreddín Hassan nam hún staðar, til þess að sýna sig honum í hvert skipti er hún breytti búning.

Sveikst hann ekki um að hlýða ráði því, er andinn hafði gefið honum, að grípa niður í sjóðinn og ausa út sekkínum á meðal fylgikvenna brúðurinnar. Hann snaraði líka nokkrum í sönglistarmenn og dansmenn, og var gaman að sjá, hversu þeir hlupu, hver um annan þveran til að taka upp peningana. Tjáðu þeir honum þakklæti sitt og létu í ljós með bendingum, að þeir vildu heldur að hann eignaðist brúðurina en krypplingurinn. Eins gerði kvenfólkið og sagði það upp í opið geðið á krypplingnum; dáraði það hann á allar lundir með hvers konar ertingum og glettni.

En er brúðurin hafði haft svo oft fataskipti, sem siður var til, hætti hljóðfæraslátturinn og söngurinn, og gengu söngmenn burt, en gáfu Bedreddín Hassan í skyn, að hann skyldi vera kyrr. Sama létu konurnar hann skilja, sem ekki áttu þar heima, og nú gengu burt.

Fór nú brúðurin inn í herbergi eitt, og fylgdu henni þjónustumeyjar hennar, sem áttu að afklæða hana; var nú enginn eftir í salnum nema krypplingurinn, Bedreddín Hassan og nokkrir þjónar.

Var krypplingurinn sárreiður Bedreddín, er stóð honum svo mjög í ljósi; gaut hann því hornauga til hans og mælti: "Eftir hverju ertu að bíða? Því fer þú ekki með hinum?"

Bedreddín gat ekkert borið fyrir, hvers vegna hann væri þar, og gekk því út í ráðaleysi, en andinn og álfkonan sneru honum aftur í framhúsinu.

"Hvert ætlarðu?" mælti andinn, "vertu kyrr; krypplingurinn er farinn út úr salnum, hann þurfti nauðsynlega að bregða sér út. Snú þú aftur og far inn í brúðarherbergið. Þegar þið eruð orðin tvö ein, skaltu segja henni, hvergi feilinn, að þú sért brúðguminn; hafi soldán bara ætlað að henda gaman að krypplingnum, en þú hafir látið færa þessum hlægilega brúðguma steikarbita á diski út í hesthús. Skaltu telja og tjá fyrir henni á allar lundir, og mun slíkum manni sem þér ekki veita það örðugt, en hún mun verða frá sér numin, þegar hún sér, að hún hefur verið svo ánægjulega á tálar dregin. En við skulum á meðan búa svo um hnútana, að krypplingurinn skal ekki komast inn, eða glepja fyrir þér og konu þinni, því hún er þín kona en ekki hans."

Meðan andinn stappaði þannig stálinu í Bedreddín Hassan og kenndi honum ráðin, hafði krypplingurinn gengið út úr salnum. Andinn elti hann þangað sem hann fór, breytti sér í stóran svartan kött og tók að mjálma afskaplega.

Orgaði þá krypplingurinn framan í köttinn og skellti saman lófunum, til þess að fæla hann burt, en það var öðru nær en hann léti sér það að kenningu verða, því hann settist á afturfæturna, gneistaði með augunum, og tútnaði út, þangað til hann varð viðlíka stór og asnafolald. Þegar krypplingurinn sá það, ætlaði hann að hljóða upp yfir sig og biðja hjálpar, en varð svo lafhræddur, að hann gat engu hljóði upp komið, þó hann glennti upp ginið.

Til þess hann nú ekki skyldi koma til sjálfs sín aftur, brást andinn allt í einu í heljarstóran villiuxa, og öskraði í eyru honum með drynjandi bauli, svo að hinn varð hálfu skelkaðri en áður: "Óhræsis krypplingur!"

Datt þá hestaþrællinn til jarðar af hræðslu, vafði flíkum að höfði sér, svo að hið ógurlega dýr skyldi ekki sjá í andlit honum og svaraði skjálfandi: "Höfðingi uxanna, hvers krefjist þér af mér?"

Þá mælti andinn: "Bölvaður sértu fyrir fífldirfskuna, ef þú ætlar þér þá dul, að eiga unnustu mína."

Hestaþrællinn svaraði: "Æ, herra! fyrirgefið mér, því hafi mér yfirsézt, þá hefur mér ekki vísvitandi á orðið, því ég vissi ekki að konuefni mitt ætti villiuxa fyrir unnusta. En skipið mér hvað, sem þér viljið, og sver ég yður, að ég skal hlýða."

Þá tók andinn til máls og sagði: "Ef þú fer héðan, eða þegir ekki eins og steinn til sólaruppkomu, skal ég drepa þig; ef þú talar eitt orð, skal ég mölva hvert bein í höfði þínu. Síðan máttu ganga burt úr húsi þessu, en þú skalt fara fljótt, og ekki líta aftur fyrir þig, en ef þú ert svo djarfur, að koma hingað aftur, þá verður það þinn bani."

Síðan brást andinn í mannslíki, þreif um fætur krypplingsins, keyrði hann upp að veggnum, svo að hausinn vissi niður, og mælti: "Ef þú bærir á þér fyrir sólaruppkomu, eins og ég sagði, þá tek ég um fætur þér, og steinrota þig hérna upp við vegginn."

Meðan á þessu stóð, fór Bedreddín, hughreystur af áeggjan andans og álfkonunnar, aftur inn í salinn og þaðan í brúðarherbergið cg settist þar niður, og beið nú eftir, hvernig ævintýri sínu mundi ljúka.

Eftir góða stund kom brúðurin, leidd af hefðarkonu einni, sem staðnæmdist í dyrunum og hélt tilhlýðilega áminningarræðu til brúðgumans; gáði hún ekki að, hvort krypplingurinn eða annar væri þar fyrir, og gekk nú burt og lokaði dyrunum.

Varð brúðurin hissa, er hún sá Bedreddín Hassan sitja andspænis sér, í stað krypplingsins; heilsaði hann henni með mestu kurteisi og sagði henni nafn sitt.

Þá tók hún til orða og mælti: "Vinur, hvernig stendur á því, að þér eruð hér? Þér munuð vera kunningi mannsins míns?"

"Nei, blessaða brúður," anzaði Bedreddín, "ég er annarrar ættar en ótætis krypplingurinn."

"Þér gætið ekki að því, að þér talið illa um manninn minn," segir hún.

"Manninn yðar!" svaraði hann, "trúið þér því enn þá? Útrýmið slíkri vitleysu úr huga yðar: Slíkri gersemi sem þér eruð, verður ekki kastað fyrir hinn svívirðilegasta þrjót, heldur er mér ætluð þessi himneska sæla. Soldán ætlaði að henda gaman að þessu, og gerði því vezírnum, föður yðar, þenna grikk, en mig hefur hann í raun og veru kosið til að vera eiginmaður yðar. Þér munuð líka hafa tekið eftir, hvað öllu kvenfólkinu, sönglistarmönnum, dansmönnum og öllum gestunum var skemmt við þenna kýmileik. Nú er krypplingsskömmin úti í hesthúsinu sínu, og mun aldrei koma fyrir yðar augu framar."

Brúðurin, sem hafði verið föl eins og lík, þegar hún kom inn í herbergið, glaðnaði nú í yfirbragði, og brá hýrasta gleðisvip og meyjarlegum fegurðarblóma yfir ásjónu hennar, svo að Bedreddín varð alveg frá sér numinn.

"Þessi fögnuður kom mér óvænt," tók hún til máls, "ég var búin að einsetja mér, að una óláni mínu ævilangt, en nú er gleði mín og sæla því meiri, sem ég hef eignazt mann, sem er maklegur ástar minnar."

Að því mæltu fór hún úr hverri spjör og lagðist til hvíldar. Svo gerði og Bedreddín Hassan, sem nú var orðinn eigandi svo frábærrar fegurðar og yndis; hann lagði klæði sín á stól ofan á sjóðinn, sem Gyðingurinn hafði fengið honum fullan af sekkínum; var hann troðfullur enn, svo mikið, sem hann hafði tekið úr honum; tók hann af sér vefjarhöttinn og setti upp nátthúfu, sem legið hafði þar til taks handa krypplingnum; því næst fór hann upp í rúmið, í bláum silkinærbuxum girtum gullbelti.


122. nótt

Þegar brúðhjónin voru sofnuð, sagði andinn, sem hafði horfið aftur til álfkonunnar, að nú væri tími til kominn að ljúka við það verk, er þau hefðu svo fagurlega byrjað og allt til þessa heppilega fram komið.

"Við skulum ekki láta okkur daga uppi," sagði hann, "far því og nem unglinginn burt, en varastu að vekja hann."

Í sama vetfangi hvarf álfkonan þangað er hjónin lágu sofandi; flaug hún þaðan með Bedreddín Hassan, eins og hann var á sig kominn, í skyrtu og nærbuxum. Þusti hún óumræðilega fljótt með hann til hliðanna á borginni Damaskus í Sýrlandi; hittist svo á, að þau komu þangað um sólaruppkomu í það mund, sem allur borgarlýður var kallaður til bænagjörðar í musterunum. Lagði hún Bedreddín mjúkt niður á jörðina, rétt við hliðið, og skildi svo við hann.

Nú var borgarhliðunum upplokið, og ruddist út úr borginni fjöldi manna; féllu þeir í stafi, er þeir sáu Bedreddín Hassan liggjandi á jörðinni í tómri skyrtu og nærbuxum.

