"Aksjid soldán í Egiptalandi var kominn að fótum fram, og fann að hann átti skammt ólifað. Kallaði hann þá á þrjá sonu sína og mælti við þá: "Börn mín, bráðum mun ég standa fyrir guðs dómstóli með verkum mínum. En áður en engill dauðans leggur höfuð mitt út af, býð ég yður að gera útför mína virðulega, Ég vil sjá hvernig þér munið gera hana að mér látnum. Seðjið forvitni mína. Farið og skipið undir eins öllum vezírum mínum í mínu nafni, að gera sem skjótast orðsending öllum jörlum og konungum, sem eru nágrannar mínir, eða gjalda mér skatt, að þeir verði nærstaddir við hátíðarhald þetta. Í stuttu máli, ekkert skal á vanta, og skal útför mín fara fram með slíkri vegsemd, sem ég væri ekki framar í lifenda tölu."Kóngssynirnir grétu, er þeir heyrðu þetta, en bjuggu sig samt til að hlýða konunginum föður sínum. Vezírarnir létu boð út ganga um allt, er þurfti til sorgarhátíðar þessarar, sem halda átti á ákveðnum degi. Hershöfðingjarnir höfðu líka allan viðbúnað, sem vænta mátti af þeim, svo allt var tilbúið á hinum fyrirskipaða degi. Höllin var öll tjölduð sorgardúkum, en á flötinni fyrir framan hana gengu höfuðverðir konungs í fylkingu. Voru það um fimmtíu þúsundir manna. Var málanum útbýtt meðal þeirra í gullnum pyngjum.
Síðan fóru hershöfðingjarnir inn í herbergi konungs. Lá hann þar í hvílu sinni. Tóku þeir hann upp og báru í hásætið, en fyrir framan það settu fjórir vezírar líkkistu undir skrautlegu yfirtjaldi, sem fjórir kóngssynir báru. Því næst tóku sex hershöfðingjar mold upp af hallargólfinu og dreifðu hvívetna, en undir moldina höfðu verið lagðar óteljandi þunnsilkiblæjur, allavegalitar. Loksins prýddu synir soldáns líkkistuna með ógrynni gimsteina og kórónu Aksjids. Voru í henni stórir demantar og stóð af þeim blikandi ljómi.
Þá komu fjórir stórfurstar Tattara og tóku sinn um hvern fót kistunnar og lyftu henni upp á armleggi sér. Vitringar og munkar gengu á undan kistunni og sungu sálma, á eftir þeim komu einsetumennirnir, reið einn þeirra úlfalda og bar kóraninn með lotningu. Kóngssynir og konungbornir menn, stórfurstar og synir þeirra gengu samsíða kistunni.
Næst þeim komu tvö hundruð menn, sem slógu bjöllubumbur og kváðu ljóð, konungi til vegs og dýrðar, hættu síðan snögglega og æptu hástöfum: "Ó, þér grimmu forlög, óláns dagur! Konungurinn er liðinn, sem var réttlátastur allra konunga, sem braut undir sig ríkin, eyddi fjandmönnunum, og ól vini sína."
Eftir óp þetta stráðu þeir úr fullum höndum svartlituðum möndlum yfir kistuna.
Næst mönnunum með bjöllubumburnar komu fimmtíu vezírar í síðum sorgarbúningi, svörtum og bláum, og næst þeim hershöfðingjarnir, allir saman með brotna boga í hendi. Því næst komu tíu þúsund hestar með gullsöðla og gullbeizli og skorin tögl og teymdu þá tíu þúsundir svertingja, voru þeir í bláum sekkjum. Loksins komu allar hjákonurnar úr kvennabúrinu, blá- og svartpentaðar í framan, með flakandi hárið. Þær voru aftastar í líkfylgdinni og veinuðu og hljóðuðu óskaplega.
Við þenna sjónarleik andvarpaði öldungurinn Aksjid soldán mæðilega og mælti: "Ég er búinn að sjá útför mína í lifanda lífi."
Bauð hann þá að hjálpa sér ofan úr hásætinu, og er hann var kominn niður, þreif hann upp handfylli af mold þeirri, sem hershöfðingjarnir höfðu dreift, og neri með henni andlit sitt og skegg og mælti: "Að jörðin skuli hylja mig, sem hef ríkt svo lengi og ekkert gert, það er haldið geti minningu minni á loft meðal komandi mann!"