Þá sagði einn: "Hann hefur orðið að hlaupa í slíku flaustri frá unnustu sinni, að hann hefur ekki einu sinni gefið sér tíma til að klæða sig;" annar sagði: "Ekki er gaman að; hann mun hafa skálað sig í nótt með vinum sínum, hefur orðið hreifur og þurft að bregða sér út, en í stað þess að fara inn aftur, hefur hann reikað hingað og sofnað hér út af."

Gat þar sinn upp á hverju, en enginn átti kollgátuna, sem nærri má geta. Í sama bili andaði hæg vindgola og brá skyrtu Bedreddíns til hliðar; sá þá á brjóst hans, sem var skínandi bjart eins og snjór, og féllu allir í stafi, er það sáu, og urðu svo hátalaðir fyrir undrunar sakir, að Bedreddín vaknaði.

Brá honum ekki síður við en hinum, er hann sá, að hann var kominn að hliðum borgar, sem hann aldrei hafði komið í, og umkringdur af mesta manngrúa, sem á hann starði.

"Góðir menn," tók hann til máls, "fyrir alla muni segið mér, hvar ég er, og hvað þið viljið mér."

Þá svaraði honum einn: "Ungi maður, borgarhliðunum var lokið upp í þessu bili, og er vér gengum út, sáum vér yður liggjandi á jörðinni eins og þér eruð nú til reika, og staðnæmdumst vér til að horfa á yður. Hafið þér verið hér í nótt, eða vitið þér, að þér liggið úti fyrir einu af portum Damaskusborgar?"

"Damaskusborgar!" anzaði Bedreddín, "þið gerið gabb að mér; þegar ég sofnaði, var ég í Kairó."

Við þessi orð hrærðust sumir til meðaumkvunar og sögðu hryggilegt vera, að svo fríður unglingur skyldi vera orðinn brjálaður, og gengu þeir burt.

Gamalmenni nokkurt sagði við hann: "Sonur, þér skjátlast, úr því þú ert hér árdegis, hvernig gaztu þá verið í Kairó í gærkvöldi? Það nær engri átt."

"Og samt er það hverju orði sannara," anzaði Bedreddín, "og sver ég ykkur, að ég var allan daginn í gær í Balsora."

Óðar en hann hafði sagt þetta, ráku allir upp skellihlátur og hrópuðu: "Hann er bjáni, hann er bjáni."

Kenndu fáeinir í brjósti um hann vegna æsku hans, og sagði einhver: "Þér eruð genginn af vitinu, hugsið eftir því, sem þér segið. Hvernig getur það átt sér stað, að sami maðurinn sé um daginn í Balsora, um nóttina í Kairó, og næsta morgun í Damaskus? Þér eruð víst ekki almennilega vaknaður, núið stýrurnar úr augum yðar."

"Það er þó áreiðanlega satt," mælti Bedreddín Hassan, "og í gærkvöldi kvongaðist ég í Kairó."

Þeir, sem áður höfðu hlegið, veltust nú um og ætluðu að springa af hlátri, en sá, sem síðast hafði ávarpað hann, mælti: "Komið til sjálfs yðar, þetta hefur borið fyrir yður í svefni, og enn þá er yður að dreyma."

En Bedreddín stóð á sínu máli fastara en fótunum og sagði: "Ég veit, hvað ég fer með; segið mér, hvernig er það mögulegt, að ég kæmi til Kairó í draumi, því ég er fyllilega sannfærður um, að ég var þar í raun og veru; var kona mín leidd fyrir mig sjö sinnum, í hvert sinn í nýjum búningi, og sá ég hvimleiðan kryppling, sem átti að eiga hana. Segið mér líka, hvað orðið er af fötum mínum, og sjóðnum mínum, sem ég átti fullan af sekkínum í Kairó."

Svo sem hann sór og sárt við lagði, að hann segði satt, hlógu allir að honum, sem heyrðu, og varð hann svo ringlaður, að hann vissi ekki sjálfur, hverju trúa skyldi um það, sem honum hafði viljað til....


123. nótt

Þegar Bedreddín Hassan hafði margsvarið til ónýtis, að hann hermdi satt og rétt frá öllu, stóð hann upp og fór inn í borgina raunamæddur, og elti þá mannfjöldinn hann æpandi: "Bjáni, bjáni!"

Litu margir út um glugga, er þeir heyrðu háreystið, en sumir gengu fram í dyr og slógust með í hópinn og kölluðu: "Bjáni, bjáni!" eins og hinir, þó þeir alls ekki vissu, hvað um var að vera.

Í vandræðum þessum vildi svo til, að Bedreddín Hassan gekk fram hjá húsi bakara eins, sem var að ljúka upp búð sinni; gekk hann þá þar inn, til þess að komast undan smánaryrðum skrílsins. Bakari þessi hafði áður verið fyrirliði ræningjaflokks, sem rændi kaupmenn; hafði hann síðan tekið sér bólfestu í Damaskus og engum mein gert, en samt hræddust hann allir, sem þekktu hann. Þurfti hann því ekki annað en að hvessa augun á skríl þann, er elti Bedreddín, til þess að hann tvístraðist.

En þegar þeir voru orðnir tveir einir, spurði bakarinn hann, hver hann væri, og hvernig stæði á ferð hans til Damaskus. Sagði Bedreddín Hassan honum frá ætt sinni, dauða vezírsins, föður síns, öllum atvikum og tildrögum, hvers vegna hann hefði flúið úr Balsora, og frá því, er hann sofnaði í greftrunarhúsi föður síns og vaknaði í Kairó og kvongaðist þar. Kvaðst hann undrast mjög, að nú væri hann kominn til Damaskus, og ekkert skilja í þessum kynjafullu atburðum.

Þá mælti bakarinn: "Saga yðar er einhver hin kynjalegasta, en ef þér viljið fara að mínum ráðum, skuluð þér engum manni segja frá því, er þér nú hafið trúað mér fyrir, heldur þreyja með þolinmæði, þangað til guð lætur andstreymi það enda taka, sem yður hefur borið að hendi. Yður er velkomið að vera hjá mér, þangað til betra tekur við, og með því ég er barnlaus, skal ég fúslega taka mér yður í sonar stað, ef þér viljið. Þegar það er gert, getið þér frjálslega gengið um borgina, og mun þá skríllinn ekki slást upp á yður."

Þó að ættleiðing þessi væri engin sérleg virðing fyrir stórvezírs son, tók þó Bedreddín Hassan þessum kosti, því hann sá ekkert betra ráð í vandræðum sínum. Gaf bakarinn honum nýjan klæðnað, gerði boð eftir vitnum og lýsti því yfir í viðurvist skjalaritara, að hann kannaðist við hinn unga mann eins og son sinn. Eftir þetta var Bedreddín Hassan hjá honum og var kallaður Hassan; lærði hann brauðgjörð af bakaranum.

Meðan þetta gerðist í Damaskus, vaknaði dóttir Sjemseddíns Móhammeðs í Kairó, og er hún sá, að Bedreddín Hassan lá ekki við síðu hennar, hélt hún, að hann hefði farið á fætur, og ekki viljað vekja sig, og mundi fljótt koma aftur.

Meðan hún beið eftir honum, drap vezírinn, faðir hennar, á dyr brúðarherbergisins; var hann yfirkominn af harmi út af svívirðingu þeirri, er hann hugði soldán hafa gert sér, og kom hann því til þess að gráta með dóttur sinni yfir óláni hennar. Hann kallaði á hana með nafni og þekkti hún málróm hans; hljóp hún fljótt til dyra og lauk upp, kyssti á hönd hans, og fagnaði honum með slíkri ánægju og glaðværð, að hann varð öldungis forviða, því hann hafði búizt við að koma að henni fljótandi í tárum og eins sorgbitinni og hann var sjálfur.

"Veslings barn!" sagði hann, "kemurðu með svo glöðu yfirbragði, þú, sem hefur lagt svo mikið í sölurnar?"


124. nótt

"Þegar brúðurin heyrði, að faðir hennar ávítaði hana fyrir gleði þá, er hún lét í ljósi, mælti hún: "Veit mér eigi óréttvísar átölur; ég er ekki gift krypplingnum, sem mig hryllti meira við en dauða mínum. Allir lögðust á hann og stríddu honum, svo að hann sá ekki annað vænna en að hafa sig á burt, og rýma sæti fyrir fríðum unglingi, sem er hinn rétti brúðgumi."

"Hvað ertu nú að þvaðra?" greip Sjemseddín fram í, "var ekki krypplingurinn hjá þér í nótt?"

"Nei, herra!" svaraði hún, "hjá mér svaf í nótt unglingurinn með stóru augun og svörtu augabrúnirnar, og enginn annar en hann."

Þá gekk fram af vezírnum, er hann heyrði þetta, og sagði hann við dóttur sína í bræði: "Andstyggðin þín, ætlarðu að gera mig vitlausan með þvættingi þínum?"

Þá svaraði hún: "Faðir minn, ætlarðu að gera mig vitstola með tortryggni þinni?"

"Það var þá ósatt að krypplingurinn" - tók vezírinn aftur til orða, en dóttir hans greip fram í og mælti:

"Hættu þá einhverntíma að tala um bannsettan krypplinginn. Á ég þá alltaf að heyra talað um hann? Ég ítreka það ennþá einu sinni, faðir minn! Hann var ekki hjá mér í nótt, heldur eiginmaður minn, eins og ég sagði þér, og mun hann ekki vera langt í burtu."

Sjemseddín Móhammed fór út til að leita að honum, en fann ekki hann, heldur krypplinginn, sem alltaf stóð á höfði upp við vegginn, eins og andinn hafði skilið við hann.

"Hvað á þetta að þýða?" spurði Sjemseddín, "hver hefur farið svona með þig?"

Þegar krypplingurinn kannaðist við málróm vezírsins, svaraði hann: "Þar eruð þér komnir, sem ætluðum að gifta mér unnustu villiuxa og svívirðilegs anda? Ég skal ekki vera ginningarfífl yðar í annað sinn, þér skuluð ekki vera svo heimskur að ætla yður það."


125. nótt

Þegar Sjemseddín heyrði þetta, hélt hann að krypplingurinn væri genginn af vitinu og mælti: "Farðu héðan burt og gakktu á fótunum."

"Nei," sagði krypplingurinn, "ég er hræddur um það verði ekki af því, fyrr en um sólaruppkomu; þegar ég kom hingað í gærkvöldi, sá ég allt í einu svartan kött, sem stækkaði smámsaman þangað til hann varð á stærð við villiuxa; ég er ekki búinn að gleyma því, sem hann sagði við mig. Lofið mér því að vera hér í friði og farið til starfa yðar."

En vezírinn fór ekki að beiðni krypplingsins, heldur tók hann í fætur honum og neyddi hann til að standa upp; hljóp þá krypplingurinn burt, og þorði ekki að líta aftur fyrir sig; fór hann til hallar soldáns og lét leiða sig á hans fund; varð soldáni heldur en ekki skemmt að heyra hann segja frá ævintýri sínu.

Nú gekk enn meira yfir Sjemseddín Móhammed en fyrr, og skildi hann ekkert, hvernig á þessu stæði; fór hann til dóttur sinnar og beiddi hana að gera sér grein fyrir, hvernig þessu væri varið; kvaðst ekki vita hvað hann ætti að halda.

Hún sagðist ekki geta sagt honum annað en það, sem hún hefði sagt; "samt er þarna lítilræði," mælti hún, "sem maðurinn minn hefur skilið eftir á stólnum; hver veit nema það verði þér til eftiræsktrar útskýringar."

Fékk hún honum þá vefjarhött Bedreddíns, virti vezírinn hann vandlega fyrir sér og tók til máls: "Ég mundi ætla, að þetta væri höfuðbúnaður vezírs, ef ekki væri svo líkt höttum þeim, er tíðkast í Mússúl."

Þá sá hann að eitthvað var saumað undir fóðrið; spretti hann því frá og fann kver það, er Núreddín Alí hafði gefið Bedreddín Hassan, syni sínum, á deyjanda degi.

Sjemseddín Móhammed þekkti undir eins hönd Núreddíns Alís, bróður síns, og las hann fyrir sögn þessa: "Handa syni mínum Bedreddín Hassan."

Fékk nú dóttir hans honum líka sjóð þann, er hún hafði fundið undir klæðum Bedreddíns; var hann enn þá fullur af sekkínum, fyrir tilhlutun andans og álfkonunnar.

Á miða, sem festur var við sjóðinn, sá hann að skrifað var: "Þessar þúsund sekkínur á Ísak, Gyðingur," og hafði hann skrifað neðan undir, áður en hann seldi féð í hönd Bedreddíns Hassans:

"Borgað Bedreddín Hassan fyrir farm þess skips, sem fyrst kemur hingað á höfn, af skipum þeim, er faðir hans Núreddín Alí, hásællar minningar, var eigandi að."

Undir eins og vezírinn hafði lesið þetta, hné hann í ómegin.


126. nótt

Þegar vezírinn Sjemseddín Móhammed var raknaður við fyrir hjálp dóttur sinnar og þjónustukvenna þeirra, er hún hafði kallað á, þá tók hann þannig til máls:

"Dóttir mín, furðaðu þig ekki á því, sem þér hefur viljað til; tildrög atburða þessara eru svo undarleg, að þú munt varla trúa þeim. Sá, sem var hjá þér í nótt, er frændi þinn, sonur Núreddíns Alís, bróður míns. Hinar þúsund sekkínur, sem eru í sjóði hans, minna mig á þrætu eina, sem ég átti í við þenna ástkæra bróður minn, og er fé þetta vafalaust morgungjöf þín. Guði sé lof fyrir allt, en einkum fyrir þetta undursamlega ævintýri, sem vottar svo bersýnilega almætti hans."

Því næst horfði hann á skrift bróður síns, kyssti hvað eftir annað kverið tárfellandi, og mælti: "Því er mér ekki unnt að sjá Núreddín Alí sjálfan, eins og ég sé stafi þá, er hann hefur skrifað? Því gefst mér ekki kostur á að sættast við hann?"

Síðan las hann kverið vandlega og fann í því tilgreindan daginn, er bróðir hans kom til Balsora, enn fremur giftingardag hans og fæðingardag Bedreddíns Hassans, og furðaði hann sig á því, að dögum þessum bar saman við giftingardag hans og fæðingardag dóttur hans í Kairó.

Fagnaði hann nú af hjarta, er hann vissi, að bróðursonur hans var tengdasonur hans. Hann fór til soldáns með kverið og miðann, sem bundinn hafði verið við sjóðinn og sýndi honum; tók soldán hann fullkomlega í sátt, og fannst honum svo mikið um sögu þessa, að hann lét færa hana í letur, komandi öldum til fróðleiks.

Sjemseddín Móhammed gat samt ekki skilið, hvers vegna bróðursonur sinn hefði horfið, og bjóst hann við, að hann mundi koma á hverri stundinni. Þreyði hann óðfús að faðma hann að sér, og er sjö dagar voru liðnir, lét hann leita að honum í Kairó. En það kom fyrir ekki, og fékk það honum mikillar áhyggju.

Með því hann ekki vissi, hvernig fara mundi, samdi hann sjálfur og ritaði með eigin hendi lýsingu húss síns og skýrði ítarlega frá öllu, hvernig brúðkaupið hefði farið fram, hvernig öllu hafði verið háttað í salnum og herbergi dóttur sinnar. Vefjarhöttinn, sjóðinn og klæði Bedreddíns lét hann í hirzlu og læsti niður.


127. nótt

Nokkru eftir þetta kenndi dóttir vezírsins, Sjhemseddíns Móhammeðs, að hún var barnshafandi, og ól hún níu mánuðum síðar sveinbarn. Var því undir eins fengin barnfóstra, þjónustukonur og þrælar, og nafn gefið og kallað Agib (undrabarn).

Þegar Agib var sjö ára, sendi vezírinn hann í skóla til nafnfrægs kennara, í stað þess að láta hann læra í heimahúsum; voru tveir þrælar til að fylgja honum í skólann og heim úr skólanum á degi hverjum. Af því nú allir skólabræður Agibs voru af lægri stigum en hann, þá sýndu þeir honum mikla virðingu, og gerðu það að dæmi kennara síns, sem hylmdi yfir mörgu með honum, er hann ekki leið öðrum.

Þetta blinda eftirlæti varð ólán Agibs, og gerðist hann hrokafullur og ófyrirleitinn; bauð hann lagsbræðrum sínum allt, en þoldi þeim ekkert. Hann vildi hvarvetna skipa, og væri nokkur svo djarfur að standa í gegn boðum hans, þá skapraunaði hann honum með beiskyrðum, eða misþyrmdi. Fyrir þá sök lögðu allir skólabræður hans óvild á hann, og kvörtuðu loksins undan athæfi hans við kennarann.

Réði hann þeim í fyrstunni til að bera það með þolinmæði, en er hann sá, að það var ekki til annars en þess, að ósvífni Agibs fór því meir í vöxt, svo að hann átti sjálfur fullt í fangi með að ráða við hann, þá sagði hann einu sinni við lærisveina sína:

"Ég sé það, börnin góð, að Agib er óþolandi, og skal ég kenna ykkur ráð til að styggja hann svo tilfinnanlega, að hann mun ekki níðast á ykkur framar, og ef til vill ekki koma oftar í skólann. Þegar hann kemur á morgun, og þið farið að leika ykkur, skuluð þið allir þyrpast í kringum hann, og skal einn af ykkur segja: "Leikum okkur, sveinar, en hver, sem í leiknum vill vera, skal segja nafn sitt, föður síns og móður sinnar. Hver, sem ekki vill gera það, skal heita pútuson, og fær ekki að leika sér með okkur."

Kennarinn lét þá skilja, í hvílíkan bobba þeir kæmu Agib með þessu móti, og fóru þeir allir glaðir heim til sín og hrósuðu þegar ófengnum sigri.

Daginn eftir gerðu þeir allt, sem fyrir þá hafði verið lagt. Þeir slógu hring utan um Agib, og kallaði einn þeirra hátt og sagði: "Leikum okkur, sveinar, en hver, sem ekki segir sitt nafn, föður síns og móður sinnar, fær ekki að vera með í leiknum."

Féllust allir á þetta og Agib líka, og spurði nú sá, er upp á leiknum hafði stungið, hvern af öðrum eftir röð. Leystu allir úr spurningu hans nema Agib, sem svaraði:

"Ég heiti Agib, móðir mín heitir Fríða, og faðir minn heitir Sjemseddín Móhammed."

Þá kölluðu allir drengirnir í einu hljóði og sögðu: "Hann er ekki faðir þinn, heldur afi þinn."

"Fjandinn hafi ykkur þá!" svaraði Agib í reiði, dirfizt þið að mótmæla því, að Sjemseddín Móhammed sé faðir minn?"

Gerðist þá mesti hlátur og þverneitaði því hver í kapp við annan og sagði: "Þú fær ekki að leika þér með okkur, við skulum vara okkur á að koma nálægt þér."

Því næst hörfuðu a11ir frá honum með fyrirlitningu, stungu saman nefjum og hlógu, en Agib grét af skapraun.