Að svo mæltu veik hann sér að vezírunum og sagði: "Ég vil koma upp stofnunum: skrifið!"
Og er stórvezírinn var tilbúinn, las konungur honum þetta fyrir:
"Það er þá fyrst, að ég gef í dánargjöf eina þúsund þúsunda og tvö hundruð og tuttugu þúsundir aspra til að byggja spítala handa þeim átrúendum Mahómets, sem sýkjast af stóru bólu.
Í öðru lagi ætla ég viðlíka mikið til að koma á fót íþróttaskóla, skal þar kenna knattleik og bogmanns íþrótt.
Það er hið þriðja, að ég skipa, að gert sé nýtt sæluhús handa lestamönnum, skulu svartar ambáttir þjóna hinum hvítu ferðamönnum, og býð ég að til fyrirtækis þessa séu fimmhundruð dúkatar borgaðir úr sjóði mínum daglega.
Í fjórða lagi skipa ég, að byggð séu baðhús, sem séu hæli fyrir konur þær, er útskúfaðar verða af mönnum sínum, þangað til þær fá sér Húlla (Nær sem maðurinn skipar, verður konan að fara, og fær þá ekki að vera hjá honum lengur. Þegar þau hafa verið skilin í þrjá mánuði, má hann eiga hana aftur, jafnvel móti vilja hennar, en samt þarf þá nýrrar hjónavígslu. Getur hann það líka, þegar hann hefur látið hana eina í annað sinn, en sé það í þriðja sinn, má hann ekki eiga hana nema hún hafi verið öðrum manni gift eftir skilnaðinn, og er sá maður kallaður: Húlla.) eður millimann, og ætla ég til þessa níu hundruð þúsundir aspra."
Þegar soldán hafði sett þetta á stofn, guði til velþóknunar og mönnum til líknar, lét hann sækja kóraninn og lesa fyrir sig í honum. Gaf hann lesaranum þúsund dínara, en hverjum einsetumanni og munki gaf hann fimmhundruð. Hver maður, sem blindur var eða haltur, fékk hundrað. Eftir þetta var haldið erfi.
Réttirnir voru fram bornir á gulldiskum og var sagt við hvern, sem við tók: "Þú átt líka diskinn og mátt fara með hann."
Að lokinni veizlunni gaf Aksjid öllum ambáttum frelsi, sem innan hallar voru. Þannig var hátíð sú, er soldán hélt, og var henni haldið áfram daginn eftir. Aksjid hafði semsé sýkzt daginn áður og lagðist hann þá fyrir, og er hann fann að draga tók af honum, gerði hann boð eftir sonum sínum:
"Börn mín!" mælti hann, "ég hef fólgið kistil í herbergi mínu, í horninu vinstra megin við dyrnar, og eru í honum hinir fegurstu gimsteinar í heimi. Þegar ég er viðskilinn og þið hafið borið þá umhyggju fyrir jarðarför minni, sem skyldugt er, skipa ég ykkur að skipta þeim jafnt á milli ykkar."
Eftir það andast Aksjid. En yngsti sonurinn eirði sér ekki fyrir bráðlætinu að sjá gimsteinana. Læddist hann því inn í herbergi föður síns, fann kistilinn og varð svo blindaður af fegurð gimsteinanna, að hann ásetti sér að eiga þá sjálfur.
Þegar lokið var greftrun soldáns, tældi sama forvitnin hina bræðurna til að fara í herbergi föður þeirra. Brá þeim undarlega við, er þeir fundu ekkert, hvorki í horninu vinstra megin dyranna, né neinstaðar, þar sem þeir leituðu.
Kom þá yngsti bróðirinn að og segir: "Nú, nú, bræður! Eru steinarnir fallegir?"
"Þér mun vera kunnugra um það en okkur," anzaði hinn elzti, "þá er ég illa svikinn, ef þú veldur ekki hvarfi þeirra."
"Ekki nema það!" anzar yngsti kóngssonurinn, "þið hafið tekið þá sjálfir, og gefið mér það að sök."
"Það segi ég ykkur," tók sá til orða, sem var í miðið, "einhver okkar þriggja hefur gert það, því enginn annar maður kemst í þetta herbergi. Ef þið eruð mér samdóma, þá sendum við eftir einum dómara, sem talinn er að vera skarpvitrastur og grandskyggnastur maður í Stóru-Kairó. Hann skal spyrja okkur og er vísast að hann hafi upp þjófinn."