Kennarinn, sem hafði falið sig og heyrt á allt, kom nú fram, gekk til Agibs og mælti: "Veizt þú ekki enn, að vezírinn, Sjemseddín Móhammed, er ekki faðir þinn? Hann er ekki nema afi þinn, faðir hennar Fríðu, móður þinnar. En nafn föður þíns erum vér eins ófróðir um og þú sjálfur; en svo mikið er víst, að soldán ætlaði að gifta móður þína hestaþræl einum, sem er krypplingur, og bar margt skringilegt til í brúðkaupinu. Það er vorkunn að þér sárni það, og áttu að læra af því, að vera ofstopaminni við lagsbræður þína en þú hefur verið hingað til."


128. nótt

Agib gramdist ákaflega spott og storkun skólabræðra hans, fór hann því sem fljótast úr skólanum og kom grátandi heim; gekk hann þá undir eins til Fríðu móður sinnar. Varð hún hrædd, er hún sá, hvað illa lá á honum og gekk fast á hann, hvað að honum gengi, en hann fékk engu svarað fyrir gráti og ekka, svo hafði skapraun þessi gengið nærri honum; loksins fékk hann samt skýrt frá skapraun þeirri, er olli harmi hans.

En er hann hafði gert það, sagði hann við móður sína: "Fyrir guðs sakir, móðir mín, segðu mér, hver er faðir minn?"

"Faðir þinn," svaraði hún, "er hann Sjemseddín Móhammed, sem daglega vefur þig í faðm sér."

"Þú segir mér ekki sannleikann," mælti Agib, "heldur er hann faðir þinn, en hvers son er ég?"

Þegar hann spurði að þessu, minntist Fríða brúðkaupsnæturinnar, sem hafði orðið undanfari svo langvinns skilnaðar; hrundu henni tár af augum af djúpum söknuði eftir svo fríðan og ástúðugan mann, sem Bedreddín var, og mælti hún fram vísur þessar:

Þá mitt hjartað þér var fest,
þig úr faðm ég missti,
horfinn er og hvergi sést
hann, sem brúði kyssti.

Afturkomu æsktri þú
einatt frestað lætur;
harmar drós til dauða trú
daga bæði og nætur.

Meðan þau Fríða og Agib sátu þarna grátandi, kom vezírinn Sjemseddín Móhammed að, og spurði, hvað að þeim gengi.

Sagði hún honum þá frá háðung þeirri, er Agib hafði orðið fyrir í skólanum. Hryggðist vezírinn af því og þóttist af þessu skilja, að ósæmilega mundi talað um Fríðu dóttur sína; var honum mesta raun að því.

Fór hann harmþrunginn á fund soldáns, fleygði sér niður fyrir fætur honum, og beiddist orlofs til að ferðast um austurlönd og sérstaklega til Balsora, til þess að leita upp Bedreddín Hassan bróðurson sinn, því sér væri óbærilegur harmur, að vita til þess, að sagt væri í borginni, að andi hefði samrekkt Fríðu, dóttur sinni.

Soldán samhryggðist vezírnum, féllst á fyrirætlun hans og veitti honum fararleyfi. Lét hann jafnvel skrifa opið bréf til allra konunga og höfðingja, þar sem líkur voru til, að Bedreddín mundi vera, og beiddi þá með hinum vinsamlegustu orðum, að leyfa vezírnum að hafa hann á burt með sér.

Sjemseddín Móhammed varð svo frá sér numinn af góðsemi soldáns, að hann kom engu orði upp, til að þakka honum svo sem skylt var; hann féll því þegjandi fram fyrir fætur hans og vottaði honum þakklátsemi sína með gleðitárum.

En að lokum bað hann soldáni allra heilla og kvaddi hann þá með sama, og jafnskjótt sem hann var kominn heim til sín, hugsaði hann ekki um annað en að búast til ferða. Varð hann svo fljótbúinn að hann lagði af stað fjórum dögum síðar með Fríðu dóttur sinni og Agib syni hennar.


129. nótt

Sjemseddín Móhammed fór þá leið, er til Damaskus liggur, og ferðaðist svo nítján daga samfleytt, að hann aldrei áði. En á tuttugasta deginum lét hann staðnæmast á fögru engi, skammt frá hliðum Damaskusborgar, og setti tjöld sín á bakka fljóts nokkurs, er rennur gegnum borgina; eykur það fljót mjög á prýði héraðsins kringum hana, og hafa mörg skáld um það kveðið.

Ætlaði vezírinn að standa þar við í tvo daga og leggja aftur af stað á þriðja degi; leyfði hann því öllu fylgdarliði sínu að ganga inn í borgina, og notuðu sér allir leyfi þetta. Sumir fóru fyrir forvitni sakir til að sjá borg þá, er þeir höfðu heyrt svo mikið af látið, en aðrir fóru til þess að selja egipzkan varning, er þeir höfðu meðferðis, eða til þess að kaupa þarlendar vörur.

Vildi Fríða líka að Agib sonur sinn hefði skemmtun af að sjást um í borginni, og skipaði því svörtum geldingi, sem var nokkurskonar siðameistari hans, að fylgja honum og hafa gætur á, að honum vildi ekkert slys til.

Fór nú Agib skrautbúinn af stað með geldingnum, og sem þeir voru komnir inn í borgina, varð öllum starsýnt á Agib, sem var eins fagur og dagurinn er bjartur. Komu menn út úr húsum sínum til þess að sjá hann nálægt, en sumir gægðust út um glugga; þeir, sem mættu honum á strætunum, létu sér ekki nægja að standa við og horfa á hann, heldur veittu þeir honum eftirför, svo þeir hefðu ánægjuna því lengur af að horfa á hann. En hver maður, sem sá hann, beiddi þúsundfaldrar blessunar foreldrum þeim, sem ættu svo fagurt barn.

Nú hittist svo á, að geldingurinn gekk með Agib fram hjá sölubúð bakarans, sem hafði ættleitt Bedreddín; nú var bakarinn dáinn og hafði Bedreddín erft eftir hann búðina og allt það, er hann átti. Var nú Bedreddín orðinn húsbóndi, og var svo góður bakari, að hann var orðlagður um alla borgina. Þegar hann sá svo margt fólk fyrir utan dyr sínar, sem var að horfa á Agib og svarta geldinginn, þá fór hann líka að virða þá fyrir sér."

Þá þagnaði Sjerasade, því morgunbjarminn var á lofti, og stóð Sjarjar upp, þótt hann langaði mjög til að vita, hvað þá hefði orðið, er þeir Agib og Bedreddín fundust. Undir lok hinnar næstu nætur sagði Sjerasade honum framhald sögunnar á þessa leið:


130. nótt

"Bedreddín Hassan horfði einkum á Agib, og fékk ekki að því gert, að hann komst við, þó hann gæti ekki gert sér grein fyrir því. Hann varð ekki gagntekinn af hinni ljómandi fegurð drengsins, eins og lýðurinn, heldur var það annað, sem olli geðshræringu hans.

Hinum viðkvæma föður rann blóðið til skyldunnar, hann hætti við vinnu sína, gekk til Agibs og mælti með vinsemd og blíðu: "Kæri yngispiltur, mér lízt vel á yður; gerið svo vel að koma inn í búð mína, og neytið nokkurs af kræsikökum mínum, svo ég hafi þá unun á meðan að horfa á yður, sem mér leikur lyst til."

Um leið og hann mælti þetta, vöknaði honum um augu; viknaði þá sveinninn Agib og sagði við geldinginn: "Mér lízt vel á þenna mann, hann hefur líka talað svo blíðlega til mín, að ég verð að láta að beiðni hans. Við skulum fara inn til hans og borða dálítið af sætabrauðskökum."

"Það væri þokkalegt," svaraði þrællinn, "ef vezírssonur æti brauð í bakarabúð. Verið ekki svo einfaldir að halda, að ég lofi yður það."

Þá mælti Bedreddín Hassan við Agib: "Hörmulegt er það, að yður skuli vera fenginn slíkur leiðtogi, sem er svo harður við yður."

Sneri hann sér síðan að geldingnum og mælti enn fremur: "Kæri, meinið ekki unglingi þessum að láta að bæn minni; gerið mér ekki þá skapraun. Sýnið mér heldur þá virðingu, að koma inn með okkur og sannið með því málsháttinn: "Að oft er dyggð undir dökkum hárum." Það skuluð þér og vita, að ég veit ráð til að gera yður hvítan, svo svartur sem þér eruð."

Geldingurinn gat ekki að sér gert að hlæja að þessu, og spurði Bedreddín, í hverju leyndardómur þessi væri fólginn.

"Ég skal kenna yður hann seinna," anzaði Bedreddín og fór með vísu, sem kveðin var til lofs hinna svörtu geldinga; var í henni svo til orða tekið, að þeir væru konungum til sæmdar og öllum höfðingjum og stórmennum til verndar."

Gekkst geldingurinn fyrir hóli þessu, og lét nú eftir bakaranum; gengu þeir svo allir inn í búðina.

Varð þá Bedreddín sárglaður, að þessari ósk hans varð framgengt, tók aftur til vinnu sinnar og mælti: "Ég var áðan að búa til rjómatertur, og vil ég þið borðið þær ef ykkur líkar; veit ég, að þær eru mesta sælgæti, því móðir mín bakaði þær afbragðs góðar, en ég hef lært það af henni; enda kaupa því nær allir borgarbúar rjómatertur hjá mér."

Að svo mæltu tók hann rjómatertu út úr ofninum, stráði hana sykri og granatepliskornum, og setti fyrir Agib, og þótti honum kakan afbragðs ljúffeng; geldingnum gaf hann aðra, og smakkaðist honum ekki síður. En á meðan horfði Bedreddín Hassan vandlega á gesti sína og felldi tár af augum, því honum kom til hugar, að nú kynni hann að eiga eins fríðan son og Agib var, með hinni yndislegu konu, sem hann var svo snögglega og hörmulega sviptur.

Hann spurði Agib, hvernig stæði á komu hans til Damaskus, en geldingurinn gaf sveininum engan tíma til að svara því, heldur rak eftir honum, að koma til afa síns, og fór hann burt með hann þaðan, jafnskjótt sem þeir höfðu snætt terturnar.

Bedreddín Hassan lét sér ekki nægja að horfa á eftir þeim, er þeir fóru, heldur læsti hann sölubúð sinni í snatri og gekk á eftir þeim.


131. nótt

Áður en þeir Agib og geldingurinn voru komnir að borgarhliðinu, náði Bedreddín þeim; þótti geldingnum þetta kynlegt og kallaði til hans reiðilega: "Þú ert furðu óskammfeilinn, hvað viltu?"

"Stillið yður, vinur!" mælti Bedreddín, "ég á erindi út úr borginni og þarf að annast ýmislegt."

En geldingurinn lét sér ekki lynda svar þetta og sagði við Agib: "Þetta á ég upp á yður; mig grunaði allténd, að ég mundi iðrast góðsemi minnar; það voruð þér, sem vilduð fara inn í búðina, og var fásinna, að láta það eftir yður."

Þá svaraði Agib: "Hann kann að eiga erindi út úr borginni; vegurinn er hverjum manni heimill."

Gengu þeir síðan leiðar sinnar þangað til þeir komu nálægt tjaldstað vezírsins; litu þeir þá við til þess að sjá, hvort Bedreddín væri á eftir þeim. En er Agib sá, að hann var í hælunum á þeim, brá honum svo við, að hann ýmist roðnaði eða bliknaði, eftir því sem honum deildist hugur.

Óttaðist hann að afi sinn, vezírinn, mundi komast að því, að hann hefði farið inn í bakarabúð, og etið þar, þreif hann því upp stóran stein og kastaði honum í Bedreddín; kom steinninn í ennið, svo að blóð stökk um andlit honum. Því næst hljóp Agib þaðan, sem fætur toguðu, og faldi sig undir tjaldi einu með geldingnum; sendi geldingurinn Bedreddín tóninn og sagði, að hann mætti ekki kvarta undan meiðslunum, því þau væru sjálfskaparvíti.

Á leiðinni heim til borgarinnar leitaðist Bedreddín við að stöðva blóðrásina með skyrtu sinni; hugsaði hann þá með sér: Það var rangt af mér, að fara að heiman og hræða svo dreng þenna, og því að eins fór hann svona með mig, að hann hélt mér væri illt í hug. Síðan lét hann binda sárið heima, og huggaði sig í óláni sínu með þeirri hugsun, að fjöldi manna í heiminum væri ólánsamari en hann.


132. nótt

Bedreddín Hassan hélt áfram atvinnu sinni og var bakari í Damaskus eins og fyrri; fór föðurbróðir hans þaðan leiðar sinnar eftir þriggja daga dvöl og hélt til Emesa, þaðan til Hamasj og til Aleppó; þar dvaldi hann í tvo daga. Þaðan fór hann yfir Efrat til Mesopotamíu; kom hann við í borgunum Mardín, Mússúl, Sengíra, Díarbeker og mörgum öðrum; loksins náði hann til Balsora og beiddi þar leyfis að finna soldán að máli.

Veitti soldán það undir eins og hann vissi um tign Sjemseddíns Móhammeðs, tók vinsamlega á móti honum og spurði, hverra erinda hann væri kominn til Balsora.

En er hann heyrði, að vezír Egipta soldáns væri að leita að syni Núreddíns Alís, mælti hann: "Núreddín Alí er fyrir löngu dáinn, en um son hans veit ég það frekast, að hann hvarf skyndilega tveimur mánuðum eftir andlát föður síns og hef ég ekkert frétt af honum síðan, og hef ég þó látið vandlega leita að honum. En móðir hans, sem er dóttir eins af vezírum mínum, er enn á lífi."

Beiddi þá Sjemseddín Móhammed leyfis að sækja hana heim og hafa hana með sér til Egiptalands; var honum leyft það. Því næst lét hann undir eins vísa sér á hús hennar, og fór þangað með dóttur sína og dótturson, því hann langaði svo mjög að kynnast henni, að hann ekki hafði eirð á að bíða til næsta dags.

Ekkja Núreddíns Alís bjó í sama húsi, sem maður hennar hafði dáið í. Tafði Sjemseddín Móhammed sig ekki á því að skoða húsið, sem var mikilfenglega og skrautlega byggt og prýtt fögrum marmarasúlum; hann kyssti dyrnar og marmaratöflu eina, er nafn bróður hans var skrifað á með gullnu letri, og sagðist vilja finna mágkonu sína að máli.

Vísuðu þjónarnir honum inn í víðan garð, og stóð í honum miðjum hús með kúptum stöpli; hafði hin ástríka móðir látið gera það til minningar um Bedreddín Hassan, er hún ætlaði dauðan, og sat hún þar því nær ætíð, dag og nótt. Nú bar einnig svo til, að hún var þar stödd og harmaði son sinn, kom Sjemseddín að henni, yfirkominni af harmi, í því hún mælti fram vísu þessa:

Er þá fylkir fegurðar
falinn kumli lágu,
hann, sem augnayndi var
allra þeirra, er sáu?

Heilsaði hann henni þá og beiddi hana að fella niður harmatölur sínar og kveinstafi um stund; gerði hann uppskátt fyrir henni, að hann væri mágur hennar og sagði henni, í hverju skyni hann væri kominn til Balsora.


133. nótt

Vezírinn Sjemseddín Móhammed sagði mágkonu sinni frá öllu því, er gerzt hafði í brúðkaupi Fríðu, dóttur hans, í Kairó, og að hann hefði fundið kver í höfuðbúnaði Bedreddíns með eiginhandarriti bróður síns. Því næst sýndi hann henni Agib og móður hans og sagði henni, hver þau væru.

Ekkjan sat grafkyrr, eins og hún sinnti engum veraldlegum hlutum, en undir eins og hún heyrði af sögusögn mágs síns, að sonur hennar, er hún syrgði svo sárt, væri enn á lífi, reis hún á fætur og faðmaði að sér Fríðu og Agib með innilegri blíðu.

Sá hún, að hann hafði svip Bedreddíns og grét nú feginstárum; ætlaði hún aldrei að þreytast á að kyssa sveininn. En Agib lét blíðlega að ömmu sinni, og var hinn glaðasti; sagði þá Sjemseddín Móhammed mágkonu sinni, að nú skyldi hún láta af öllum gráti og harmi.

"Þú skalt", mælti hann, "búast til að fylgja okkur til Egiptalands; hefur soldán Egiptalands þegar samþykkt það, og vona ég að þú synjir okkur ekki þíns samþykkis. Munum við að líkindum finna son þinn, og fari svo, á vel við að færa í letur, til fróðleiks komandi kynslóðum, sögu hans, sögu þína, dóttur minnar og mína."

Ekkja Núreddíns Alís tók þessum kosti feginshugar og lét samstundis hafa allan viðbúnað til ferðarinnar. Beiddi Sjemseddín Móhammed aftur leyfis að tala við soldán og kveðja hann; fór hann af hans fundi, sæmdur hinni mestu virðingu, og voru honum fengnar meðferðis gjafir til Egiptasoldáns. Lagði hann þessu næst af stað heimleiðis þann veginn, er liggur um Damaskus.

Þegar hann var kominn nálægt borg þessari, lét hann setja tjöld sín fyrir utan það hlið, sem hann ætlaði í gegnum inn í borgina; kvaðst hann mundu standa þar við í þrjá daga, svo að föruneyti sitt gæti hvílt sig; ætlaði hann að kaupa þar gjafir handa Egiptalands soldáni.

Meðan hann var að kjósa úr hinum fegursta vefnaði, er kaupmenn komu með í tjald hans, beiddi Agib svarta geldinginn, siðameistara sinn, að fylgja sér um borgina. Kvaðst hann ætla að skoða það betur, er hann áður að eins hefði séð í flýti; sagði hann sér og vera hug á að vita, hvernig bakaranum liði, sem hann hefði kastað til steininum svo að kom í höfuðið.

Geldingurinn lét það fúslega eftir honum, og er Fríða hafði gefið þeim leyfi til, gengu þeir inn í borgina um Paradísarhliðið, sem næst var tjöldum vezírsins. Gengu þeir um opinber pláss og torgin, sem full voru af hinum dýrasta varningi, því næst komu þeir í hið forna Ommíada musteri, meðan trúaðir menn voru að safnast þangað til bænagjörðar milli hádegis og sólarlags; eftir það gengu þeir til búðar Bedreddíns Hassans. Fékkst hann enn við að baka rjómatertur eins og fyrri, og kannaðist hann við Agib jafnskjótt sem hann heilsaði honum.

"Munið þér til að við höfum sézt fyrr?" mælti Agib; horfði þá Bedreddín Hassan á hann, en viknaði ósjálfrátt eins og í fyrra skiptið; rann svo út í fyrir honum, að hann gat ekki komið upp orði og svarað honum.

En er hann hafði jafnað sig, bauð hann Agib og geldingnum, að koma inn og borða hjá sér rjómatertur. Beiddi hann Agib að fyrirgefa sér, að hann hefði gert hann hræddan, þegar hann elti hann út úr borginni. "Ég réði mér ekki," sagði hann, "eitthvert hulið afl dró mig á eftir yður; ég megnaði ekki að standa á móti því."