Báðir hinir kóngssynirnir féllust á þetta ráð og gerðu boð eftir dómaranum. Og er hann hafði heyrt málavöxtu, mælti hann: "Kóngssynir! Áður en ég segi, hver ykkar hefur tekið steinana, bið ég ykkur að hlýða með athygli á sögu, sem ég ætla að segja ykkur"....
24. nótt"Einu sinni var unglingur, sem elskaði unga stúlku ákaflega heitt, og hafði hennar ástir að því skapi. Langaði þau bæði til að ná saman með góðri og farsællegri giftingu, en foreldrar stúlkunnar ætluðu henni annað. Þau höfðu fastnað hana öðrum manni, og var einskis vant, að hann gengi að eiga hana.
Þá vildi svo til að mærin mætti elskhuga sínum. "Æ, veiztu hvað er í ráði?" sagði hún grátandi, "foreldrar mínir ætla að gefa mig manni, sem ég hef aldrei séð. Öll von er úti, svo sæt sem hún var, að ég fengi þig. Ó, hvað forlögin eru grimm!"
"Ó, þú drottning mín!" hrópaði unnustinn örvæntingarfullur, hvílíkt orð! Á ég að trúa því, að þú verðir slitin úr óskafaðmi mínum? Guð minn, hvernig á ég þá að lifa?"
Svo mælti hann og felldi tár af augum. Tóku þá bæði að harma ólán sitt og gerðu hvort öðru enn skapþyngra.
Meðan nú unglingurinn hugsaði ekki um annað en að svala harmi sínum, var unnustan svo hugul að hugsa upp huggun fyrir hann í raununum. "Sefaðu þína miklu hryggð," tók hún til máls, "ég lofa þér, að vitja þín á brúðkaupsnóttina áður en ég leggst niður hjá manni mínum."
Elskhuganum var ofurlítil huggun í loforði þessu og beið hann næturinnar með óþolinmæði og tilhlökkun.
Foreldrar stúlkunnar bjuggu til brúðkaups og gáfu manninum stúlkuna, eins og þeir höfðu lofað. Nóttin var komin, nýgiftu hjónin voru komin inn í brúðarherbergið. Sá þá brúðguminn að brúðurin grét beisklega.
Fór hann þá að ganga á hana: "Hvað gengur að þér, elskan mín? Hvað kemur til að þú ert að gráta? Hafirðu verið því mótfallin að eiga mig, því sagðirðu þá ekki til þess fyrr? Ég skyldi alls ekki hafa þröngvað þér til þess."
Brúðurin bar á móti því að hún hefði óbeit á honum og hann tók aftur til orða og spurði: "Ef svo er, því hryggistu þá svona? Segðu mér það, ég særi þig!"
Er þar stutt frá að segja, að hann lagði svo fast að henni, að hún játaði honum, að hún ætti elskhuga. Kvaðst hún samt ekki harma svo mjög eða gráta af elskunni til hans, en það þætti sér sárast, að sér væri ómögulegt að efna nokkuð, sem hún hefði heitið honum.
Maðurinn, sem var ljúfmenni og í góðu skapi, furðaði sig á hreinskilni konu sinnar og svaraði: "Ég virði svo mikið við þig einurð þína, að ég lái þér ekki, þó þér yrði það glappaskot, að lofa þessu, miklu fremur leyfi ég þér að efna það."
Konan varð öldungis hissa og segir: "Hvernig þá, herra minn? Leyfirðu mér að heimsækja elskhuga minn?"
"Ég leyfi þér það," anzaði maðurinn, "með því skilyrði, að þú komir hingað aftur fyrir birtingu, og heitir því, að lofa aldrei slíku framvegis. Ég sé það, að loforð þín eru engin markleysa, og er mér óhætt að trúa þér."
Konan sór honum þá, að ef hann lofaði sér út í þetta sinn, skyldi hún vera honum trú alla ævi, og skyldi þetta vera í hinzta og síðasta sinn, sem hún talaði við elskhuga sinn. Treysti maðurinn þessum svardaga og lauk upp strætisdyrunum hljóðlega, því honum var ekki um það, að neinn af þjónum hans vissi þetta.