134. nótt

Þegar Agih heyrði þetta, undraðist hann og mælti: "Vinsemd sú, er þér sýnið mér, keyrir fram úr öllu hófi, og ekki fer ég inn með yður, nema þér sverjið mér, að elta mig ekki, þegar ég fer héðan. En ef þér gerið það og standið við orð yðar, skal ég koma á morgun meðan vezírinn, afi minn, er að kaupa gjafir handa Egiptalands soldáni."

Lofaði Bedreddín að gera honum allt að óskum og fór nú Agib inn í búðina með geldingnum og gaf bakarinn þeim rjómatertu að eta, sem ekki var lakari en sú, er hann hafði borið á borð í fyrra skiptið.

Settist Bedreddín hjá Agib og snæddi líka, var hann þá svo afar glaður, að hann ætlaði að faðma sveininn, en hann hratt honum frá sér og mælti: "Stillið yður, vinahót yðar eru of áköf. Látið yður nægja að sjá mig og tala við mig."

Hlýddi Bedreddín orðum hans og hætti að snæða; kvað hann þá vísu af munni fram Agib til lofs.

En er gestir Bedreddíns Hassans voru hættir að eta, færði hann þeim vatn til handaþvottar og hvítt handklæði. Því næst byrlaði hann svaladrykk og kældi hann með ís og bar Agib svo mælandi: "Drekkið, þetta er hinn bezti rósadrykkur, sem fæst í allri borginni, og munuð þér aldrei hafa bragðað slíkan."

Drakk Agib hann og þótti hann afbragðs ljúffengur; tók þá Bedreddín við drykkjarkerinu og hellti á handa geldingnum og renndi hann það út í einum teig. Þeir Agib og siðameistari hans þökkuðu nú bakaranum fyrir veitingarnar og flýttu sér heim, því framorðið var.

Þegar þeir komu til tjalda vezírsins, gengu þeir fyrst til kvennatjaldsins; fagnaði amma Agibs afturkomu hans og faðmaði hann grátandi, því hún hafði ætíð Bedreddín son sinn í huganum. Tók hún til máls: "Sonur, þá væri fögnuður minn fullkominn, ef ég mætti faðma hann Bedreddín Hassan, föður þinn, eins og ég faðma þig."

Bjó hún þá til kvöldverðar, lét Agib setjast hjá sér, og gat til, að hann mundi koma svangur heim. Bar hún þá á borð fyrir hann sneið af rjómatertu, er hún sjálf hafði tilreitt, enda var hún afbragð. Vitum vér nú af sögu Bedreddíns, að engum bakara var það betur gefið en henni. Gaf hún geldingnum líka af henni, en bæði hann og Agib höfðu borðað svo mikið hjá Bedreddín, að þeir vildu ekki einu sinni smakka á henni.


135. nótt

Agib snerti varla á þeirri sneið, sem honum var fengin og lét hann eins og sér smakkaðist ekki, og setti hana frá sér; allt að einu gerði Sjaban, (Sjaban er algengt geldings nafn) geldingurinn.

Þegar ekkja Núreddíns Alís sá það, mælti hún: "Hvernig stendur á því, sonur, að þú vilt ekki þiggja það, sem ég sjálf hef tilreitt? Þú skalt vita, að enginn maður getur bakað slíkar rjómatertur, nema hann Bedreddín Hassan, faðir þinn, og hann hefur lært það af mér."

"Amma mín góð," anzaði Agib, "ef þú ekki getur búið þær til betri, þá læt ég þig vita, að hérna í borginni er bakari, sem tekur þér langt fram í þessari list. Við átum eina hjá honum áðan, og var hún miklu betri en þessi."

Þegar amma Agibs heyrði þetta, leit hún með reiðisvip til geldingsins og mælti: "Hvað er þetta, Sjaban! Þér er skipað að hafa gætur á sonarsyni mínum, og þú fer með hann til bakara og lætur hann éta þar, eins og húska?"

Þá svaraði geldingurinn: "Það er aldrei nema satt, að við töluðum stundarkorn við bakara, en við neyttum einskis hjá honum."

"Fyrirgefið," mælti Agib, "við vorum í búðinni hans og átum þar heila rjómatertu."

Reiddist þá hin gamla kona geldingnum enn meir; hún rauk upp úr sæti sínu og flýtti sér í tjaldið til Sjemseddíns Móhammeds og kærði svo skörulega fyrir honum athæfi Sjabans, að hann stórreiddist honum.

Var hann í rauninni uppstökkur, og hafði oft fokið í hann af minna; fór hann að vörmu spori til tjalds mágkonu sinnar og sagði við geldinginn með miklum þjósti: "Þorparinn þinn, dirfist þú að bregðast svo svívirðilega því trausti, sem á þér er haft?"

Þó að vitnisburður Agibs hefði nú nógsamlega komið upp um Sjaban, þrætti hann samt fyrir; en sveinninn stóð annarsvegar fast á því, er hann einu sinni hafði sagt, og sór afa sínum, að þeir hefðu báðir etið svo mikið, að þeir þyrftu einskis kvöldverðar. Kvað hann bakarann þar á ofan hafa veitt þeim rósadrykk.

"Þú hinn vondi þræll!" sagði vezírinn við Sjaban, "ætlarðu alltaf að þræta fyrir?"

Var Sjaban svo ósvífinn, að hann sór, að hann hefði ekki talað annað en hreinan sannleikann. En vezírinn skammaði hann og kallaði hann lygara; kvaðst hann betur trúa dóttursyni sínum en honum; en samt skyldi hann trúa orðum hans, ef hann æti rjómatertu þá, er á borðinu stóð.

Þó nú Sjaban hefði áður étið yfir sig, ætlaði hann samt að gangast undir skírslu þessa, og tók eina sneið af tertunni; en undir eins og hann bragðaði á henni, varð honum óglatt, svo að hann varð að hætta við. Allt fyrir það barði hann lygina blákalt fram og sagðist hafa étið svo mikið daginn áður, að hann hefði enga matarlyst.

Varð nú vezírinn uppvægur af ósannsögli hans og með því hann var sannfærður um, að hann mundi vera sekur, lét hann gefa honum iljastroku; en við þá ráðningu meðgekk þrællinn. Játaði hann upp á sig veinandi og emjandi, að hann hefði étið rjómatertu með Agib hjá bakara einum, og hefði hún verið margfalt betri en sú, sem á borðinu stóð.

Mágkona vezírsins hélt að geldingurinn vildi skaprauna sér með játningu þessari og sagði því við hann: "Ég trúi því ekki, að rjómatertur bakarans séu betri en mínar, og vil ég komast fyrir, hvort svo er. Sæktu því rjómatertu til hans undir eíns."

Lét hún fá geldingnum peninga til að kaupa fyrir, og fór hann síðan til Bedreddíns.

"Bakari góður!" mælti hann, "hérna eru peningar, látið þér mig fá rjómatertu fyrir þá; eina af húsmæðrum mínum langar til að smakka á þeim."

Þá vildi svo til að Bedreddín hafði nokkrar glænýjar og glóðvolgar, og valdi hann úr einhverja hina beztu, og sagði um leið, að enginn af þeim mönnum, sem nú væru uppi, mundi geta búið til slíka, nema móðir sín, ef hún væri enn á lífi.

Sneri nú geldingurinn aftur til tjaldanna með rjómatertuna og fékk ekkju Núreddíns Alís, en hún tók fegin við. En jafnskjótt sem hún hafði látið einn bita af henni upp í sig, rak hún upp hljoð og hné í ómegin. Sjemseddín Móhammed, sem viðstaddur var, varð forviða og stökkti sjálfur vatni í andlit mágkonu sinnar og stumraði yfir henni.

Þegar hún var komin til sjálfrar sín, kallaði hún upp: "Guð minn, þessa tertu hefur hann Bedreddín sonur minn bakað."


136. nótt

Þegar vezírinn Sjemseddín Móhammed heyrði, að móðir Bedreddíns Hassans fullyrti, að hann hefði bakað rjómatertu þá, er geldingurinn kom með, varð hann óumræðilega glaður. En er hann fór að hyggja betur að, þótti honum það harðla ólíklegt, og spurði hana, af hverjum ástæðum hún héldi það, og hvort enginn bakari mundi baka eins góðar rjómatertur og Bedreddín Hassan.

"Vera kann það," svaraði hún, "að til séu þeir, sem það geta, en með því ég hef frábrugðna aðferð, og hef engum kennt leyndardóm þenna, nema honum, hlýtur hann fortakslaust að hafa bakað tertuna. Látum okkur vera glöð, bróðir minn! Nú höfum við loksins fundið hann, sem við höfum svo lengi þráð."

Var hún þá næsta óðlát, en vezírinn beiddi hana að stilla sig og mælti: "Við skulum ekki vera lengi í vafa um þetta, og þarf ekki annars en að senda eftir bakaranum, og munt þú og dóttir mín fljótt kannast við, ef hann er Bedreddín Hassan. En þið verðið að fela ykkur fyrir honum, og aldrei láta hann sjá ykkur, þó þið horfið á hann, því mér er ekki um að láta fagnafund hans og okkar verða hér í Damaskus. Ætla ég að fresta því, þangað til við komum til Kairó; skal ég þar halda gleðihátíð, sem þú munt hafa mestu skemmtun af."

Vezírinn gekk frá konunum og heim í tjald sitt; kallaði hann á fimmtíu menn af liði sínu og mælti: "Hver yðar taki staf í hönd sér og fylgi Sjaban til bakara eins í borginni, sem hann þekkir. Undir eins og þér eruð komnir að búð hans, skuluð þér mölva allt, er þér sjáið, og spyrji hann yður, því þér gerið slíkt spellvirki, skuluð þér aftur spyrja hann, hvort hann hafi ekki bakað rjómatertuna, sem sótt var til hans. Ef hann játar því, skuluð þér taka hann fastan, en varist að berja hann, eða gera honum nokkurt mein. Farið nú af stað og flýtið ykkur."

Hlýddu þeir óóara skipun vezírsins, og er geldingurinn hafði fylgt þeim inn í sölubúð Bedreddíns Hassans, mölvuðu þeir allt í sundur, diska, skálar, staup, krukkur, brauðmót, pönnur og öll húsgögn, sem þar voru; synti allt húsið í sykurlegi, rjóma og víni.

Varð Bedreddín Hassan frá sér, er hann sá þessar aðfarir, og spurði kveinandi, því svo væri farið með sig og hvað hann hefði misgert.

Sögðu þeir þá í einu hljóði: "Hefur þú ekki bakað rjómatertuna, sem geldingurinn keypti?"

"Það hef ég gert," svaraði hann, "hvað varð að henni fundið? Ég skora á hvern, sem þorir, að fara í kapp við mig, og gera aðra betri."

Svöruðu sendimenn vezírsins honum engu, heldur héldu þeir áfram að brjóta í sundur, hvað sem fyrir varð, og rifu jafnvel bakstursofninn niður. Meðan á þessum ósköpum gekk, höfðu nábúarnir flykkzt að, þegar þeir heyrðu skarkalann; urðu þeir forviða, er þeir sáu fimmtíu vopnaða menn gera slíkan usla og vildu vita, hvað þeim gengi til svo óheyrilegs athæfis.

Tók Bedreddín aftur til máls og sagði: "Ég bið yður fyrir alla muni að segja mér, hvað ég hef til saka gert, fyrst þið brjótið allt í sundur fyrir mér?"

"Hefur þú ekki bakað rjómatertuna, sem geldingurinn keypti?" spurðu þeir aftur.

"Raunar hef ég gert það," svaraði hann, "en það fullyrði ég, að hún var góð í alla staði, og á ég ekki slíka meðferð skilið."

Síðan tóku þeir hann fastan, röktu höfuðbúnað hans í sundur, og bundu með honum hendur hans á bak aftur; drógu þeir hann með ofbeldi út úr búðinni og fóru burt með hann. Mannþyrping sú, er saman hafði hlaupið, kenndi í brjósti um Bedreddín, og ætlaði að verja hann, en í sama bili komu erindrekar lögreglustjórans í borginni, tvístruðu lýðnum, og leyfðu mönnum vezírsins að fara með bakarann; hafði Sjemseddín Móhammed látið lögreglustjórann vita, hvað hann hafði skipað mönnum sínum að gera, og hafði hann beiðzt hans liðsinnis. En hann var hyggnari en svo, að hann léti nokkuð á móti vezír Egiptasoldáns, herra síns.


137. nótt

Nú var Bedreddín dreginn áfram þrátt fyrir óp hans og grát; svöruðu ofríkismennirnir honum engu, þó hann hvað eftir annað spyrði þá, hvað verið hefði að tertunni; en er þeir voru komnir til tjalda vezírsins, varð hann að bíða þangað til hann kom aftur frá lögreglustjóra borgarinnar.

Þegar vezírinn var kominn, lét hann undir eins leiða bakarann fyrir sig. Beiddi hann vezírinn með tárin í augunum að segja sér, með hverju hann hefði reitt hann til reiði.

Svaraði þá vezírinn: "Óláns maður, hefur þú ekki bakað rjómatertuna, sem sótt var handa mér?"

"Það játa ég," anzaði Bedreddín, "en hvað hef ég afbrotið með því?"

"Ég skal hegna þér eins og þú hefur til unnið," mælti vezírinn, "og skaltu láta lífið fyrir, að þú hefur bakað svo ónýta tertu."

"Guð varðveiti mig!" æpti Bedreddín, "á ég að trúa því, sem ég heyri? Er það þá dauðasök, að baka slæma rjómatertu?"

"Svo er í sannleika," mælti vezírinn, "og átt þú ekki annars von af mér."

Meðan þeir töluðu þetta saman, höfðu báðar konurnar, sem voru í felum, virt Bedreddín Hassan gaumgæfilega fyrir sér; þekktu þær hann undir eins, þó langt væri um liðið, síðan þær sáu hann. Urðu þær svo óumræðilega glaðar, að þær hnigu í ómegín; en er þær voru raknaðar við, gátu þær varla stillt sig um að hlaupa um háls hins ástkæra manns, sem nú var aftur fundinn, og aftraði þeim ekki annað en það, að þær höfðu lofað vezírnum að láta hann ekki sjá sig.

Hafði Sjemseddín Móhammed ákveðið, að þau skyldu fara af stað áður en náttaði; lét hann því taka upp tjöldin og búa vagnana til burtferðar. Skipaði hann að læsa Bedreddín Hassan í rammgjörva örk, og láta hana upp á úlfalda. En er allt var tilbúið, lagði vezírinn af stað með föruneyti sínu, og lét ekki staðnæmast fyrr en undir næstu nótt. Var þá Bedreddín Hassan tekinn út úr örkinni, og var honum gefið að eta, en þess var vandlega gætt, að hann kæmi ekki nærri konu sinni eða móður; var þannig farið með hann á allri ferðinni, en hún stóð í tuttugu daga.

Þegar vezírinn var kominn til Kairó, lét hann setja tjöldin fyrir utan borgina; því næst lét hann leiða Bedreddín fram, og skipaði í viðurvist hans timburmanni einum að sækja við og reisa upp staur í flýti.

Þá spurði Bedreddín: "Herra, til hvers látið þér reisa staurinn?" og svaraði vezírinn:

"Ég ætla að láta binda þig við hann, og síðan láta bera þig um alla borgina, til þess menn skuli sjá svívirðilegan bakara, sem engan pipar lætur í rjómaterturnar."

Varð þá svo skoplegt að sjá og heyra, hvað aumlega Bedreddín bar sig, að Sjemseddín Móhammed gat varla stillt sig um að hlæja.

"Guð minn!" æpti Bedreddín, "á að lífláta mig með slíkri grimmd og háðung fyrir það, að ég lét engan pipar í rjómatertuna?"


138. nótt

Svo alvörugefinn, sem kalífinn Harún Alrasjid var, gat hann samt ekki annað en hlegið, þegar hann heyrði, að Sjemseddín Móhammed hefði hótað Bedreddín Hassan lífláti fyrir það, að hann hefði ekki látið neinn pipar í rjómatertu þá, er hann seldi.

Hélt Bedreddín Hassan áfram að bera upp kveinstafi sína á þessa leið: "Var þá allt mölvað í húsi mínu, var ég sjálfur hnepptur í örkina og dæmdur til dauða fyrir það, að ég lét engan pipar í rjómatertuna? Drottinn minn, eru slíks dæmi? Geta trúaðir breytt þannig? Geta þeir farið þannig að ráði sínu, sem þjóna réttlætinu og gera alls konar góðverk? Aldrei hefur nokkur maður orðið fyrir slíku ranglæti og hörku sem ég; getur það átt sér stað, að nokkur maður ráði annan af dögum fyrir það, að hann hefur ekki látið pipar í rjómatertu? Bölvaðar séu allar rjómatertur, bölvaður sé fæðingardagur minn. Guð gæfi ég mætti deyja hér samstundis."

Þannig kveinaði Bedreddín og barmaði sér grátandi og óhuggandi. En er staurinn var tilbúinn og borinn fram, rak hann upp hljóð við þá hina hryllilegu sjón, og mælti: "Guð minn, lætur þú viðgangast, að ég deyi svívirðilegum og kvalafullum dauða? Hvern glæp hef ég drýgt? Ekki þjófnað eða manndráp, ekki hef ég heldur afneitað guði mínum; öll yfirsjón mín er sú, að ég lét engan pipar í rjómatertuna."

Var nú komið fram á nótt, og lét því vezírinn aftur læsa Bedreddín dauðhræddan í örkina, og sagði við hann: "Sittu þar til morguns, og skaltu ekki lifa til annars kvölds."

Örkin var aftur látin upp á úlfaldann, og var líka látið upp á hina úlfaldana; fór vezírinn á bak og lét flytja Bedreddín í örkinni á undan sér, og reið hann því næst inn í borgina með föruneyti sínu. Nú sem ferðafólkið með lestinni hafði farið gegnum mörg stræti, kom það loksins til vezírshallarinnar; var þá örkin ofan tekin, en bannað að ljúka henni upp, fyrr en skipað væri.

Meðan nú verið var að taka ofan af hinum úlföldunum, tók Sjemseddín Móhammed mágkonu sína og dóttur afsíðis, og sagði við dóttur sína: "Guði sé lof, að hann hefur látið oss farsællega aftur finna bróðurson minn og eiginmann þinn. Þú manst víst glöggt, hvernig til hagaði í brúðarhúsi þínu. Láttu nú búa það að öllu eins og það var þá, en ef þú manst nokkuð ógjörla, skaltu líta í lýsingu þá, er ég samdi. Meðan þú gerir þetta, skal ég sjá um allt hið annað."