Fór konan þá leiðar sinnar eins og hún var, í öllu brúðarskartinu, og prýdd með margskonar gimsteinum og perlum. En er hún var komin nokkrar faðmslengdir frá húsinu, sá hún ræningja koma á móti sér, sá hann hversu glampaði á demanta hennar í tunglskininu og allt skartið.
Réði hann sér þá varla fyrir fögnuði og mælti: "Mikið blessað lán, þökk og heiður séu yður, forlög mín, að þér létuð mér bjóðast tækifærið til að verða ríkismaður allt í einu!"
Lagði hann þá undir eins hendur á hana og ætlaði að ræna hana, en þegar hann sá framan í hana, þótti honum hún svo fríð, að hann stóð eins og agndofa og hætti við: "Hvað sé ég, er það tælandi draumvitrun? Drottinn minn, getur slík auðlegð og slík fegurð orðið samfara? Hvílíkur yndisleikur, hvílíkt skart! Ég sé ekki hvar upphaf er eða endir. En seg mér, sjónfagra kona, ef ég get trúað mínum eigin augum, hvernig víkur því þá við, að svo ljómandi fögur og skrautbúin kona skuli ganga alein á strætunum um þetta leyti?"
Sagði hún þá ræningjanum blátt áfram frá öllu, og undraðist hann stórlega. "Hvernig er því varið, fagra kona, að maðurinn yðar skuli vera svo góðsamur, að eftirláta öðrum þá sælustu nótt á ævi sinni, til að þerra tár yðar?"
Hún kvað svo vera og mælti þá ræninginn: "Þetta er sannarlega fáheyrt, ég er frá mér numinn af því. Sjálfur er ég fús til fádæma, og skal því hvorki skerða skart yðar né virðing. Þér megið fara leiðar yðar, og skal ég vera eins einstakur stigamaður og maður yðar er einstakur brúðgumi. Farið á fund elskhuga yðar, sem á mikla sælu í vændum. Ég skal fylgja yður þangað, svo þér séuð óhultar, því svo gæti farið að þér yrðuð á vegi ræningja, sem ekki er eins einstakur og ég."
Þannig mælti hann, tók hana við hönd sér, og fylgdi henni heim til elskhuga hennar, kvaddi hana þar og fór burt, en konan drap á dyr. Var þeim upp lokið, og gekk hún upp stigann og fann elskhuga sinn, og kom flatt upp á hann að sjá hana.
"Elsku vinur!" tók hún til orða, "ég kem til að efna heit mitt, í dag var ég gift."
"En hvernig gaztu sloppið frá brúðgumanum?" segir unglingurinn, "hann hlýtur þó að hafa brunnið af óþolinmæði. Ég hélt þú mundir núna hvíla í faðmi hans."
Sagði hún honum þá hreinskilnislega allt, eins og farið hafði milli þeirra hjónanna, og furðaði elskhuginn sig ekki síður á því en ræninginn. "Hvernig stendur á því," mælti hann, "að maðurinn þinn skyldi lofa þér að efna slíkt heit, sem svívirðir hann og sviptir hann þeirri gersemi, sem ímyndunin hlýtur að hafa útmálað fyrir honum með óumræðilegum sætleik?"
"Það gerði hann samt," svaraði konan, "en þessa gersemi áttu ekki einungis manni mínum að þakka, heldur og veglyndi ræningja nokkurs, sem ég mætti á leiðinni hingað."
Sagði hún honum þá ævintýrið af sér og ræningjanum, og undraðist elskhuginn þá hálfu meira en áður. "Á ég að trúa því, sem ég heyri?" mælti hann, "maðurinn þinn er svo góðsamur, að samþykkja þvílíkt heit, og ræninginn svo göfuglyndwr að láta ganga sér úr greipum hið bezta færi, sem boðizt gat. Slíkt ævintýri er eflaust nýtt, og væri vert að færa það í letur, mun komandi mönnum þykja það undrunarvert. En svo að undrun seinni manna verði enn meiri, ætla ég að keppast við mann þinn og ræningjann og gera að dæmi þeirra. Ég leysi þig af heiti þínu, elskan mín, og bið þig leyfis að fylgja þér til híbýla þinna."
Síðan rétti hann henni hönd sína og leiddi hana til húsdyra hennar. Skildu þau þar, konan fór inn, en hann sneri heim aftur."