Fríða gerði feginshugar það, sem faðir hennar sagði, en hann lét að öllu búa salinn og skreyta, eins og hann hafði verið daginn, sem Bedreddín Hassan hitti krypplinginn, hestaþræl soldáns. Svaraði ljós ljósi, auk heldur annað, og er allt var tilbúið, gekk vezírinn inn í herbergi dóttur sinnar, og lagði klæði Bedreddíns, höfuðbúnað hans og sjóðinn á stólinn. Sagði hann henni þá, að hún skyldi hátta, en þegar Bedreddín kæmi, skyldi hún kvarta yfir því, að hann hefði ekki hvílt við hlið henni, þegar hún vaknaði. Skyldi hún neyða hann til að leggjast fyrir aftur.

Lauk vezírinn þannig ræðu sinni: "Á morgun skaltu skemmta mágkonu minni og mér með því að segja frá, hvernig fer í nótt."

Að svo mæltu skildi vezírinn við dóttur sína.


139. nótt

Þegar Sjemseddín Móhammed hafði látið alla þjónana fara burt úr salnum, nema tvo eða þrjá, skipaði hann þeim að taka Bedreddín úr örkinni og koma með hann inn í salinn í skyrtu og nærbuxum, láta hann þar einan og loka dyrunum.

Svo harmþrunginn sem Bedreddín var, hafði hann þó sofnað út af, og lá í fastasvefni, og tókst þjónunum að afklæða hann og færa í skyrtu og nærbuxur, áður en hann vaknaði, og báru þeir hann svo fljótt inn í salinn, að hann fékk ekki áttað sig.

En er hann var kominn þangað, og leit til allra hliða, varð allt, sem þar var, til þess að minna hann á brúðkaup hans; hann þekkti aftur salinn, þar sem hann hafði hitt krypplinginn, og varð nú forviða. Þó brá honum mest við, er honum varð gengið að herbergisdyrum nokkrum, er opnar voru, og leit þar inn, því hann sá þar föt sín á sama stað, sem hann mundi, að hann hafði látið þau á brúðkaupsnóttinni.

"Guð minn!" mælti hann, "sef ég eða vaki?"

Fór hann að núa stýrurnar úr augum sér, en Fríða, sem hafði horft á hann, og haft gaman af undrun hans, tók þá sundur rúmtjöldin og gægðist út með höfuðið, og mælti með blíðlætis rómi: "Elskan mín, hvað ertu að gera þarna við dyrnar? Komdu og leggstu fyrir aftur. Þú hefur látið mig bíða svo lengi eftir þér, og mér varð illt við, þegar ég sá, að þú varst horfinn úr rúminu."

Kom nú annar svipur en verið hafði á Bedreddín, er hann þekkti þar hina yndislegu brúður, sem hann mundi glöggt að hann hafði sofið hjá. Gekk hann því inn í herbergið, en ekki háttaði hann, því hann var eins og ringlaður af öllu því, er drifið hafði á daga hans í tíu ár, sem honum var ómögulegt að skilja, að gerzt hefði á einni nótt; gekk hann þá að stólnum, er klæði hans og sjóðurinn lágu á.

Skoðaði hann hvorttveggja vandlega og mælti: "Guð minn, þessir hlutir eru mér óskiljanlegir."

Fríða hafði gaman af fáti því, er var á Bedreddín og mælti: "Komdu nú og leggstu fyrir; hvað tefur þig?"

Þá gekk Bedreddín til konu sinnar og mælti: "Seg mér fyrir hvern mun, hef ég verið hjá þér lengi?"

"Mér þykir þú spyrja skrítilega," anzaði hún, "gekkstu ekki frá mér rétt nýlega? Þú ert einhvernveginn utan við þig."

"Svo mikið man ég, að ég hef verið hjá þér," mælti Bedreddín, "en ég man líka, að síðan það var, hef ég verið tíu ár í Damaskus. En hafi ég sofið hér í nótt, er ómögulegt að ég hafi verið svo lengi í burtu; því verður ekki komið saman. Seg mér nú, hvað ég á að halda; er gifting mín hugarburður, eða var fjarvera mín einber draumur?"

"Svo er í sannleika," anzaði Fríða, "þig hefur dreymt, að þú værir í Damaskus."

"Þá hef ég aldrei heyrt skringilegri sögu en þessi er," mælti Bedreddín og hló hátt, "ég er viss um að þér mun þykja draumurinn skrítinn. Þú getur því nærri, því svo bar fyrir mig, að ég var staddur fyrir utan Damaskusborgar-hlið, eins á mig kominn og ég er nú, og elti mig skrílþyrping inn í borgina og spottaði mig; flýði ég þá til bakara eins, og tók hann mig í sonar stað og kenndi mér iðn sína; erfði ég atvinnu hans og sölubúðina eftir hans dag.

Auk þess hefur ótal margt annað viljað mér til, en það væri of langt, að segja frá því öllu, en vel réðist úr að ég vaknaði, því það átti að negla mig á staur, og var allur glæpurinn sá, að ég hafði selt rjómatertu, sem enginn pipar var í."

"Þar voru þér að vísu sýnd óguðleg rangindi," svaraði Fríða og skellihló, en Bedreddín sagði henni enn fremur til sannindamerkis, að allt í húsi sínu hefði verið mölvað sundur fyrir sér; sagði hann og frá því, hversu óþyrmilega hefði verið farið með sig.

"En guði sé lof," mælti hann, "að allt þetta var ekki annað en draumur."


140. nótt

Fjarri fór því að Bedreddín yrði svefnsamt um nóttina. Hann vaknaði öðru hverju og spurði sjálfan sig, hvort hann vekti eða dreymdi. Hann trúði ekki láni sínu, og leitaðist því við að ganga úr skugga um, hvort hann í rauninni væri svona sæll; brá hann því hvílutjöldunum í sundur og skimaði allt í kringum sig.

"Þetta er enginn hugarburður," sagði hann, "það er sama herbergið, sem ég gekk í til brúðurinnar, sem ætluð var krypplingnum."

Ljómaði nú af degi og var hann enn í nokkrum vafa, en þá var barið á dyr, og kom inn Sjemseddín Móhammed, og bauð honum góðan dag. Brá Bedreddín Hassan í brún, er hann sá mann, sem hann þekkti svo vel, þó hann væri nú ekki eins ógurlegur, eins og þegar hann kvað upp dauðadóm hans.

"Voruð þér það ekki," sagði hann, "sem fóruð svo svívirðilega með mig, af því ég hafði ekki piprað rjómatertuna, og dæmduð mig til hryllilegs dauðdaga, svo að mér enn þá hrís hugur við?"

Þá hló vezírinn, og tók nú af allan efa hans með því að segja honum, hvernig hann hefði komið í sitt hús fyrir tilstilli anda nokkurs, og átt dóttur sína - því allt þetta réði vezírinn af sögusögn krypplingsins. Kvaðst hann hafa séð af eiginhandarriti Núreddíns Alís, því, er hann fann í höfuðbúnaði hans, að hann væri bróðursonur sinn, og hefði hann því lagt af stað til Balsora til að leita frétta af honum.

"Nú bið ég þig, frændi!" mælti hann, og faðmaði Bedreddín með mestu ástúð, "að fyrirgefa mér allar þær hugraunir, sem þú hefur orðið að þola af mínum völdum, síðan við fundumst. Ég vildi flytja þig hingað áður en þú vissir af láni þínu, og ætlaðist svo til, að eftir þungar þrautir og hörmungar yrði fögnuður þinn meiri. Láttu nú huggast af gleðinni, þar sem þú hefur fundið þau, sem þér hljóta að vera kærust. Nú skaltu fara í önnur föt, en á meðan skal ég segja móður þinni til, því hún þráir mjög að faðma þig og sýna þér son þinn; þú sást hann í Damaskus, og hneigðist þá hjarta þitt ósjálfrátt til hans af elsku, þó þú þekktir hann ekki."

Því verður ekki með orðum lýst, hversu Bedreddín fagnaði, er hann sá móður sína og Agib son sinn; föðmuðu þau þrjú hvert annað með einlægum ástaratlotum og hjartnæmri blíðu.

Meðan á því stóð, hafði Sjemseddín Móhammed farið til soldáns og sagt honum, hversu æskilega ferðin hafði heppnazt. Varð soldán svo frá sér numinn, er hann heyrði sagt frá þessum merkilegu atburðum, að hann lét færa sögu þessa í letur og leggja til geymslu í skjalahirzlu ríkisins. En er vezírinn var kominn heim, gekk hann með ættfólki sínu til dýrðlegasta borðhalds, er hann hafði látið búa undir, og ríkti nú hin mesta gleði í húsum hans."

Þannig lauk stórvezírinn Gíafar við sögu Bedreddíns Hassans, og sagði við kalífann Harún Alrasjid: "Drottinn rétttrúaðra manna! Þetta er sagan, sem ég ætlaði að segja yðar hátign."

Þótti kalífanum sagan svo frábær, að hann óðara gaf þrælnum Ríhan upp alla hegningu. En til þess að hugga hinn unga mann, sem sjálfur af hryggilegu óláni hafði svipt sig heittelskaðri konu, gifti hann honum eina af ambáttum sínum, veitti honum ótal velgerðir og sýndi honum góðvilja sinn allt til dauða."

Þegar Sjerasade lauk við sögu þessa, sá til sólar, og með því enginn tími var til að byrja á nýrri sögu, sagði hún Sjarjar, að hann mætti vera viss um, að ef hann lofaði sér að lifa, gæti hún sagt honum sögu næstu nótt, sem væri merkilegri en hinar fyrri.

Stóð soldán upp þegjandi, og var hann á báðum áttum, en loksins réði hann samt af, að láta drottningu segja sér sögu þessa, því hann vissi ekki, nema hún kynni að vera enn frábærari en hinar; frestaði hann því lífláti hennar enn til seinni tíma.




Netútgáfan - september 2001