"Segið mér nú, virðulegu kóngssynir," mælti dómarinn, "hver var veglyndastur þessara þriggja: brúðguminn, ræninginn eða elskhuginn?"
Þá sagði elzti kóngssonurinn, að sér þætti mest til brúðgumans koma. Annar kóngssonurinn stóð fast á því, að elskhuginn ætti mest lof skilið.
"Og þér, kóngsson minn!" spurði dómarinn yngsta bróðurinn, sem þagði, "hvað lízt yður?"
"Mér virðist ræninginn hafa sýnt mest veglyndi," svaraði þriðji kóngssonurinn, "ég skil ekkert í því, að hann skyldi standast fegurð konunnar, og því síður, að hann skyldi geta stillt sig um að ræna hana. Gimsteinarnir, sem prýddu hana, hljóta að hafa æst ágirnd hans ákaflega, og það er furða, að hann skyldi vinna slíkan sigur á sjálfum sér."
Þá tók dómarinn til máls og hvessti á hann augun: "Þér dáizt of mikið að valdi því, sem ræninginn hafði yfir sjálfum sér, til þess að mig ekki gruni, að þér hafið dregið undir yður gimsteina hins hásæla konungs, föður yðar. Gangizt við því, herra, og látið ekki hégómlega blygðun aftra yður. Ef þér hafið verið svo breyskir, að láta eftir ágirndinni, getið þér bætt úr breyskleikanum, með því að kannast við hann."
Kóngsson roðnaði við þessi orð og meðgekk sannleikann."
Kansade sagði ekki sögu þessa árangurslaust. Hún þýddi hana á verra veg, svo að Sindbað konungur varð á báðum áttum, og loksins gat hún talið honum hughvarf með þessum orðum: "Herra!" sagði hún, "skapadægur þitt er nær en þú hyggur. Þú ert að lengja líf sonar þíns fyrir hættulegar fortölur vezíranna, og hver veit nema illmennið á morgun reki hnífinn í hjarta þitt. Æ, hvar er ég þá, ef þín missir við? En því spyr ég, hvað um mig verði? Ég virði mitt líf að vettugi, en ég er hrædd um líf konungs míns og elskulegs eiginmanns."
Að því mæltu fór hún að gráta, og hræsni hennar fékk svo mjög á Sindbað, að hann sagði klökkvandi: "Ó mín fagra drottning! Þerraðu af þér tárin. Nú skulum við ganga til hvíldar, en því lofa ég þér fyrir víst, að óðara en hvíti hrúturinn (stjörnumerkið) hefur rekið hinn svarta yzt í vestur, læt ég höggva höfuðið af fjandmanni okkar beggja."
Morguninn eftir stóð Sindbað konungur upp með þeim ásetningi, að gera drottningu að skapi. Hann settist í hásæti sitt og skipaði böðlinum að sækja son sinn.
Þá gekk fram sjötti vezírinn til að biðja fyrir lífi Núrgehans, en konungur skipaði honum að þegja og mælti reiðilega: "Það er til einskis vezír, að bera í bætifláka fyrir son minn, dauði hans er fastlega og að fullu ráðinn."
Þá tók vezírinn samanbrotið bréf upp úr vasa sínum og rétti konungi svo mælandi: "Vill yðar hátign láta lesa þetta fyrir yður og taka eftir því með athygli? Eftir á getið þér gert sem yður þóknast."
Sindbað konungur tók við bréfinu, braut það upp og las: "Ó þú vitri og hamingjumikli konungur, ég hef eingöngu stundað stjörnuspár. Þegar ég stillti stjörnumát sonar þíns, varð ég þess var, að hann mundi verða í gífurlegum háska í fjörutíu daga. Varastu að láta drepa hann áður en þeir eru liðnir."
Allir vezírarnir lögðust á eitt að styrkja þetta mál og sögðu: "Konungur! Bíddu fyrir guðs sakir, þangað til hinir fjörutíu dagar eru liðnir; þú munt að lokum gleðjast yfir því, að þú hefur haft þessa þolinmæði."
"Svo mun verða," mælti sjötti vezírinn enn fremur, "og ef yðar hátign leyfir mér, ætla ég að segja yður sögu, sem er svipuð tilfelli Núrgehans; þá munuð þér játa, að þolinmæðin þrautir vinnur allar."
Konungur skipaði vezírnum að segja söguna og gerði hann það á þessa leið: